19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3623)

183. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Þessar breyt., sem farið er fram á að gerðar verði á laxveiðilögunum, eins og frv. segir, er þræta um það, sem skiptir ekki litlu máli, sem sé, hverjir eigi rétt á að veiða í vötnum á almenningi. Það er ljóst mál, að orðið hafa miklar framfarir í silungsrækt í vötnum og við ýmis vötn er geysimikil veiði. Ég skal ekki lengja mál mitt frekar en þörf gerist, en vil benda á það, að það má auka silungsrækt stórkostlega samkv. vísindalegum aðferðum og reynslu. Það er því ekki vafi á því, að mörg þessara fjallavatna eru mikils virði, og þess vegna hefur það mikla þýðingu, hvernig þetta mál verður útkljáð. Sumir halda því fram að héruðin, sem eiga afréttina, eigi einnig veiðiréttinn. Ýmsir aðrir halda því hins vegar fram, að héruðin eigi aðeins rétt til afréttarinnar sem beitilands, og þess vegna séu vötnin eign ríkisins og almennings, og því hafi hver sem er rétt til að veiða í þeim. Um þetta hafa síðan risið málaferli, og hefur slíkum málum verið vísað frá hæstarétti. Ákvæði í núgildandi lögum eru ekki alls kostar skýr um þetta atriði, og í lögum frá 9. okt. 1941, nr. 112, um lax- og silungsveiði, 5. gr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Héraðsmönnum öllum er veiði jafnheimil í vötnum í afréttum og almenningum, sem héruð eiga eða nota með löglegri heimild og ekki eru einstaks manns eign.“ Þetta ákvæði sýnir að mínu áliti ótvírætt, hverjir eiga veiðiréttinn, og þær lagabreytingar, sem hér er gert ráð fyrir, breyta engu um þetta. Og þegar litið er á seinni málsgr. sömu lagagreinar, þá er sú málsgr. að vísu talsvert óskýr, en þegar hún er skýrð í sambandi við fyrri málsgr., getur ekki verið neinn vafi á skilningi málsgreinanna, og les ég hér síðari málsgr., með leyfi hæstv. forseta: „Öllum er veiði heimil í vötnum í afréttum og almenningum og öðrum lendum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað einstaklingsréttarheimild til þeirra.“ — Þetta orðalag: „utan landareigna lögbýla“ — er atriði, sem mikið veltur á, hvernig skýrt er. Fyrri málsgr. segir, að héraðsmenn eigi veiðiréttinn að jöfnu, og seinni málsgr. getur ekki átt við það, að öllum sé heimilt að veiða utan þeirra afrétta, sem tilheyra lögbýlum í héraðinu. Ef meiningin er ekki sú, að þeir, sem eiga afréttina, eigi þar líka veiðiréttinn, væri greinin óskýranleg. Þess vegna er það, að þegar gerð er þessi breyting, sem hér er stungið upp á, og sagt, að „búendum, sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt, sé heimil veiði í vötnum á þeim afrétti til búsþarfa á sama hátt og verið hefur, enda sé veiðiréttur í þeim vötnum ekki einkaeign“, þá er ekki með þessu verið að gefa bændum neinn rétt, sem þeir hafa ekki haft áður, heldur verið að takmarka hann við það, að þeir geti aðeins notað veiðina til bústarfa. Þess vegna er alls ekki verið að vernda neitt rétt bænda, heldur aðeins verið að takmarka hann. — Seinni málsliðurinn er sjálfsagt góður, en ég gæti trúað því, að það geti einhvern tíma verið erfitt að gera skil á, hvenær veiðimenn, sem eru á ferð, séu aðeins að veiða sér til matar, en ekki í öðrum tilgangi. Það er auðvitað tiltölulega auðvelt fyrir ferðamenn, ef þeir koma að veiðivötnum, að halda því fram, að þeir hafi stanzað til að veiða sér til matar. Ég er hræddur um, að það verði erfitt fyrir bændur að fylgjast með, hverjir veiði sér aðeins til matar, og draga svo hina fyrir dómarann, því að það er alltaf hægt fyrir veiðimanninn að slá fram þeirri átyllu, að ferðinni hafi verið heitið lengra. Mér virðist þess vegna, að sá réttur, sem menn hafa haft í aldaraðir, sé takmarkaður frekar en tryggður með þessum breytingum, og vil ég biðja þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að rannsaka það gaumgæfilega. Ég held, að hér hafi hv. landbn. yfirsézt, eins og góðum getur alltaf.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem sent var n. og hún hefur ekki treyst sér til að flytja, vil ég segja örfá orð. — Um það má alltaf þræta og verður sjálfsagt alltaf þrætt, hve mikinn rétt þeir eiga að hafa, sem eiga bergvatnsárnar, þar sem laxinn hrygnir, og svo hinir, sem eiga jökulárnar, þar sem laxinn fer um, þegar hann fer upp í bergvatnsárnar. Ég álít rétt það, sem stungið hefur verið upp á, að breyta 2. mgr. 31. gr. l. um lax- og silungsveiði, og er þessi málsgr. glöggt dæmi um það, hvernig ágætum lögfræðingum getur yfirsézt. Vil ég lesa þessa málsgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Milli fastra veiðivéla, hvort heldur eru sömu megin ár eða sín frá hvoru landi, skal jafnan vera 100 metra bil eftir endilangri á, þar sem skemmst er á milli þeirra. Þó má bilið aldrei vera skemmra en fimmföld lengd veiðivélarinnar frá árbakka og út í á. Leiðari, er liggur frá fastri veiðivél, telst hluti hennar.“

Við skulum nú taka dæmi. Það er lögð veiðivél í jökulsá frá eyri. Fyrirstaðan og veiðivélin er e. t. v. 25 m frá eyrinni. Þetta þýðir það, að fimmfaldri þessari lengd, eða 125 m ofar, má leggja aðra veiðivél. Venjulega eru þær ekki svona langar. — Nú hefur dómur hæstaréttar fallið á þá lund, að bakki reiknist eyri í á — sem aldrei var þó hugmyndin hjá löggjafanum. Og þar sem lagt er frá eyri, leiðir af sjálfu sér, að ef lengdin er reiknuð frá bakka og sú lengd fimmfölduð, þá verður næsta veiðivél vitanlega miklu lengra í burtu en ef eyrin er talin bakki, sem lagt er frá. En með því að reikna eyrarnar að laxánum bakka er hægt að þverleggja árnar, eða því sem næst, í framkvæmd. Og það, sem farið er fram á í þeim ábendingum, sem ég sendi n., er ekkert annað en að þetta orðalag verði tekið inn: „frá föstum árbakka.“ Og ég fullyrði, að lögin voru ekki skilin á annan veg en þann, þegar þau voru sett, að það væru fastir árbakkar, sem átt væri við, er bakkar voru nefndir í 1. Ég lít því svo á, að þetta sé engin breyt. á l. frá því, sem ætlazt var til í upphafi af löggjafanum, þó að svo slysalega hafi tekizt til, að hæstiréttur hafi skýrt lögin á þennan hátt sem raun bar vitni.

Það er fullvíst, að fiskivötnin eru í hættu fyrir ofveiði. En laxárnar eru engu síður í hættu, ef skilningi á l. er hagað eftir þessum hæstaréttardómi, eins og menn eru byrjaðir að gera og það með þeim árangri, að laxalagnirnar margfaldast frá því, sem ætlazt var til, þegar laxveiðilögin voru sett.