16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3619)

183. mál, lax- og silungsveiði

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræðurnar lengi, ég vil aðeins þakka landbn. fyrir að hafa komið máli þessu á framfari nú fyrir þinglok. Eins og hv. þm. Mýr. gat um, er þetta frv. flutt fyrir tilmæli þingmanna Rangæinga, og ég held, að það sé flutt af fullri nauðsyn og að það geti komið í veg fyrir, að fiskivötnin á Landmannaafrétti séu gereydd að fiski. Undanfarin ár hefur fólk komið langar leiðir að með alls konar veiðitæki og veitt svo gegndarlaust, að búast má við, að veiðin þrjóti. Ég tel, að þetta frv. bæti úr þessu, og ég vænti þess, að það nái fram að ganga og verði að lögum á þessu þingi.