06.03.1951
Efri deild: 85. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3599)

165. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, lá fyrir Nd. og átti að vera undanþáguákvæði fyrir menntaskólann á Akureyri um að láta gagnfræðadeild starfa við skólann. Í meðferð Nd. breyttist þetta þannig, þ. e. a. s., þetta var takmarkað þannig, að þessi deild ætti að vera óskipt í þeim skóla, en svo víkkað út þannig, að þessi heimild skyldi einnig gilda fyrir menntaskólann í Reykjavík, þannig að eins og frv. liggur hér fyrir þessari hv. d., er það um það, að óskipt svokölluð miðskóladeild skuli starfa við menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík, ef húsrými og aðrar ástæður leyfa. Má segja, að eins og frv. lá fyrir Nd., þá hafi það verið í allt annarri mynd en það raunverulega er, þegar það kemur hingað til okkar, því að það var borið fram sem lítið og meinlaust undanþáguákvæði í Nd., en þegar það kemur hingað, þar sem gert er ráð fyrir, að l., ef samþ. verða, gildi fyrir tvo skóla landsins, er það ekki lengur lítið undanþáguákvæði, heldur komið á breiðan grundvöll, og verður málið að ræðast út frá því, eins og það liggur fyrir, þegar það kemur hér til þessarar d., en ekki eins og það hefur verið hugsað af þeim, sem báru það fram í Nd. Hér er um að ræða geysimikla breytingu á skólakerfi landsins, en þessari breyt. var eiginlega komið á fyrir tæpum tveimur árum að því er snertir þennan skóla, en heimildin þá einskorðuð við takmarkaðan tíma, þ. e. 2 ár. Og nú er farið fram á, að þetta verði framlengt til tveggja ára, og búið að færa það á þann grundvöll, að nú gildir það einnig um menntaskólann í Reykjavík. Það ber ekki að lasta í sjálfu sér, að skólunum er gert jafnt undir höfði, og býst ég við, að enginn í þessari hv. d. vilji neita elzta og stærsta menntaskóla landsins, menntaskólanum í Reykjavík, um jafnrétti við aðra skóla í þeim efnum, ef hann æskir þess. Þegar við tölum þannig um það, að þetta mál sé nú komið yfir á breiðari grundvöll, þá er það ekki af því að við lítum svo á, að menntaskólanum í Reykjavík beri þessi réttindi nokkru síður en menntaskólanum á Akureyri, heldur af því, að við viljum aðeins leggja málið fyrir eins og það er vaxið.

Það er ætlazt til, að menntaskólanám við þessa skóla verði 6 ára nám að loknu barnaskólanámi, að 13 ára börn komi inn í þessa skóla og byrji þannig einu ári fyrr og verði stúdentar einu ári yngri en þegar skólalöggjöfin gekk í gildi. Hér gætir ósamræmis á milli frv. og laganna; í þeim segir, að miðskóli skuli vera 3 ára nám, en í þessu frv. er talað um miðskóladeild sem 2 ára nám. Þar er upp tekin hættuleg stefna, og verður Alþ. að gera sér grein fyrir, hvert hún leiðir. Hér er í fyrsta lagi stofnað til alveg sérstakrar undanþágu, og enn fremur er stytt um eitt ár eitt allra erfiðasta námstímabilið á leiðinni til stúdentsprófs, en um það ber skólamönnum yfirleitt saman, að það geti orðið mjög hættulegt fyrir unglingana.

Í bréfi milliþn. í skólamálum í marz 1949, sem sent var menntmn. Nd. og prentað er sem fskj. í nál. á þskj. 809, er margt athyglisvert um þessi mál, sem síðan er undirstrikað í bréfi fræðslumálastjóra. Milliþn. telur þær breytingar, sem farið er fram á, mjög varhugaverðar, og telur, að þær geti orðið örlagaríkar, einkum fyrir miðskóla og gagnfræðaskóla, muni þær rífa niður sumt hið mikilvægasta, sem n. vildi byggja upp með hinni nýju skólalöggjöf, og raska skólakerfinu. Einnig segir fundur í félagi menntaskólakennara, haldinn í júní 1945, að frv. milliþn. í skólamálum stefni í rétta átt og séu í samræmi við þá þróun, sem orðið hafi í skólamálum landsins hin síðari ár. Samt sem áður er hér á tveggja ára fresti komið fram með frv. til að rífa niður þetta kerfi, sem n. byggði upp. Og það hefur ekki staðið á því, að það rættist, sem n. sagði fyrir í sambandi við þetta mál, svo sem sá spádómur hennar, að ef menntaskólinn á Akureyri fengi þessu framgengt, þá mundi menntaskólinn í Rvík koma í kjölfarið. Um þetta hefur n. orðið sannspá. Hún segir einnig, að ef menntaskólarnir yrðu jafnframt miðskólar, þá mundi aftur hefjast hið óhugnanlega kapphlaup foreldra um að koma börnum sínum inn í menntaskólana í Rvík og á Akureyri, sem stæðu þá einnig betur að vígi hvað það snertir en aðrir landshlutar.

Því hefur verið haldið fram í sambandi við húsrými menntaskólans á Akureyri, að með þessu væri verið að fylla ónotað húsrúm. Ég hef ekki séð húsakynni menntaskólans á Akureyri með eigin augum, en að sögn kunnugra er það takmarkað og sumt svo lítilfjörlegt, að varla getur kallazt sæmilegt. Og þó að borðstofan og það, sem henni fylgir, sé flutt inn í nýja heimavistarhúsnæðið, þá skapast ekki með því það kennslurúm í skólahúsinu, sem gera verður kröfu til. Hvað menntaskólann í Rvík snertir, þá stendur hann illa að vígi um húsrými. Þar starfa að morgninum 13 deildir og síðari hluta dags 5 deildir, og inn í þessar stofur telur rektor möguleika á að bæta deildum síðari hluta dags. Nú hefur menntaskólinn í Rvík ekki átt upp á pallborðið hjá fjárveitingarvaldinu, en þótt hann búi við slæmt húsnæði, þá verður hann að sætta sig við það, sem hann hefur, ef hann óskar eftir því að stofna miðskóladeild eins og menntaskólinn á Akureyri. En húsnæði þessa skóla, sem er heimavistarlaus, veldur því, að þegar talað er um þann þroska, sem yngri nemendur hljóti af því að umgangast eldri nemendur, þá er það út í hött mælt í sambandi við þennan skóla, því að eldri og yngri bekkir mundu ekki hafa þar neitt samneyti. Ég vil þá einnig í þessu sambandi geta þess, að það upplýstist í samtali við rektor menntaskólans í Rvík, að nærri lá, að hann lokaði skóla sínum að nokkru leyti í haust, þar sem hann taldi þriðja bekk orðinn svo fjölmennan, og einnig hefur svo orðið að neita allmörgum nemendum um heimavist í menntaskólanum á Akureyri, sem er þó aðalhagkvæmd þess skóla umfram menntaskólann í Rvík. — Það er því álit meiri hl. n., að með því að takmarka húsrúm menntaskólanna með því að bæta þar við miðskóladeildum sé verið að ganga á rétt lærdómsdeildarnemenda til inngöngu í skólana. Og ég furða mig á því, að menn skuli óska eftir því kapphlaupi, sem áður átti sér stað um upptöku í skólana, sem leitt hefur til þess, að foreldrar hafa jafnvel tekið sig upp úr heimahögum sínum vegna barnanna og flutt í nágrenni skólanna til að skapa þeim betri aðstöðu til náms.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Þeir, sem á annað borð vilja skilja málið, geta það án frekari útlistana af minni hálfu. Hvað snertir kostnað af þessari breytingu, þá nægir að vísa til útreiknings, sem gerður er um þetta á fskj. Þar er þó ótalinn sá kostnaðaraukinn, sem ekki yrði hvað minnstur og hlýtur að koma sem skriða af breytingum á núverandi kerfi. Kennarar hafa þannig mismunandi laun eftir því, hvort þeir kenna t. d. við miðskóla eða menntaskóla. Landssamband framhaldsskólakennara hefur t. d. rætt það, að óréttlátt verði að teljast, að þeir, sem kenna miðskólafög við menntaskólann á Akureyri, skuli vera hærra launaðir en þeir, sem kenna sömu námsgreinar við aðra miðskóla, en menn hafa þar sömu laun, hvort sem þeir kenna við miðskóladeild eða í lærdómsdeild. Engin sanngirni mælir með því, að aðrir kennarar, sem ekki eru síður menntaðir, skuli vera einum launaflokki lægri. Og þeir munu gera rökstuddar kröfur til sömu launa. Þetta kom greinilega fram á fundi landssambandsins, en kennararnir gerðu hins vegar ekkert í þessu, þar sem þeir töldu hér einungis um stundarfyrirbæri að ræða. — Á fskj. VII á bls. 8 í nál. er yfirlýsing frá gagnfræðaskólakennurum í Rvík. í sambandi við þetta mál hér á Alþingi, og felur hún í sér rökstuðning fyrir því, að þetta muni raska núverandi launagrundvelli. Þeir, sem eru á næsta stigi fyrir neðan, munu ekki sætta sig við að bera minna úr býtum en starfsbræður þeirra, og allur launastiginn mun færast upp.

Út af nál. meiri hl., þar sem því er treyst, að ríkisstj. láti athuga kostnaðarhliðina rækilega, þá vil ég segja það, að ef Alþ. treystir sér ekki til að taka afstöðu til málsins á þeim grundvelli, sem fyrir liggur, þá er ekki hægt að búast við því, að ríkisstj. standi á móti því, sem ætti að heita vilji Alþ., ef þessi l. verða samþ. Hér verður A1þ. sjálft að kveða upp sinn úrskurð, en ekki setja ríkisstj. í þann vanda að standa bæði á móti vilja Alþ. og þeirra, sem æskja þessara breytinga. Hv. d. verður að ganga beint að málinu eftir því, sem fram er komið af rökum og gögnum. — Ég mun svo ekki orðlengja þetta meira. Eins og ég hef tekið fram, þá leggur meiri hl. n. til, að frv. verði fellt.