23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3594)

165. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér virðist það vera tvenn meginrök, sem færð eru fyrir þessu frv. Í fyrsta lagi er það, að með þessu fáist betri nýting á húsnæði menntaskólans á Akureyri, en að því hef ég þegar leitt rök, að það er alls ekki eins mikið og skyldi og skólinn býr nú við óæskileg þrengsli. Þannig þarf til dæmis að búa eðlisfræðikennslunni stað í borðstofu og eldhúsi í gamla skólahúsinu, og af þessum sökum hefur orðið að neita fólki, sem ætti að hafa forgangsrétt, um aðgang að heimavist skólans. — Hin rökin eru svo þau, að nemendum sé kleift með þessu að ná miðskólaprófi að 2 árum liðnum í stað þriggja. En hvað segir nú reynslan um þetta? Hvernig tókst það? Með því að leggja nemendurna undir alveg sérstakt próffarg voru það 20 manns, sem stóðust prófið. En hvað voru þeir hins vegar margir, sem féllu? Það voru fleiri, sem féllu á prófinu, en þeir, sem stóðust það, og það er langt frá því, að slíkur árangur sé „normal“. Að vísu olli mænuveikin, sem þá gekk á Akureyri, nokkru um þetta, en ekki nema nokkru. Og það má ganga út frá því sem vísu, að það verður aldrei náð slíkum árangri, að 90–95% af nemendunum nái þessu prófi eftir tvo vetur, nema þá að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, svo sem þær, að foreldrar hafi aðstöðu til að kaupa þekkinguna í nemendurna með nægri aukakennslu. Og ef við setjum nú dæmið þannig upp, hvort betur muni gefast, tveggja ára námið með þeirri ítroðslu og einhæfni, sem þá mótar kennsluna, eða hið lengra nám, þá efast ég um, að nemendurnir græði á því, að svo mjög sé hert á kröfunum, jafnauðvelt sem það er að ofbjóða með slíku kröftum 12–14 ára unglinga, — auk þess sem þetta verður efalaust aukinn kostnaður fyrir ríkið. — Ég vil svo að lokum taka fram, að þegar það liggur fyrir, að menntaskólann á Akureyri skortir fremur húsrúm en að hann hafi það aflögu, og þar sem ljósir eru annmarkar hins stutta náms, þá eru þar með fallnar tvær meginstoðir þessa frv.