23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3592)

165. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Það er nú kannske ekki ástæða til að þrautræða þetta mál við 1. umr. Það fer að sjálfsögðu til nefndar og verður þá fyrst aðallega rætt, þegar það hefur fengið athugun í n., en þó vil ég segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. S-Þ. sagði hér áðan. Hann varpaði fram þessari spurningu: „Hvers vegna er frv. fram komið?“ Og hann svaraði þessu á þá leið: „Það er fram komið vegna eindreginna áskorana fólksins fyrir norðan, það vildi tryggja sínum börnum sérstaka aðstöðu til að nota sinn skóla og heimavistina, sem hann hefur að bjóða.“ m. ö. o., það er nágrenni Akureyrar, sem vill nota aðstöðuna til þess að koma sínum unglingum í heimavistarskólann á Akureyri, en við þetta rýrnar aðstaða unga fólksins annars staðar á landinu til að nota húsnæði heimavistarinnar á Akureyri. Ég þarf ekki annað en vitna til þeirrar reynslu, sem ég hef um það, hvernig hefur gengið að koma unglingum af Ísafirði fyrir í heimavist á síðustu árum. Þeir hafa yfirleitt fengið synjun, og helzt hefur það gengið, hafi verið sótt um pláss 2–3 árum fyrir fram. Það var aðeins einn nemandi, sem komst í heimavistarpláss s. l. haust, og það var vegna þess, að hann hafði sótt ári áður, en hinir fengu allir neitun.

Þá sagði hv. þm., að fjórðungsþing Norðurlands hefði sent frá sér áskorun um, að gagnfræðadeildin mætti haldast við menntaskólann. Ég tel það nú ákaflega veik rök. Þessi þing eru stofnuð sem félagsskapur til að hrinda fram stjórnarskrármálinu og taka svona í leiðinni að gera samþykktir um hin og þessi mál, og fer það þá oft mikið eftir tilviljun, t. d. eftir því, hverjir sitja fundina, o. s. frv.

Þegar núverandi skólameistari á Akureyri kom hér nú í vetur til að vinna að framgangi þessa frv., átti hann tal við mig, — við erum gamlir skólabræður frá menntaskólanum á Akureyri, — og ég ræddi við hann um möguleika fyrir auknu plássi í heimavistinni á Akureyri á næsta vetri, en hann sagði, að því miður væri ekki hægt að gera sér miklar vonir um, að þar yrði meira pláss næsta vetur, og því mjög litlar líkur til, að fólk fengi þá frekar aðgang að heimavistinni en á s. l. hausti. En samt var borið fram frv. fyrir tveimur árum á þeim grundvelli, að hagnýta ætti það húsnæði, sem annars stæði autt í þessum menntaskóla, en það hefur bara ekki staðið það hingað til og ekki útlit fyrir, að svo verði á næstunni. Sannleikurinn er sá, að menntaskólinn á Akureyri býr ekki sjálfur við nægilegt húsnæði.

Þá andmælti hv. þm. S-Þ. því, að prófstakkurinn yrði þrengri í þeirri unglingagagnfræðadeild, sem hér á að lögfesta næstu tvö ár. En það er þó augljóst mál, að þegar á að komast yfir sama námsefni og ganga undir sama próf að loknu tveggja ára námi og ella er gengið undir að afloknu þriggja ára námi, verður það ekki gert með öðru móti en því að miða kennsluna einstrengingslega við prófkröfur til þess að ná markinu, og það bitnar á kennslunni á margan hátt. Þarf engan úrskurð um það, prófstakkurinn verður þrengri með þessu tveggja ára námi. Og hann er nú það þröngur, að kennarar menntaskólans á Akureyri treystu sér ekki til þess, er heimildin var fengin, að taka með allar námsgreinar, sem kenna skal samkvæmt l. í bóknámsdeildum gagnfræðaskólanna. Fólkið í nágrenni menntaskólans á Akureyri heimtar aðgang að honum, að því er sagt er, og það kemur mér ekki undarlega fyrir sjónir, og ég get trúað, að hann sé góður skóli, eins og orð hefur farið af. En það er annar skóli á Akureyri, gagnfræðaskólinn, sem þessi breyting bitnar á allharkalega. Þar eru 60 utanbæjarnemendur, og 47 af þeim eru úr Eyjafjarðarsýslu og 13 annars staðar að. Mér sýnist því, að fólkið í nágrenni Akureyrar vilji nota sér gagnfræðaskólann, enda þótt þar sé engin heimavist. Hins vegar, ef það stæði nú ónotað húsnæði í heimavistinni í menntaskólanum, þá sé ég ekki, að það þyrfti að hrófla neitt við skólakerfi landsins til þess, að samkomulag mætti verða um, að gagnfræðaskólinn fengi afnot af húsrými þar, svo að það yrði þá fullnýtt. Ég skil vei, að skólastjóra gagnfræðaskólans þykir sér óleikur ger með þessum ráðstöfunum. Hann sagði mér þannig í haust, að hann hefði ekki vitað fyrr en seint og um síðir, hve margir innanbæjarnemendur mundu stunda nám í skóla hans eða hverjir ætluðu í gagnfræðadeild menntaskólans. Hann fékk svo efnivið í tvær verknámsdeildir og eina blandaða bóknámsdeild, þar sem talsvert var af miðlungsfólki með hinum betri nemendum og þannig þyngra undir fæti fyrir kennarana. Hins vegar hefði hann fengið nemendur í tvær bóknámsdeildir og tvær verknámsdeildir, ef undanþágan hefði þá ekki verið komin í gildi, og önnur bóknámsdeildin hefði þá verið skipuð úrvalsnemendum, og hefði þannig verið unnt að haga kennslunni meir við hæfi hvors hópsins fyrir sig. — En hvernig stendur svo á því, að úrval nemenda á Akureyri fer heldur í gagnfræðadeild menntaskólans? Sumir kunna að segja, að það sé vegna betri kennslu í þeim skólanum. En hvað sem því líður, þá finnst mér aðalatriðið liggja í augum uppi. Fólkið á Akureyri vill koma börnum sínum strax í þann skóla, sem þau eiga að halda áfram í, vera þeirra í skólanum verður þannig tryggari og þau fá að vissu leyti forgangsrétt um að dvelja áfram í skólanum. Hins vegar yrði réttur annarra og aðstaða þannig rýrð. Og þótt bóknámsdeild gagnfræðaskólans sé jafngóð og gagnfræðadeild menntaskólans, þá hlýtur af þessum sökum að verða meiri aðsókn að 1. bekk menntaskólans, þar sem nemendum hans er í rauninni skapaður forgangsréttur til framhaldsdvalar í skólanum.

Ég skal nú koma að einn eða tveimur atriðum, sem mér þóttu athugaverð í ræðu hv. þm. S-Þ. Hann minntist á, að það stæði til að endurskoða nýju skólalöggjöfina, og vafalaust er það rétt, að slík endurskoðun verði nauðsynleg, er kostir hennar og gallar koma í ljós. Um það er ég sammála hv. þm. En er ekki rétt, að hún sé þá framkvæmd um skeið eins og ráð hefur verið fyrir gert, í stað þess að vera með útúrdúra og frávik í allar áttir á því tímabili, þegar afla skal reynslu um framkvæmd hennar, svo að unnt sé að ganga úr skugga um, að hvaða leyti hún reynist vel og í hverju henni er áfátt? Ég sé ekki betur, og hnígur þessi röksemd að stuðningi við það, sem hv. þm. vildi hrekja með henni. — Þá vék hv. þm. að því, að þessari skipun fylgdi að líkindum enginn aukakostnaður fyrir ríkissjóð. Það er nú svo. Sá þáttur, sem ríkið á nú í að greiða kostnað við gagnfræðaskólana og héraðsskólana, er fólginn í því, að það greiðir öll laun fastra kennara, en allur annar kostnaður er greiddur af héruðunum sjálfum að hálfu og hinn helmingurinn af ríkissjóði. Sá kostnaður, sem t. d. er fólginn í launum aukakennara, hita og lýsingu og viðhaldi á áhöldum, er veruleg fúlga við hvern einasta skóla, og þá fjárfúlgu verður ríkið að greiða að hálfu við umrædda skóla, en að öllu leyti við menntaskólana. Það þarf því ekki neinum blöðum um það að fletta, að það er ekki litið fjárhagsspursmál fyrir ríkið að koma upp tveimur gagnfræðadeildum við menntaskólana á Akureyri og í Rvík, sem ríkið á að kosta að fullu, í stað þess að gagnfræðaskólar alls staðar annars staðar í landinu fá þennan kostnað aðeins greiddan að hálfu að frátöldum launum fastakennara. Og ég skil jafnvel ekki í öðru en það komi fram kröfur um jafnrétti í þessu efni víðs vegar að af landinu, þannig að aðrir gagnfræðaskólar fái einnig að njóta sömu hlunninda um styrk af hálfu hins opinbera og þessar gagnfræðadeildir eiga að njóta. — Það er þannig augljóst, að kostnaður ríkisins af þessum ráðstöfunum er mikill, auk þess sem það fordæmi er skapað, sem leitt getur til þeirrar kröfu, að allir gagnfræðaskólar njóti sömu hlunnindanna og þessar deildir eiga að fá, enda væri hér annars um augljóst misrétti að ræða. Gagnfræðaskólinn á Akureyri hefur þannig verið kostaður af ríkinu síðan um aldamót, á meðan önnur bæjarfélög hafa orðið að taka þátt í kostnaði við sína skóla.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð við þessa umræðu, en tek aðeins fram, að ég er andvígur efni þessa frv. um framlengingu á undanþágunni fyrir þennan ágæta skóla, sem mér er annars mjög kær, menntaskólann á Akureyri, og mun leggja til í menntmn., sem ég á sæti í, að það verði fellt eða þá að öðrum kosti gerðar á því þær breytingar, að námstíminn verði 3 ár eins og í bóknámsdeildum gagnfræðaskólanna og allar námsgreinar, sem í þeim deildum eru kenndar, verði einnig skyldunámsgreinar þar.