19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (3579)

165. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Rang. höfum flutt brtt. á þskj. 692 við brtt. n. Efni hennar er það, að heimild sú, sem gert er ráð fyrir í brtt. n. til handa menntaskólanum á Akureyri, skuli einnig gilda fyrir menntaskólann í Reykjavík. Um efnisatriði frv. almennt skal ég ekki ræða, en einungis láta þess getið, að við flm. þessarar brtt. teljum það eðlilegt, að verði ríkisstj. veitt heimild til að láta umrædda gagnfræðadeild starfa við menntaskólann á Akureyri, þá nái sú heimild einnig til menntaskólans í Rvík. Aukaatriði í því sambandi er svo hitt, hvort skilyrði kunna að vera betri á öðrum staðnum en hinum. Það er á valdi hæstv. ríkisstj. að meta það. Við flm. teljum hins vegar ekki rétt, að þessi till. komi til atkv. fyrr en við 3. umr. málsins, þegar séð er, hvernig málinu í heild verður tekið, og tökum því till. okkar aftur til 3. umr.