07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði í gær gert grein fyrir afstöðu minni til þeirrar brtt., sem fram er komin við þetta mál á þskj. 118, og bent á, að meginorsökin fyrir því, að ég vildi ekki fallast á till., væri sú, að verið væri að hnýta henni þarna aftan í þessi bráðabirgðalög. Það féll nú samt margt óþvegið orð um afstöðu mína eftir á frá hv. flm. þessarar till., og sannaðist þannig sú skoðun, að tilgangur þeirra með henni er allur annar en þar kemur fram. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst sá að stofna hér til eins konar framboðsfundarumræðna, enda var málflutningur þeirra eftir því. Ég skal m.a. leyfa mér að benda á, að hv. 4. þm. Reykv. hélt því fram, að ég hefði engar tillögur fram að færa í atvinnumálum, nema þann kínalífselixír að lækka launin í landinu. Ég vísa nú svona staðlausum orðum algerlega á bug og staðhæfi það, að svona málflutningur þokar ekki þessu máli feti nær þeim tilgangi, sem vakir fyrir hv. flm. En ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á það, að hann var því t.d. hins vegar mjög fylgjandi, að laun til opinberra starfmanna ríkisins væru hækkuð stórkostlega á síðasta Alþingi, og það kostar nú ríkissjóðinn um 25 millj. kr. á fjárlögunum í ár. Þetta hefur þannig orðið til að torvelda það mjög, að hægt væri að halda atvinnuvegunum gangandi, þar sem taka verður þetta fé af þeim. Hv. þm. lagði því með þessu stein í götu þeirra fátæku og hungruðu manna, sem hann ræddi mest um í gær. Ég bendi aðeins á þetta að gefnu tilefni frá hv. 6. landsk., sem sagði, að ef það væri eina leiðin til að bæta kjör manna að hækka launin, þá væri bezt að halda því áfram. En það mál er nú ekki svo einfalt. Og það vita hv. þm., og það veit hv. 6. landsk., og það sýnir sá samningur, sem hann las og atvinnurekendur og verkamenn á Vestfjörðum gerðu sín á milli til þess að atvinnuvegirnir gætu haldið áfram að starfa. Og heldur en að gera slíkar ráðstafanir, teldi ég heppilegra, að fundinn væri grundvöllur, sem öruggur mætti teljast, fyrir því, hvað hægt væri að hafa tímalaunin há fyrir þetta fólk. Þetta hlýtur hv. þm. að sjá; en hann snerist að mér með dólgslegum orðum í stað þess að viðurkenna það. Hv. þm. sagði, að ég hefði lagt til að lækka aflahlut sjómanna um 60—70%. Hvenær hef ég lagt slíkt til? Sannleikurinn er sá, að erfiðleikarnir á Vestfjörðum stafa í ár af tvennum ástæðum, og veit ég ekki, hvor ástæðan hefur verið afdrifaríkari fyrir fólkið.

Ég er ekki kunnugur, hvernig þetta er á Ísafirði, en ég er vel kunnugur þessu í þeim hluta Vesturlands, sem ég er umboðsmaður fyrir, Barðastrandarsýslu, og það er ekkert óeðlilegt, þó að ég miði að nokkru við það. Þar hefur það ekki eingöngu verið aflaleysi, sem skapaði þetta ástand, sem nú er, það hefur miklu frekar verið þröngur efnahagur frystihúsanna. Ég vil í sambandi við það benda á, að frystihúsinu á Bíldudal, sem er eign fólksins, var lokað í sumar um tíma, vegna þess að það gat ekki greitt sjómönnum innlagðan aflahlut, og sjómenn fóru með þennan aflahlut til annarra staða á Vestfjörðum, til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Hér er því ekki um aflaleysi að ræða á þeim stað, heldur annan þátt, fjárskort frystihúsanna. Nú er fjarstæða að ætla sér að hnýta aftan í brbl. úrbótum vegna fjárskorts frystihúsanna í landinu. Það sýnir sig, að þessi tvö mál eiga ekki saman, og það er m.a. þess vegna sem ég gat ekki fallizt á að samþ. þessa till. Ég vísa þeim orðum hv. 6. landsk. á bug, að það sé um nokkurn fjandskap við Vestfirði að ræða frá minni hálfu, hér er ekki um annað að ræða en skilningsleysi frá hv. þm., ef hann ekki skilur það, að þessi mál hanga ekki saman og eiga ekki saman hér á Alþ. Ég hef haft þó nokkur afskipti af því að greiða úr þessum þætti og afla frystihúsinu fjármagns til að geta haldið áfram, og auk þess er það ljóst, að síðasta Alþ. lagði nokkurn skerf til þess að hægt væri að leysa þau mál með heimild á 22. gr. fjárl., þar sem ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast 31/2 millj. kr. til þess að bjarga því, sem er mest aðkallandi í sambandi við fjárskort frystihúsanna. Ríkisstj. og Alþ. höfðu þarna opin augun fyrir afkomu manna í því héraði eins og öðrum héruðum, sem áttu í erfiðleikum út af þeim málum, þannig að orð hv. flm. um það, að ríkisstj. hafi opin augun fyrir afkomu manna í sumum héruðum, en ekki í öðrum, fá heldur ekki staðizt, og það er ekkert tilefni fyrir hv. flm. að láta slík orð falla í sambandi við þetta mál, og ég efa það, að slíkar umr. sem fóru hér fram í gær verði til þess að skapa samúð með málinu, sem annars ætti skilið að verða athugað og rætt hér af einlægni af báðum aðilum.

Hinn þátturinn er aflaleysið. Það er alveg rétt, að hann skapar nokkra erfiðleika. Þó er því ekki að neita, að nokkur hluti af bátaflota Vestfjarða hefur verið á síld fyrir Norðurlandi og fengið aðstoð eins og aðrir, sem á síld hafa verið, og sá hlutur hefur fallið þeim í skaut eins og öðrum. Þess utan hafa þeir haft möguleika til þess að færa sig til, hinir stærri bátar, á aðrar verstöðvar, t.d. við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, og þá verða þeir undir sömu sökina seldir eins og sá bátafloti, sem hv. 6. landsk. lýsir að hafi prýðilega afkomu. En skilningur hv. þm. á ummælum mínum og aðstöðunni til aflatryggingasjóðs er svo fjarri því, sem ég sagði, sem frekast má vera. Hvenær hefur mér dottið í hug að segja, að ég vildi að sjóðurinn væri eyðilagður? Ég benti á, að eðlilegt væri, að aflatryggingasjóður, sem nú tekur til starfa í ár, sinnti fyrst af öllu þeim þörfum, sem honum er ætlað að sinna, þ.e. að bæta úr aflaleysinu, og það bar fyrst og fremst að snúa sér til hans í sambandi við það mál, og það var ekki neinn fjandskapur við Vestfirði að benda á það. Það var það sama að benda á þetta eins og að benda á það í sambandi víð afgreiðslu frv., að það ætti að snúa sér til Bjargráðasjóðs Íslands í sambandi við bændahjálpina og þeim sjóði gert kleift að sinna því verkefni.

Ég held það sé rétt fyrir hv. þm. að bíða með ásakanir á mig fyrir fjandskap gegn fólkinu og sjóðnum, þar til hann heyrir, hvaða afstöðu ég tek í því máli. Ég tel því rangt að hnýta þessari till. hér aftan við, vegna þess að ég álít, að það séu til aðrir staðir, sem benda megi á í sambandi við aflaskort. Þá heldur hv. þm. því fram, að það sé rangt hjá mér að láta í það skína, að aflaskorturinn sé ekki af völdum náttúrunnar. Það getur vel verið, að þeir, sem hafa lesið lögspeki eins og hæstv. dómsmrh. og þekkja ekki til sjávarins, skilji þetta ekki, en mér er kunnugt um, að orsakirnar til aflatregðunnar eru af manna völdum, en ekki náttúruvöldum. Það er af þeirra völdum, að hópur skipa, togarar og togbátar, hafa skrapað upp veiðisvæðin og eyðilagt veiðarfæri manna og eyðilagt veiðina og stofninn og lokað fyrir göngur fisksins inn til fjarðanna. Ég hefði búizt við því, að hv. 6. landsk., sem hefur lifað með þessu fólki, vissi þetta eins vel og ég og þyrfti því ekki að fárast út af því, þó að bent sé á það, að fyrir slíkt er ekki hægt að girða með Bjargráðasjóði Íslands; það eru aðrir aðilar, sem þar eiga hlut að máli. Ég hefði talið eðlilegt vegna málsins, að hv. flm. vildu taka þessa till. aftur. Ég er fullkomlega fús til þess að vera fylgjandi þeim málum hér í d., til þess að leysa þessi vandræði eftir þeim leiðum, sem taldar eru eðlilegastar og heppilegastar, þó að ég sé hins vegar ekki fús til þess að fylgja því, að þessari till. sé hnýtt aftan í frv.

Ég hefði því talið heppilegt fyrir málið, að menn hættu að vera með pólitíska framboðsfundi til þess að hella sér hver yfir annan og til að fá tækifæri til þess að snúa út úr hver annars orðum, en sneru sér beint að málinu sjálfu. Ef aftur á móti hv. flm. fást ekki til þess að taka þessa till. aftur, þá staðfestir það enn betur grun minn um, að þeir hafi ekkert meint með henni, og verði till. felld, verður að sjálfsögðu miklu torveldara að fá sömu menn til þess að sinna málinu síðar, þó að það væri í öðru formi, og eins þó að till. væri felld á þeim forsendum, að hún eigi ekki við þetta mál. Því teldi ég heppilegast, að hv. flm. vildu taka till. aftur nú við þessa umr., en fyndu svo aðra leið heppilegri og eðlilegri til þess að koma þessu máli fram. Eftir yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. skilst mér að það séu ekki eins mörg ljón á veginum og virtist koma fram í sambandi við þetta mál.

Ég hirði svo ekki að deila frekar við hv. flm. um þá sök, sem hann bar á mig í sambandi við þetta mál, en ég vil heyra, hvort flm. geta ekki fallizt á að hafa þessa meðferð á málinu. Mun ég, eins og ég sagði í upphafi, greiða atkv. á móti till. Hins vegar mun ég ekki greiða atkv. með frv.; þar hefur ekki verið farið að mínum ráðum. Þó mun ég ekki greiða atkv. á móti frv.