06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru ummæli hæstv. dómsmrh., sem gáfu mér tilefni til að biðja um orðið áðan. Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðu hans. Hæstv. ráðh. taldi, að mjög væri ólíkur undirbúningur á þessu máli, sem hér liggur fyrir frv. um, og því, sem kemur fram í brtt. á þskj. 118, og það er rétt. Það hefur farið fram rannsókn, kannske mjög nákvæm og ýtarleg, á hag manna á Norðausturlandi í sambandi við óþurrkana í sumar og afleiðingar þeirra. Hins vegar hefur ekki farið fram tilsvarandi rannsókn á því, sem brtt. okkur hv. 6. landsk. þm. fjallar um. Þetta er rétt. En ástæðan liggur. í augum uppi. Og eins og brtt. er samin, er beinlínis tekið tillit til þess, að þessi rannsókn hefur ekki farið fram. — Ég tók hér fram, að eins og mér hefði líkað vel, hvernig ríkisstj. brást við gagnvart ástandinu á Norðausturlandi, eins líkaði mér illa, hvernig hún snerist gagnvart Vestfjörðum og Siglufirði. Og mig furðar á því, að stjórn, sem er jafnglöggskyggn á erfiðleika og ástand atvinnuvegar bændastéttarinnar, skuli geta verið jafntómlát viðkomandi atvinnuástandi annarra í landinu og þeim, sem við aðra atvinnu fást en landbúnað. En mér finnst till. sjálf, eins og hún er orðuð, svo augljóslega bera með sér þann aðstöðumun eins og hægt er að setja slíkt fram í stuttu máli, og ummæli hæstv. ráðh. um undirbúningsskort eru því alveg út í hött. Í brtt. segir, að ríkisstj. sé heimilað að verja — ekki fyrirskipað — ekki 500 þús. kr., heldur allt að 500 þús. kr. í því skyni, sem í till. segir. Til hvers? Til þess, að aflokinni rannsókn, ef hún leiðir í ljós, að þörf er á því, að afstýra neyðarástandi á Vestfjörðum vegna langvarandi aflabrests þar á undanförnum árum og til aðstoðar við vélbátaútgerðina þar á yfirstandandi haustvertíð. Hér er svo augljóst ákveðið sem hægt er að ætlast til. Það fyrsta, sem á að gera, er að framkvæma skjóta rannsókn, af því að málið þolir ekki bið. Á grundvelli þeirrar rannsóknar yrði svo upphæðin og hjálpin, sem um yrði að ræða og heimiluð yrði, ákveðin. Við flm. brtt. höfum ekki tiltekið upphæðina hér, sem er af því, að rannsókn um málið er ekki fyrir hendi. En það er ríkisstj. sök, sem við viljum að bætt verði úr skjótlega. — Það er ekki til að tryggja hag útgerðarinnar á Vestfjörðum til frambúðar, sem þessi brtt. er flutt, heldur er ætlunin með flutningi hennar að tryggja haustvertíðina nú í haust og í öðru lagi að koma í veg fyrir skort, ef hætta á skorti á þessu svæði væri fyrir hendi. Fyrst viljum við láta rannsaka, síðan gera skýrslu og síðan veita fé í þessu tvennu skyni, ef rannsókn leiðir í ljós, að nauðsynlegt þyki. En hér er skorað á ríkisstj. að athuga þetta mál og ákveða síðan, hvað þarf að gera, og haga fjárveitingu eftir því. Mig furðar því mjög á því, að hæstv. ríkisstj. skuli segja, rétt eins og það væru rök móti brtt. að þetta sé illa undirbúið, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað undirbúa þetta mál. Menn hafa líka talað um, að þessi upphæð, sem til er tekin hér í brtt., sé alveg ófullnægjandi og að það sé næstum broslegt að tala um slíka upphæð til viðreisnar bátaútveginum á Vestfjörðum. En að menn tala svo, er af því að menn hafa ekki lesið brtt. Það er aðeins vegna haustvertíðarinnar í haust, að því er til stuðnings við útgerðina beinlínis kemur, sem verið er í till. að tala um aðstoð. Mér virðist sú sorglega staðreynd liggja fyrir, að um næstu áramót, þegar vélbátaútgerð á að hefjast, verði að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að koma vélbátaflotanum af stað til fiskveiða. Mér virðist svo, eftir öllu, sem fyrir liggur um þetta mál. Og þessar aðgerðir hljóta að ná til bátanna á Vestfjörðum, ekki síður og alveg eins og til báta í öðrum landshlutum. Það er ekki um neinar allsherjarráðstafanir, sem hér er að ræða í brtt. vegna bátanna, heldur hitt, að brúa bilið og afstýra vandræðum og neyð, sem farið er að gera vart við sig á þessum stöðum, og tryggja; að útgerð bátanna á Vestfjörðum geti hafizt og haldið áfram í haust. Og við flm. till. gerum ráð fyrir, að sú upphæð, sem í till. er nefnd, ætti að nægja til þessa. Getur líka verið, að ef lýsingar okkar á ástandinu eru orðum auknar, þá mætti svo fara, að ekki þyrfti að nota þessa upphæð alla. Við höfum líka gert ráð fyrir því í till., að allt að þessari upphæð, sem nefnd er þar, yrði varið í þessu skyni. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, því að það er augljóst mál, að ef þessi brtt. verður samþ., þá þarf ríkisstj. ekki að ganga lengra í málinu af þeim ástæðum, sem í till. greinir, heldur en í ljós kemur, að bein og brýn þörf krefur á hverjum tíma, og aðeins á því sviði, sem þar fjallar um.

Engum dettur í hug að neita því, að stöðvun togarans á Ísafirði hafi heldur aukið á erfiðleika Ísafjarðarkaupstaðar. En þó að það hefði ekki til hennar komið, þá er ekki vafi á því, að það, að vertíðin brást sjálf, þó að togarinn hefði haldið áfram, hlaut að skapa mjög alvarlegt ástand.

Hæstv. ráðh. gat þess, að ýmsir ágallar hefðu verið á málflutningi hv. 1. flm. brtt. þessarar. Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh. um það. Hv. 6. landsk. mun svara fyrir sig. En mér finnst mjög ómaklegt, ef hæstv. ráðh. telur, að það sé rétt að láta málefnið gjalda þess, þó að honum fyndist hv. 6. landsk. þm. hafa eitthvað öðruvísi og óheppilegri málflutning en hæstv. ráðh. hefði kosið um málið. Það, sem hér er um að ræða samkv. okkar brtt., er að veita ríkisstj. heimild til að nota allt að þeirri upphæð, sem hér er um að ræða, til þess að haustvertíð á Vestfjörðum geti átt sér stað og verið haldið áfram og til að afstýra neyðarástandi, sem virðist fyrir dyrum á Vestfjörðum og er þegar byrjað þar á vissum stöðum.

Hv. frsm. fjhn. sagði, að mjög væri ólíkt ástatt hjá bændum, sem 1. gr. frv. er ætlað að taka til, annars . vegar og hins vegar því fólki, sem brtt. okkar hv. 6. landsk. þm. sérstaklega er ætlað að taka til. Bændur vantar ekki brauð, sagði hv. frsm., en ef menn vantaði brauð, þá gætu menn sagt sig til sveitar, og ef sveitin gæti ekki hjálpað, þá ætti að snúa sér til ríkisstj. (KK: Ég sagði, að bændur vantaði ekki brauð á líðandi stund.) En ef á öðrum staðnum er sultur, en á hinum staðnum alls nægtir, þá kallar meir að að hjálpa þeim, sem svelta, heldur en hinum, og þess vegna á að sinna þeirra málum fyrr, sem svelta, en hinum síðar. Sé það rétt, að hér sé um það að ræða beinlínis, að fólk vanti brauð og að sulturinn sé alveg við dyrnar á heimilum á Vestfjörðum, þá er því óskiljanlegra, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa látið rannsaka ástandið þar og gert ráðstafanir til úrbóta. Það er náttúrlega ákaflega góð leið að segja: Fólkið getur farið á sveitina, og síðan kallað til ríkisstj. — Hví mega þá ekki bændur fara á sveitina? — Nei, það er sorglegur sannleikur, að hæstv. ríkisstj. hefur haft opnari augu fyrir nauðsyn og þörf manna, sem eru á vissum stöðum á landinu og stunda vissa atvinnu, heldur en óskum manna og þörf á öðrum stöðum á landinu, sem stunda aðra atvinnu.

Hæstv. dómsmrh. talaði yfirleitt af skilningi um þetta mál og sagði, að enginn mætti taka orð sín svo, að hann væri því ekki fylgjandi, ef nauður ræki til, að bæta úr ástandinu á Vestfjörðum, sem brtt. fjallar um, en hann taldi heppilegra að taka málið upp sem sérstakt mál. Ég tel, að fljótlegast og heppilegast sé að taka málið upp eins og lagt hefur verið til í till. En ég spyr hæstv. dómsmrh., hvort — ef þessi brtt. verður felld — við megum vænta þess, að ríkisstj. taki málið upp á einn eða annan hátt. Það er augljóst mál, að eina leiðin til þess að málið gangi fljótt, er sú, að ríkisstj. og flokkar hennar taki málið upp í því formi, sem hún telur heppilegast. Og ég spyr hv. frsm. fjhn., hvort hv. fjhn. mundi taka till. okkar að efni til upp á sína arma og bera hana eða efni hennar fram til sigurs, ef brtt. þessi væri að formi til úr sögunni, því að það er augljóst mál, að hvorki bráðabirgðavandræðin á Vestfjörðum né vandræði vélbátaútgerðarinnar í bráð eða lengd verða leyst með þeim kínalífselixír, sem einn hv. þm. hampaði hér í umr., sem sé því, sem hann virtist telja eina ráðið til að bæta úr vandræðunum, bara að lækka kaupið og helzt lengja vinnutímann um leið. Ég vildi skjóta því til hv. þm., að ég hef séð einhvers staðar áætlun um afkomu vélbáts hér við Faxaflóa á næstu vetrarvertíð, miðað við gengislækkunina og verð á fiskinum. Og rekstrarkostnaður hans er áætlaður alls 90 þús. kr. Vinnutíminn er þar ótakmarkaður, svo að það þarf ekki lengingu á honum. Og ég held, að þessi 90 þús. séu 60—70%„ af áætluðum hlut skipsins. Heldur hv. þm., að viðreisnin fyrir sjávarútveginn liggi í þessu tilfelli í því að lækka bara aflahlutinn, sem er kaup sjómanna á bátunum? Það heyrðist mér helzt á hans ummælum. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að sú skipshöfn, sem ætlar sér að lifa með sínar fjölskyldur á 40% af brúttótekjunum, sem við Faxaflóa hafa verið hjá bátunum, kæmist að raun um, að þessar tekjur yrðu orðnar lítils virði eftir skamman tíma, því að það er fullvíst, að það er ómögulegt fyrir fólk að lifa á upphæðum, sem eru nokkuð nálægt því svo litlar, hvað þá ef þessi inntaka af kínalífselixír hv. þm. væri tekin inn. Og hv. þm. veit, að það er ekki nema í rétt einstaka tilfellum, sem hægt er að ráða bót á vandræðum bátaútgerðar með kauplækkun einni saman, ef fólkið á að lifa, sem atvinnuna stundar.