19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3622)

183. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að í ráði mundi vera að gera allmiklar breytingar á lax- og silungsveiðilögunum á næstunni, en það verður ekki á þessu þingi. Það er sýnilegt. Auðvitað þarf að taka til athugunar m. a. þetta atriði, sem hæstv. menntmrh. minntist á. En þar sem svo stutt er til þingloka, tók landbn. þann kostinn að bera aðeins fram þetta atriði til breytingar, sem vissa var fyrir, að ekki mundi valda deilum, og má ekki bíða. Ég tel því víst, að ef brtt. koma fram, m. a. frá hæstv. viðskmrh., eins og hann minntist hér á, þá sé óhætt að leggja málið á hilluna.