16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3569)

165. mál, menntaskólar

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Í frv. því, sem liggur hér fyrir á þskj. 564, er lagt til, að framvegis skuli tvö næstu ár leyft að starfrækja miðskóladeild við menntaskólann á Akureyri, ef þar reynist vera nægilegt húsrúm til staðar. Þetta er framlenging um tvö ár á því fyrirkomulagi, sem hefur verið þar næstliðin 2 ár þrátt fyrir hin almennu ákvæði skólalaganna, og átti það ákvæði að vera í gildi til vorsins 1951. Nú er það þannig, að þessi lög eru að falla úr gildi, en ástæður enn þá fyrir hendi að starfrækja þessa miðskólakennslu. Hefur n. orðið sammála um að mæla. með því, að þetta verði framlengt um 2 ár, en þó skrifa 2 nm. undir nál. með fyrirvara.

Ég skal taka það fram, áður en ég skýri frá áliti n., að fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru óskir mjög margra aðila norðanlands, hæði skólastjóra menntaskólans, sýslunefnda, ályktun Fjórðungssambands Norðurlands og margra einstaklinga á Norðurlandi, sem telja þetta fyrirkomulag heppilegra.

Í fylgiskjali, sem fylgir grg. sjálfs frv., er gerð ýtarleg grein fyrir málum menntaskólans, en stefna hans hefur frá öndverðu sætt gagnrýni fræðslumálastjórnarinnar.

Í n. voru þegar í upphafi skiptar skoðanir um þetta mál, en unnið hefur verið að því eftir mætti að samrýma sjónarmið manna, og varð niðurstaðan sú, að n. mælir með því, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem hún flytur á þskj. 671. Tveir nm. hafa þó skrifað undir nál. með þeim fyrirvara, að verði brtt. ekki samþ., þá muni þeir ekki fylgja frv. Í þessari breyt. felst það í fyrsta lagi, að hér er aðeins um heimild að ræða handa skólanum til að halda þessari kennslu uppi, ef húsrúm verði til staðar. Í öðru lagi er hér aðeins um tvo bekki að ræða, svo að það orkar ekki tvímælis, og sömuleiðis, að nemendur í lærdómsdeild sitja fyrir húsnæði í heimavist skólans, svo að ekki verði gengið á hlut þeirra. Enn fremur er það skýrt tekið fram, að hér eigi að vera um óskiptar bekkjardeildir að ræða. Hv. þm. munu átta sig á, hvað þar er átt við, þegar þeir athuga það, að í miðskóladeildinni eru um 100 manns, en hins vegar, ef þar yrðu aðeins einfaldir bekkir, yrði ekki hægt að koma þar svo mörgum mönnum fyrir. Virðist einsætt, að utanbæjarnemendur verði látnir sitja fyrir þessari kennslu, enda hafa Akureyringar sinn eigin gagnfræðaskóla, en ýmis héruð hafa þá ekki, þar sem þó væri þörf fyrir þá. — Mér finnst, að með þessari breyt. sé komið mjög til móts við þá menn, sem gátu ekki fellt sig við málið eins og það kom fram í upphafi.

Ég vænti þess, að þetta frv. mæti svo ekki mótspyrnu í þessari hv. d. og megi ná fljótt og vel fram að ganga.