19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3577)

165. mál, menntaskólar

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hv. þm. A-Sk. hefur nú gert grein fyrir fyrirvara sínum í menntmn. í alllangri og — eins og vænta mátti — skilmerkilegri ræðu. Ég skal ekki eyða löngum tíma til andsvara þeirri ræðu, enda er þess raunar ekki mikil þörf. Það, sem fram kom hjá hv. þm., beindist að mjög miklu leyti að því frv., sem flutt var á Alþ. 1948, svo og að frv. eins og það var flutt í öndverðu hér í hv. d., en síður að þeirri afgreiðslu málsins, sem nú er fyrirhuguð af n. samkv. brtt. hennar. Einnig gerði hv. þm. nokkuð að umræðuefni þá grg. frá menntaskólanum á Akureyri, sem prentuð var sem fylgiskjal með frv. og er í ýmsum atriðum mjög svo fróðleg varðandi uppeldismálin. Eru þar eitt eða tvö atriði, sem ég vildi aðeins minnast á.

Í fyrsta lagi er þetta, sem töluvert kemur fram hér í umr., að málið sé flutt á Alþ. fyrst og fremst eða jafnvel eingöngu fyrir áeggjan menntaskólakennara á Akureyri. Þetta er ekki alls kostar rétt skýrt. Kennarar menntaskólans á Akureyri hafa að vísu óskað þess, að kennsla þessi héldi áfram, en um þetta mál liggja fyrir fjölmargar áskoranir úr ýmsum héruðum, þeim sem sérstaklega hafa sótt skólann. Í skjölum málsins nú og áður hef ég fundið þessar áskoranir. Það er áskorun frá bæjarstj. Akureyrar, frá Stúdentafélagi Akureyrar, frá sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, frá sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu, frá sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, frá sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu. Enn fremur hafa komið áskoranir frá fleiri félagasamtökum, eins og t. d. aðalfundi Kaupfélags Eyfirðinga, frá aðal fundi Kaupfélags Norður-Þingeyinga, en slíkir fundir fjalla oft um ýmis menningarmál héraðanna. Að lokum vil ég nefna, að frá Fjórðungssambandi Norðlendinga hefur að ég ætla tvívegis borizt áskorun um þetta. Það er því á nokkrum misskilningi byggt, að menntaskólinn á Akureyri sé einn um að óska eftir því, að þessi kennsla verði heimiluð, heldur eru óskir um það margar og almennar á Norðurlandi. Og það hefur a. m. k. ráðið allmiklu um afstöðu mína til þessa máls, að ég hef viljað taka tillit til þessara óska. Mér finnst í raun og veru ekki ákaflega mikið gert, þó að Alþ. verði við þessum óskum, sem svo eru margar fram bornar og ákveðnar, ef hægt er að gera það með því húsrými, sem nú er í skólanum, — og það skilyrði er beinlínis sett í frv., — og án nokkurs verulegs kostnaðar fyrir ríkissjóð, því að það er svo, eins og hv. þm. A-Sk. tók fram, að ríkissjóður greiðir við gagnfræðaskólana öll kennslulaun, alveg eins og við menntaskólana. Þessari kennslu hefur verið haldið uppi með samþykki Alþ. undanfarin tvö ár, og virðist ekki sérstök ástæða til þess, meðan þetta húsrými er fyrir hendi, að hætta henni. En hins vegar er ekki farið fram á neina frambúðarskipun í þeim efnum og að sjálfsögðu gengið út frá því, að ef lærdómsdeild stækkar svo, að hún þarf á öllu húsnæði skólans að halda, þá fái hún það. Það er fyrst og fremst þetta, sem hefur vakað a. m. k. fyrir mér í fylgi mínu við þetta máli En ég læt alveg hjá líða að ræða þann ágreining, sem kann að vera milli uppeldisfræðinga um það, hvort hollara muni að hafa fjögurra eða sex ára menntaskóla. En hér stendur þannig á, að það er starfandi gagnfræðadeild. Það er húsrými til fyrir hana. Hins vegar eru mörg héruð, þar sem er enginn gagnfræðaskóli. Því þá ekki að nota þetta, sem til er, ríkinu að kostnaðarlitlu, fyrir gagnfræðaskóla, ef þess er óskað? Það hefur komið fram, að aðsókn að lærdómsdeild skólans væri þegar svo mikil, að þó að ný heimavist yrði fullbyggð, mundi hún ekki gera betur en að taka við nemendum lærdómsdeildar. Nýja heimavistin rúmar 150–160 nemendur. Má geta þess, að í skólahúsinu er húsrými, sem tekur allmargt fólk, líklega 70 manns, en sennilega verður eitthvað af því tekið í þágu kennslunnar. En það er ekki nóg að líta á þær tölur, sem hér eru nefndar um fjölda utanbæjarmanna í skólanum, því að það er alltaf allverulegur hluti þeirra, sem ekki sækir um heimavist. Það eru nemendur, sem eiga skyldmenni eða vini í bænum, sem þeir kjósa að eiga heima hjá, og geta dvalið þar með svipuðum kjörum og í heimavistinni. Auk þess eru alltaf einstakir nemendur, sem alls ekki vilja vera í heimavist, — eru þannig skapi farnir, að þeir vilja ekki vera í slíku fjölmenni. Nú í ár eru samtals í skólanum um 60 utanbæjarnemendur, sem ekki hafa sótt um heimavist. Þetta veldur því, að það má gera ráð fyrir, að jafnvel þótt nemendatalan í lærdómsdeildinni verði svo há, að hún geti fyllt heimavistina, verður nokkur frádráttur, eins og verið hefur. En þetta rúm verður tekið til notkunar jafnskjótt og þörf er á.

Nokkur árangur er þegar kominn af þessum tveimur vetrum gagnfræðakennslunnar á Akureyri. Því miður er ég ekki nægilega kunnugur til þess að geta rætt um það mál, en á það var minnzt af hv. þm. A-Sk., og hefur hann frá fræðslumálastjóra einkunnir nemenda við landspróf. Munu þær ekki lakari en einkunnir frá öðrum skólum, sem hafa kennt nemendum undir landspróf, og landspróf er nokkuð þungt.

Einnig er það að athuga, að þessir nemendur hafa, margir hverjir a. m. k., numið sín fræði á tveimur vetrum, sem aðrir nota til þrjá vetur. Ef ætti að gera samanburð, væri ekki úr vegi að taka tillit til þessa. Annars má gera ráð fyrir því, ef frv. verður samþ. með brtt. menntmn., að mikill meiri hl. þeirra nemenda, sem sækja hina óskiptu deild, verði nemendur, sem eiga heima utan Akureyrar, og þeir menn eru yfirleitt eldri en bæjarmenn, og það atriði er ekki eins mikilsvert og hv. þm. A-Sk. vildi vera láta, að hér sé verið að leggja of mikið á þá. Það hefur alltaf sýnt sig, að þeir, sem hafa sæmilega námshæfileika og námsáhuga, geta oft komizt af með skemmri tíma til að ná ákveðnum áföngum í námi en almennt gerist. Og ég held það sé hreint ekkert á móti því að gefa þeim, sem þess eiga kost eða þurfa þess kannske beinlínis og vilja leggja það á sig, — gefa þeim tækifæri til að ljúka námi á eitthvað styttri tíma en almennt er.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Um margt af því, sem hv. þm. A-Sk. tók fram, er ég honum sammála. Ég vil ekki segja, að ég geti skrifað undir allt í álitsgerð menntaskólans á Akureyri. En ég hef gert grein fyrir því, af hverju ég er þessu máli fylgjandi, og ég vil að lokum vænta þess, að það samkomulag, sem orðið hefur um málið í menntmn., megi verða til þess, að það gangi greiðlega fram. Hv. þm. hafa séð, að hv. þm. A-Sk. hefur gert það að vel hugsuðu máli að taka sína afstöðu, og sú niðurstaða, sem hann hefur komizt að, mætti verða til þess að aðrir hv. þm. hikuðu síður við að ljá málinu lið.