22.01.1951
Neðri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3550)

153. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Ottesen) :

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, af því að ég hef í aðalatriðum gert nokkuð glögga grein fyrir þessu frv. í þeirri grg., sem því fylgir. Það eru aðallega tvö atriði, sem lögð er áherzla á að breyta með þessu frv. Í fyrsta lagi er lagt til, að felldar séu niður þær heimildir, sem fyrir eru í l. um það að víkja frá ákvæðum þeirra að því er vínveitingar snertir, sem sé að fella niður þá heimild, sem dómsmrh. hefur nú til að veita einu veitingahúsi hér í Reykjavík sérréttindi til vínveitinga þar, og annars vegar að fella niður þá heimild, sem lögreglustjórar hafa til þess að leyfa vínveitingar í samkvæmum, sem haldin eru, hvort heldur er á veitingastöðum eða í heimahúsum. Þessi síðari heimild til handa lögreglustjórum er fram komin sem bein afleiðing af þeirri fyrri um sérstakt vínveitingaleyfi handa einu gistihúsi hér í Reykjavík. Þessi sérréttindaveiting olli brátt miklum reipdrætti af hálfu annarra gistihúsaeigenda, sem þótti sér með þessu óréttur ger, og afleiðingin hefur svo orðið sú víðtæka heimild, sem lögreglustjórar hafa nú. Svo sem alkunna er, er þetta vínveitingafargan orðið hin mesta hneykslunarhella, eins og að er vikið í grg. frv. Það hefur nú seinustu dagana verið allmikið um þetta rætt í bæjarblöðunum, og þessar umr. hafa leitt í ljós, að m. a. hafa ýmis æskulýðsfélög, sem sum hver hafa á stefnuskrá sinni það göfuga takmark að vinna á móti vínnautn, flækzt inn í þann leiðinlega faraldur, sem nú geisar í sambandi við vinveitingar í samkvæmum. Þess vegna er fullkomin ástæða til að styðja viðleitni þeirra manna innan þessara félagssamtaka, sem er þetta mjög andstætt og hrýs hugur við þeirri hættu, sem þetta skapar, með því að nema gersamlega úr gildi slíkar heimildir. Og mér skilst, ef ráða á bót á þessu ófremdarástandi, að þá sé nauðsynlegt að fella niður úr áfengisl. ákvæðin um vínveitingasérréttindi til handa þessu eina gistihúsi í Reykjavík, svo og undanþáguheimild, þá, sem lögreglustjórar nú hafa til að leyfa vínveitingar. Með því gerði Alþingi hreint fyrir sínum dyrum.

Hitt atriði frv. miðar að því að skapa grundvöll fyrir því, að þau ákvæði, sem eru í gildandi l. og felast í 9. gr. áfengisl., geti orðið raunhæf, en þar er um að ræða, að fólki á stöðum, þar sem áfengisútsölur eru, er heimilað að gera samþykkt um það innan þeirra takmarka, sem í l. felast, hvort slíkar útsölur skuli lagðar niður eða ekki, auk þess sem heimilt er, að atkvgr. fari fram á þeim stað, sem áfengisútsala er fyrirhuguð, um það hvort hún skuli opnuð þar eða ekki. Þessi ákvæði, sem hafa verið í gildi síðan árið 1935, hefur ekki verið hægt að framkvæma, vegna þess að þá var sett inn í l. ákvæði um það, að ef svo stæði á, að ríkisstj. teldi að þessi l. kynnu að brjóta í bága við milliríkjasamninga, þá skyldi hún gera þær ráðstafanir, er hún áliti nauðsynlegar til þess að samræma þá samninga ákvæðum laganna. Að því loknu skulu l. öðlast gildi, enda birti ríkisstj. um það tilkynningu. Enn hefur ekkert gefið tilefni til þess í sambandi við milliríkjasamninga, sem síðan hafa verið gerðir, að þessi ákvæði, þó í gildi væru, mundu verða neinn þrándur í götu fyrir því, að hægt væri að fá slíka samninga gerða. Hins vegar hafa þær ríkisstj., sem síðan hafa setið að völdum, ekki gefið út neina tilkynningu þessu viðkomandi, og á þessu hefur það síðan strandað, að þessi ákvæði l., sem margir leggja mikið upp úr, hafa verið gersamlega óvirk, þannig að sá réttur, sem fólki á þessum stöðum er veittur í 9. gr. 1., hefur verið því einskis virði, sökum þess að þetta ákvæði, sem ég nefndi áðan, hefur staðið í vegi fyrir því, að svo geti orðið. Þess vegna er í þessu frv. — og það er annar meginþáttur þess — lagt til, að þetta ákvæði í sambandi við milliríkjasamninga verði fellt niður, og þar með fær þetta fólk tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós, og eftir því fer það svo, hvort þær takmarkanir á vínsölu verði gerðar, sem þeim er lagt í vald að velja um.

Það eru svo tvö önnur smáatriði í þessu frv., sem ég legg til að verði felld niður úr áfengisl. — Annað þeirra hefur verið óvirkt nú um langt tímabil, en það er þannig til komið, að á hernámsárunum var ríkisstj. veitt heimild til að leyfa bruggun á sterku öli fyrir brezka setuliðið. Þessi heimild stendur enn í l., og tel ég eðlilegt, að hún verði nú felld niður. — Enn fremur er lagt til að hækka vissa tegund sekta í sambandi við óleyfilegan innflutning áfengis. Menn verða nú að greiða vissa krónutölu fyrir hvern lítra, sem fluttur er inn af áfengi á ólöglegan hátt, eða 40 kr. á hvern lítra, sem ekki er í samræmi við það verðlag, sem nú er, og legg ég til, að sektin verði hækkuð upp í 400 kr. á hvern lítra. — Ég hef þá gert grein fyrir aðalákvæðum þessa frv. Og væri mjög mikilsvert, þó að frv. þetta sé nú seint fram komið, að það gæti fengið allrækilega meðferð hér á Alþ. Og ef ekki vinnst tími á þessu þingi til þess að afgr. málið, þá ætti sú meðferð, sem það þó fær hér, að greiða nokkuð götu þess, að frv. sama efnis fengi skjótari afgreiðslu á næsta þingi.

Í Sþ. liggur nú fyrir brtt. frá mér í sambandi við þáltill., sem borin var fram um endurskoðun á áfengislöggjöfinni, um að gaumgæfileg og rækileg endurskoðun verði gerð á þessum lögum. Því að það eru vissulega miklu fleiri ákvæði í áfengisl., sem ástæða væri að taka til athugunar og gera breyt. á, heldur en í þessu frv. mínu felast. Frv. þetta miðast eingöngu við tvö aðalatriði, sem ég hef nú gert grein fyrir og nú eru, eins og sakir standa, mestur þyrnir í augum manna viðkomandi framkvæmd áfengislaganna.

Vil ég svo gera að till minni, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. allshn.