23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3593)

165. mál, menntaskólar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það voru tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. 6. landsk., sem ég get ekki látið vera að leiðrétta. Hann taldi, að lítið væri upp úr því leggjandi, þótt fjórðungsþing hefði samþykkt áskoranir í þessu efni, þar sem það þing væri saman komið vegna stjórnarskrármálsins. Þetta er misskilningur, því að fulltrúarnir eru kosnir af sýslun. og bæjarstjórnum til þess að fjalla um öll sameiginleg mál fjórðungsins. Þeir hafa fullan rétt sem umbjóðendur sinna héraða, og till. þeirra um slík mál verður því að taka til greina.

Þá vil ég líka gera athugasemd við það, sem hv. þm. sagði, að menntaskólinn á Akureyri hefði ekki húsakost til að taka á móti nemendum, svo að ekki hlytist skaði af fyrir lærdómsdeild. Nú fylgir frv. skýrsla. Og þar kemur fram, að í heimavist eru 103 nemendur, og allir, sem sóttu um hana, hafa verið teknir, nema 49 menn. Ef hin nýja heimavist væri komin upp, þá gæti skólinn haft í heimavist alls um 160 manns, svo að eftir reynslunni að dæma ætti það húsrými að fullnægja þörfinni, enda segir um þetta svo í grg. menntaskólans, með leyfi hæstv. forseta: „Af skýrslu þessari má marka, að allir umsækjendur um heimavist, bæði úr miðskóladeild og menntadeild, hefðu fengið húsnæði í skólanum í vetur, ef heimavistin nýja væri að fullu tekin til notkunar. Má heita, að umsóknafjöldi og húsrúm standist á endum. Virðist því, að nýja heimavistin geti á næstu árum einnig sinnt þörfum miðskóladeildar.“ Ég veit vel, að gagnfræðaskólarnir eiga sinn metnað og sakna þess, að miðskóladeild menntaskólans dragi til sín sterkustu og beztu nemendurna. En ég held hins vegar, að það sé ekki æskilegt, að afburðanámsmenn séu tafðir á námsbraut sinni með því að láta þá aka vagni tregari nemenda í gagnfræðaskólunum. Ég álít heppilegt, að afburðanemendur séu látnir hafa sem greiðasta leið til að njóta hæfileika sinna og fara með þeim hraða á námsbrautinni sem hæfileikar standa til. Af þeim sökum er miðskóladeildin miðuð við tveggja vetra námið, sem hv. 6. landsk. drap á. Hann talaði um, að það væri misskilningur hjá mér að halda, að miðskóladeildinni mundi ekki fylgja kostnaðarauki fyrir ríkið. En það dæmi, sem hann tók, er ekki rétt upp sett, því að taka verður tillit til þess, að hvert ár, sem skólanemandi styttir námstíma sinn um, er sparnaður fyrir ríkið. Þegar 20 menn ljúka miðskólaprófi eftir tvö ár í stað þriggja ára náms í gagnfræðaskóla, þá er þar um sparnað að ræða, sem taka verður með í reikninginn. Og það er hyggja mín, þó að ég hafi ekki gert mér glögga grein fyrir því reikningslega, að hér verði þannig ekki um fjárhagslegt tjón að ræða fyrir ríkið.

Þá benti hv. þm. á það, sem er út af fyrir sig rétt, að úr því að endurskoða þyrfti skólalöggjöfina, þá væri rétt að fyrirkomulag hennar væri látið gilda í heild, unz það hefði sýnt kosti sína og galla. En þar kemur þá á móti, að miðskóladeild menntaskólans á Akureyri hefur sýnt, að hún gefst vel, og hví þá að leggja það fyrirkomulag niður og eyðileggja það, ef svo færi eftir stuttan tíma, að það teldist hagkvæmt, að menntaskólinn á Akureyri fengi að hafa þessa deild við skólann eins og óskir standa til?