10.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að víkja nokkrum orðum að hv. frsm. fjhn. Hann var undrandi á því, að ég hefði dregið velvilja hv. n. til málsins í efa. En velvilji hennar kom sem sé fram í því, að hún lagði til frávísun á málinu. Og ég bið afsökunar á því, ef það er ekki í samræmi við eðli málsins, að ég hef ekki fundið velvilja hv. n. í frávísunartill. hennar. — Þá gerði hv. frsm. grein fyrir, hvað hann hefði átt við með því, er hann taldi, að till. þessi væri of takmörkuð. Og það er, að hún næði ekki til allra staða á landinu, sem væru nú í nauðum staddir og þyrftu aðstoðar við í sambandi við vélbátaútgerð. (KK: Já, eða hefðu sambærilega aðstöðu.) Hvar eru þeir staðir á landinu, sem eru sambærilega staddir og Vestfirðir nú? Eru það útgerðarstaðirnir við Faxaflóa, sem höfðu góða vertíð á síðasta ári og líka er þannig ástatt um, að það hefur hlaupið stórkostlega á snærið hjá þeim á síðustu síldarvertið? Er það Þorlákshöfn? Eru það Vestmannaeyjar? Er það Norðfjörður? Hvar eru þessir staðir? Hvar eru þeir staðir, þar sem nú lítur út fyrir að haustvertíð geti ekki hafizt og það ofan á það, að vertíð eftir vertíð hefur brugðizt? Er það kannske Siglufjörður, sem hefur verið nefndur hér í umr.? Byggir hann aðallega afkomu sína, eins og útgerðarstaðirnir á Vestfjörðum, á haustvertíð? Hann byggir afkomu sína á síldveiðiflota landsmanna og síldarverksmiðjunum, sem þar eru á staðnum, og Siglufjörður hefur auk þess að öðru leyti hagræði vegna síldveiðanna. Þó að engin síld komi á land á einni vertíð, hefur Siglufjörður samt hundruð þúsunda kr., kannske milljónir, sem eru ágóði af hverri síldarvertíð, af fastakaupi manna, sem ráðnir eru í síldarverksmiðjum ríkisins þar á hverju sumri, og sömuleiðis hagnað af stórfelldum viðskiptum við síldveiðiflotann og þann mikla fólksfjölda, sem er á Siglufirði um síldveiðitímann, og það jafnvel þótt ekkert veiðist. Þetta fellur ekki nokkurn tíma Vestfjörðum í skaut. Og þó að það ætti að gera samanburð á vertíð vestanlands og á Siglufirði, þá eru af náttúrunnar völdum byggðirnar á Vestfjörðum mun verr staddar nú en á Siglufirði er nú vegna þess að síldveiðin hefur brugðizt. — Nei, ég held, að hv. fjhn. ætti að vera þeim mönnum skipuð, sem geta dregið upp mynd af landinu og gert sér ljóst, hvaða staðir það eru á landinu meðfram ströndum þess, sem byggja á haustvertíð, því að það var í till. um það að ræða fyrir Vestfirði að geta komið atvinnutækjunum í gang nú á haustvertíðinni. Ég held því, að hv. fjhn. hafi sýnt lítinn vilja á að koma þarna til móts við þá þörf, sem ég þóttist hafa gert grein fyrir að væri mjög til staðar á Vestfjörðum samkv. till. okkar og till. okkar hv. 4. þm. Reykv. var ætlað að bæta úr. Og ég dreg enn þá velvilja hv. n. í efa.

Þá var það hæstv. ráðh., sem hér talaði áðan og sýndi að nokkru leyti meiri velvilja en hv. frsm., og miklu meiri velvilja en einn hv. þm. af Vestfjörðum, hv. þm. Barð. Hæstv. ráðh. vildi láta í það skína, að ég hefði farið með ýkjur í lýsingu minni á ástandinu á Vestfjörðum. Ég held, að það sé rangt hjá hæstv. ráðh., heldur hafi ég stuðzt við staðreyndir og lýst ástandinu eins og það raunverulega var fram að þeim tíma, er við fluttum brtt. Ég hef líka fylgzt með því síðan, og ég veit, að það hefur tekizt að koma 2–3 bátum á öllu þessu svæði til róðra eftir það að við fluttum till. Og ég veit líka, að því er aflabrögð snertir, þá hefur nú í gær og fyrradag verið nokkru betri afli hjá þeim fáu fleytum, sem farið hafa úr vör, heldur en áður.

Það var víst hv. þm. Barð. (GJ), sem talaði um, að e.t.v. væri um sofandahátt að ræða af hendi Vestfirðinga að hafa ekki borið fyrr fram kröfu um aðstoð, en ég vil segja, að Vestfirðingar gerðu það ekki með glöðu geði að biðja hið opinbera um hjálp. Þeir sáu ekki ástæðu til þess á miðju sumri, þegar ekki var útséð um, að síldarvertíðin brygðist; menn vildu láta síldarvertíðina sýna sig að fullu, en hún brást. Menn vildu þá sjá, hvort ekki opnuðust aðrar leiðir til þess að koma skipunum út til fiskveiða, en það brást. Það hefur verið knúið á dyr bankanna, en neitun fengizt og ekkert annað, og það hefur verið leitað aðstoðar út af síldveiðunum, og sú hjálp kemur kannske seinna, en ekki til þess að koma bátum Vestfirðinga út á fiskvertíðina, og þegar allar leiðir voru lokaðar, taldi ég rétt að koma þessu máli í samfylgd með máli, sem átti að afgreiða skjótlega og var þessu máli að vissu leyti skylt og bæði málin nauðsynleg. Hér hefur verið talað um, að heppilegra hefði verið að bera málið fram sem sérstakt mál. Þetta hefði þýtt, að þetta sérstaka mál hefði orðið að fara gegnum þrjár umr., og þegar svo búið hefði verið að samþ. það frv., hefði það þá náð samþykki, ætti að fara fram rannsókn og þá fyrst ætti svo að fara að leita eftir úrræðum. Ætli á því hefði ekki orðið einhver seinagangur, eins og það gengur með málin hér á þingi? Þetta er sú heppilegasta leið, sem okkur hefur verið bent á úr ýmsum áttum. Það er þess vegna um það eitt að ræða að koma þessu máli áfram jafnhliða þessum kindaráðstöfunum, af því að ekki er minna aðkallandi að bjarga fólki en kúm og kindum, en það hefur komið skýrt fram hjá frsm., að hann leggur meira upp úr því að bjarga sauðkindum og kúm en að bjarga fólki.

Eitt vildi ég spyrja hæstv. ráðh. um: Var honum og ríkisstj. alveg ókunnugt um, hvernig ástandi$ var á Vestfjörðum? Er honum ekki kunnugt um, að ríkisstj. var sent erindi um þetta neyðarástand fyrir meira en mánuði síðan, og hefði hún þegar átt að hefja rannsókn á því, hvernig ástandið væri? Þetta erindi var sent ríkisstj., og það hefur ekkert svar borizt til alþýðusamtaka Vestfjarða. Og svo er talað um, að þetta hafi borið að alveg fyrirvaralaust, þegar borin er fram till. um að bæta úr, en þetta er sem sagt gersamlega rangt, þar sem ríkisstj. var sent erindi um þetta fyrir meira en mánuði. Hins vegar er stungið upp á að bera þetta fram á þann hátt, sem mundi gera framkvæmdina alveg óframkvæmanlega, því að með því móti gæti þetta sannarlega ekki orðið afgreitt fyrr en haustvertiðinni væri lokið.

Hv. þm. Barð. sagði, að þetta ætti einmitt að leysa í sambandi við hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, en hv. þm. veit, að slíkt yrði ekki til annars en að stuðla að því að eyðileggja stofnfé sjóðsins, eins og menn hafa dæmin fyrir sér í sambandi við ýmis önnur mál. Ég tel, því miður, að sú leið sé ekki fær og ekki æskilegt, að hún væri farin. Nóg er nú orðið að gert.

Já, hv. þm. Barð. lagði þessu máli sitt lið á sinn hátt, þ.e. mælti gegn samþykkt till. og með því, að verkafólk á Vestfjörðum gerði tvennt, fyrir utan það, sem frsm. minntist á, að það segði sig til sveitar: að það byðist til að vinna fyrir lægra kaup og byðist til að lengja sinn vinnutíma. Segjum, að alþýðusamtök Vestfjarða sendu tilboð um að taka upp 12 tíma vinnudag. Verkafólk hefur nú gengið atvinnulaust þá 8 tíma, sem nú er talinn normal vinnudagur. 8 tíma vinnudagur hefur ekki verið notaður, því að fólk hefur ekki átt þess kost að nota hann. Hvað þýddi þá að biðja um dagvinnukaup í 12 tíma? Ég skil það ekki. — Á einum 20–30 framleiðslusvæðum hér syðra er grunnkaup kr. 9,24, á Vestfjörðum er það 9 kr., eða með öðrum orðum lægra en víða annars staðar. Samt er neyðarástand alþýðunnar hvergi eins og á Vestfjörðum. Þetta ætti heldur að benda til þess, að atvinnulífið sé svona bágborið á Vestfjörðum vegna þess, hvað kaupið er lágt. Nei, það er gefið, að það kæmi ekki að gagni, þó að kaupið yrði lækkað.

Ég skil það ekki, að hæstv. ríkisstj. geti til lengdar stjórnað þessu landi upp á þau býti að láta sér fátt um finnast, hvort atvinnan stöðvast eða ekki. Ég hélt, að það væri verjandi til þess allt að 1/2 millj. kr. að koma sjávarútvegi Vestfjarða í gang, og ég held, að hæstv. ríkisstj. veitti ekkert af því gjaldeyrislega séð, að vélbátaflotinn væri í gangi um haustmánuðina. En það er svo að sjá, að ekki sé mikið upp úr því lagt. Ef það væri eitthvað í mínum málflutningi, sem væri ofsagt, þá biðst ég ekki undan því, að það komi í ljós, en við höfum fyrst og fremst beðið um, að ríkisstj. hlutaðist til um, að einhverjir trúnaðarmenn, sem hún til þess veldi, létu fara fram skjóta rannsókn á ástandinu í þessum landshluta. Það er annað atriðið, en hitt er fjárframlagið, sem um er beðið.

Ég hefði mjög viljað fara fram á það, að fjhn. vildi taka þetta mál aftur til yfirvegunar og fengist til þess að athuga, hvort hún vildi ekki fallast á að bæta við þetta frv., sem hér liggur fyrir, ákvæði um allsherjar rannsókn á ástandinu, þó að hún vilji ekki jafnframt taka upp beina till. um fjárframlag. Það er fyrst og fremst athugun á atvinnuástandinu, sem ég tel vera brýna nauðsyn, og að því athuguðu trúi ég ekki að skellt yrði skolleyrum við till. til úrbótar, þegar sést, hvernig þetta blasir við.

Það, sem ég get sagt um ástandið, er þetta: Atvinnuleysisskráning hefur farið fram á Ísafirði undir umsjón bæjarstjórnarmeirihlutans þar. Að tilhlutun atvinnumálanefndar, sem þar hefur verið kosin, fór fram rannsókn á meðaltekjum þeirra, sem skráðir voru atvinnulausir, og kom þá í ljós, að þær voru 8 þús. kr. á 10 mánuðum þessa árs. Af þeim tölum geta allir dregið þá ályktun, hvort fjölskylda geti aflað sér daglegs brauðs fyrir slíkar atvinnutekjur. Mér finnst augljóst mál, að slíkt sé ekki hægt, enda veit ég, að þau eru ekki fá þau alþýðuheimilin á Vestfjörðum, þar sem bókstaflega er sultur frá degi til dags.