15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3613)

181. mál, hafnarframkvæmdir í Rifi

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, ekki vegna þess, að hv. 1. flm. hafi ekki svarað nægilega spurningum fyrirspyrjanda, en ég vildi aðeins bæta við það nokkrum orðum. Ég skal aðeins geta þess í byrjun, að það er alls ekki ómerkilegt atriði, hvernig veðurfar er í einni höfn, svo að hv. þm. ætti að tala um það gætilega, þegar hann ræðir um það í hálfgerðu gáleysi, að gott veður hafi verið í höfninni, þegar fjvn. var þar á ferðinni. En það var ekki þetta, sem ég ætlaði að ræða, heldur ætla ég að segja örfá orð til að rekja, hvernig þetta mál hefur borið að.

Rif er eins og Neshreppur undir Enni á Snæfellsnesi og liggur að byggðarlagi Hellissands. Hellissandur er í hafnarl., þannig að sú hafnargerð, sem þarna hefur farið fram, hefur farið fram samkvæmt þeim 1., en það hefur ekki þótt heppilegt að hafa hafnargerðina á þeim stað, heldur færa hana að Rifi, þar sem öll skilyrði eru betri. Hins vegar er um svo stórar framkvæmdir þar að ræða, að það orkar tvímælis, hvort hreppurinn eigi að hafa þá forgöngu, sem hreppar venjulega hafa um þetta mál og hin almennu hafnarl. ætlast til. Þetta mál hefur verið rætt allmikið í félmrn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, þó að undarlegt megi virðast, því að félmrn. kom við sögu í þessum hrepp, sem átti svo erfitt uppdráttar, að ráðun. hafði talið nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir þessu hreppsfélagi til aðstoðar. Að athuguðu máli, einmitt af hálfu félmrn., þá var talið heppilegt og vænlegt til framgangs þessa máls að kjósa sérstaka stjórn fyrir fyrirtækið, sein væri undir beinni umsjón atvmrn., sem hefur með höndum framkvæmd þessa verks. Það er þetta, sem er ástæðan til þess, að þessi háttur er hafður á þessu og að þetta frv. er nú borið fram.

Hæstv. Alþ. hefur áður sýnt, að það vildi gera sérstakar ráðstafanir fyrir þennan stað, eins og hv. þm. Snæf. hefur getið um í sinni ræðu. Það samþ. á sínum tíma heimild handa ríkisstj. til kaupa á jörð, sem liggur að þessum stað, og hefur hún nú verið keypt. Það samþ. líka fjárveitingu, og nú er samþ. fjárveiting í ár, sem er á allt annan hátt en nokkur önnur fjárveiting til hafnarmála, sem ég skil þannig, að ríkisstj. áliti, að fyrir þennan stað þurfi að gera sérstakar ráðstafanir. Þetta frv., sem hér er borið fram, er í beinu framhaldi eða sérstök ráðstöfun Til viðbótar þeim ráðstöfunum, sem áður hafa verið gerðar til þess að hrinda þessu máli fram og gera það á þessum stað. Um hafnarskilyrði í Rifi er það að segja þeim þm., sem ekki eru kunnugir, að ég tel, að hafnarskilyrði á Íslandi séu óvíða betri en þau eru þar, þ. e. a. s., það er frá náttúrunnar hendi varargarður fyrir hafnarsvæðinu, sem auðvelt ætti að vera að gera að fullkomnum hafnargarði, og möguleikar til að byggja bryggju og mynda. athafnasvæði fyrir hana eru betri en víðast hvar annars staðar. Fiskimið eru þarna rétt við og möguleikar til sjósóknar eins og bezt verður á kosið. Það má bæta því við, að samkvæmt upplýsingum félmrn. horfir þarna til auðnar, ef ekki verða gerðar þær ráðstafanir, sem verið er að tala um að gera, vegna þess að þeir íbúar, sem eru í hreppnum, geta ekki bjargazt við þau tæki, sem þeir hafa, og þeir hafa sjálfir ekki bolmagn til þess að auka þau.

Ég vildi aðeins láta þessar upplýsingar koma fram að gefnu tilefni frá fyrirspyrjanda. Hafnarframkvæmdir eru eins og hv. þm. Snæf. upplýsti, og svo er meiningin að hefja framkvæmdir samkvæmt þessum l. Rif er ekki á hinum almennu. hafnarl. og kemur ekki til með að heyra undir þau. en þær milljónir, sem hér er lagt til að ríkisstj. taki að láni, eiga að ganga beint ti1 verksins.