15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (3610)

181. mál, hafnarframkvæmdir í Rifi

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það til l. á þskj. 670, sem hv. þm. Hafnf. og ég erum flm. að, um ráðstafanir vegna hafnarframkvæmda í Rifi á Snæfellsnesi, er borið fram til að tryggja áframhaldandi möguleika til að hefja hafnarframkvæmdir í Rifi á næstu árum. Hæstv. ríkisstj. hefur sýnt þessum hafnarframkvæmdum mikinn stuðning með því að leggja til á fjárlfrv. yfirstandandi árs, að veruleg upphæð verði lögð fram til hafnargerðar í Rifi á þessu ári. Hv. fjvn. og hv. alþm. hafa sýnt hafnarmálum þessum fullan stuðning og velvilja. Hv. fjvn. tók sér ferð á hendur á s. l. vori að Rifi til að geta með eigin augum gert sér grein fyrir öllum aðstæðum til hafnarframkvæmda á þessum stað. Í þessu ferðalagi tóku einnig þátt vitamálastjóri, hv. þm. Hafnf., og vegamálastjóri ásamt mér, og má segja, að allir þeir, sem tóku þátt í ferðinni, hafi verið á einni og sömu skoðun um það, að þarna væru hafnarskilyrði glæsileg. Frv. þetta kveður á um heimild fyrir ríkisstj. til að taka 3 millj. kr. lán til hafnarframkvæmda og í öðru lagi að skipa 5 manna n., sem fari með stjórn Rifshafnar og annist byggingarframkvæmdir þar, eins og þær verða ákveðnar af yfirstjórn hafnarmála. Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um þetta frv., en vil benda hæstv. forseta á að vísa frv. til 2. umr. og hv. sjútvn.