17.01.1951
Efri deild: 51. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (3642)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég sé, að það er fámennt í d. og þess utan vantar frsm. minni hl. og einnig frsm. fyrir þeim brtt., sem bornar eru fram af einum aðila úr meiri hl., en með því að mál þetta hefur legið svo lengi fyrir, sé ég mér ekki fært að fallast á, að það sé dregið lengur, og óska eftir, að það sé afgr. úr hv. d. svo fljótt, að það megi verða að l. á þessu þingi, ef meiri hl. fæst fyrir samþykkt þess hér í d.

Mér þykir rétt að lýsa nokkuð, hvernig þetta mál hefur gengið undanfarið og það m. a. vegna þeirrar till., sem kemur frá minni hl. um að vísa málinu enn frá. N. hefur ekki komið sér saman um þetta mál, meiri hl. leggur til, að frv. sé samþ. með verulegum breyt., og þær breyt. eru ekki gerðar vegna þess, að okkur sé ekki ljóst, að þær eru til hins lakara, en við vildum heldur draga úr verkefnum iðnaðarmálastjóra á þann hátt, sem gert er með brtt., heldur en að láta fella frv. með þeim rökum, að það kostaði ríkissjóð allt of mikið fé, því það er raunverulega það eina, sem borið er fram á móti frv., að ríkissjóður hafi ekki ráð á að setja upp þá stofnun, sem hér er ætlazt til að gerð verði með frv. Mér þykir rétt að athuga, hvaða undirbúning málið hefur fengið, m. a. vegna þess, að minni hl. leggur til að vísa málinu frá.

Frv. þetta var fyrst flutt á Alþ. 1947, þá var það sent til umsagnar rannsóknaráðs ríkisins, Félags íslenzkra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Búnaðarfélags Íslands. Þetta var sá hreinsunareldur, sem frv. fékk á fyrsta stigi málsins. Allir þessir aðilar, sem ég hef talið upp, mæltu með því, að frv. væri samþ. Hins vegar óskuðu nokkrir af þessum aðilum eftir því, að gerðar væru nokkrar smávægilegar breyt. á frv., og þáv. iðnn. tók allar þessar brtt. til greina og setti frv. þannig inn í þessa deild, en það var þá ekki fyrr komið inn heldur en borin var fram rökst. dagskrá um að vísa málinu frá til frekari undirbúnings. Þessi dagskrá var samþ. þrátt fyrir það, að allir þessir aðilar lögðu með því að frv. næði fram að ganga, og flestir af þeim álitu ekki hægt að standa á móti því, að þessi þriðji höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, iðnaðurinn, fengi sinn fulltrúa, iðnaðarmálastjóra, eins og sjávarútvegurinn hefur fengið fiskimálastjóra og landbúnaðurinn búnaðarmálastjóra. Að lokum vísaði svo meiri hl. d. málinu frá með rökst. dagskrá til frekari undirbúnings. Málið var þá sent á ný til sömu aðila og enn fremur til fjárhagsráðs til frekari undirbúnings, og allir þessir aðilar mæltu aftur með því, að frv. væri samþ., og fjárhagsráð mælti eindregið með því þá að frv. væri samþ. og býðst til þess að gera á því nauðsynlegar breyt., sem því þótti þurfa að gera, og taldi í sinni umsögn, að ekki væri hægt að vísa málinu frá og ekki væri heppilegt fyrir þjóðarbúskapinn, að þessi stóra atvinnugrein, iðnaðurinn, fengi ekki sína yfirstjórn eins og hinir atvinnuvegirnir. Sá ráðh., sem þá fékk þetta mál, sem var hv. þm. Hafnf., lætur þá málið liggja hjá sér nærri ár án aðgerða, en lofaði að koma frekari undirbúningi í framkvæmd. Ég gerði þá tilraun til þess að óska eftir því, að málið yrði sett fram í þinginu, og hann marglofaði undirbúningi af hálfu ríkisstj. og að málið yrði sett inn á því þingi, og þess vegna bar ég málið þá ekki fram, en það loforð hefur aldrei verið uppfyllt. Síðan hefur hæstv. ráðh. látið í það skína við mig, að aðalástæðan fyrir þessu væri sú, að ég hafi á þeim tíma gagnrýnt mjög þann kostnað, sem var á því að undirbúa og breyta löggjöfinni um verksmiðjueftirlit í landinu. Það upplýstist, að Alþfl. hafði fengið borgað fyrir það 60000 kr. á sínum tíma, og það var ekki betur gert en það, að frv. er ekki orðið að l. enn. En það var óskylt mál, þó að ég gagnrýndi að kosta 60000 kr. fyrir slík vinnubrögð, og átti ekki að koma niður á þessu frv. En það mun hafa ráðið mjög miklu um tafir á frv., að ríkisstj. á þeim tíma, 1949, þegar málið var flutt á ný, var beðin um það af iðnn. að láta fjárhagsráð breyta frv. eins og það hafði boðizt til, og varð ráðuneytið við þeirri beiðni og sendi fjárhagsráði frv. til endurskoðunar. Fjárhagsráð kom þessu aldrei í verk, það lét málið liggja hjá sér án þess að það snerti við þessu verki, hversu sem rekið var á eftir því, og gaf enga ástæðu fyrir töfinni. Þáverandi iðnmrh., hv. þm. Vestm., tók þá málið aftur úr höndum fjárhagsráðs og sendi það til iðnn. með þeim ummælum, að hann sé því sammála, að málið nái fram að ganga með þeim breyt., sem fyrrnefndir aðilar höfðu óskað eftir að gerðar væru á því. En þrátt fyrir þetta fæst ekki enn samkomulag í n. um afgreiðslu málsins. Enn vildi minni hl. n., framsóknarmennirnir í n., vísa málinu frá til frekari undirbúnings, þó að það væri búið að ganga í gegnum þennan hreinsunareld, sem ég hef lýst. Til þess að vera nokkurn veginn viss um, að hægt væri að fá samkomulag um málið síðar, var fallizt á og gert samkomulag um það í n. og einnig við þáverandi iðnmrh., hv. þm. Vestm., að hann skipaði n. í málið til þess að athuga það á ný og fá upplýst frá þeim minni hl. í n., sem sí og æ spyrnti fótum við málinu, á hvern hátt þeir vildu láta breyta því. Því það merkilega er, að þrátt fyrir alla þessa andstöðu frá framsóknarfulltrúunum í n. öll þessi ár, þá var það alltaf viðurkennt, að málið ætti fullan rétt á sér, viðurkennt, að ekki væri hægt að neita þessum atvinnuvegi landsmanna um iðnaðarmálastjóra frekar en hinum 2 atvinnuvegunum, sem ég hef þegar bent á, og málinu var ekki vísað frá af þeim ástæðum, heldur var sagt, að það væri ekki vel undirbúið, án þess þó að komið væri með breyt. eða bent á nokkuð, sem betur mætti fara. Þeir aðeins halda sér við þetta eina, að málið sé ekki nógu vel undirbúið. Iðnaðarmálaráðh. fyrrv., Jóhann Jósefsson, skipar svo nefnd 9. marz 1950, og hann valdi m. a. einn mann úr fjárhagsráði til þess að sitja í þessari n., einn mann, sem var mjög náinn iðnaðinum, og svo menn úr iðnaðarstéttinni, og þar af leiðandi höfðu allir þeir menn, sem skipaðir voru í n. af ráðh., djúptæka þekkingu á málum iðnaðarins annars vegar og hins vegar þekkingu á þeim atriðum, sem snerta beinlínis innflutninginn, sem var fjárhagsráð. Það verður því ekki sagt annað en að hann hafi gert sitt til að láta undirbúa þetta mál eins vel og hægt var, og ég vil leyfa mér að flytja honum þakkir fyrir hans þátt í málinu.

N. hafði ekki skilað till., þegar þing kom saman, enda mun svo fyrir mælt í bréfi frá ráðh., að álitið ætti að senda til iðnn. Ed., því þar hefur málið alltaf verið, því hefur alltaf verið vísað frá þessari d. vegna þess, að það hefur ekki verið talið nægilega undirbúið. Hann hefur því litið svo á, að n. ætti að fá þau gögn til athugunar. Mér þótt rétt að flytja þetta mál enn á þessu þingi, málinu er enn vísað til iðnn. og mætir þar enn sömu andstöðu frá sömu aðilum eins og það hefur gert undanfarin ár. Nú þegar álitsgerð og till. koma til n. frá mþn., þá er það fundið málinu til foráttu, að þessi gögn komi ekki eftir réttum leiðum, þau hefðu ekki átt að koma til n. beint frá mþn., heldur hefðu þau átt að sendast til ráðuneytisins og ráðuneytið hefði síðan átt að senda þau til n. Ég verð að segja, að þegar engin rök eru orðin á móti máli önnur en svona hlægileg rök, að málið hafi ekki fyrst farið í hendur ráðh., heldur beina leið til Alþ., þá er það varla blygðunarlaust fyrir fulltrúa á Alþ. að leyfa sér að leggja til, að málinu sé vísað frá, því það er vitanlegt, að enn þá er Alþ. yfir hverri ríkisstj., en ekki ríkisstj. yfir Alþ. Álitsgerð og till. mþn. fólu í sér nákvæmlega það sama sem álit og till. annarra aðila, sem hafa fjallað um þetta mál, fólu í sér. Þar er enginn efnismunur. Þegar borið er saman það frv., sem þeir sömdu, — því mþn. samdi frv. upp, — við þingskjölin eins og þau hafa legið fyrir undanfarin ár með þeim breyt., sem meiri hl. leggur til að gerðar séu á frv., þá er það nákvæmlega sama afgreiðslan. En enn vill minni hl. ekki fallast á frv. Hann óskar þá eftir því, að ég sem form. n. sendi frv. til ríkisstj. og sendi þangað þau gögn, sem hann álitur, að hefði átt að senda þangað beint, en ekki til Alþ., og fái umsögn ríkisstj. um málið. Þetta var einnig gert. Umsögn núv. iðnmrh. fékkst ekki skrifleg frá ráðuneytinu, heldur tilkynnti hann mér munnlega, að hann út af fyrir sig væri samþykkur frv. efnislega, én vegna hinna fjárhagslegu örðugleika og erfiðleika á að koma saman fjárl. óskaði hann ekki eftir, að málið næði fram á þessu þingi. Ég flutti að sjálfsögðu þessi ummæli til n., og eftir að þau komu til n. klofnaði hún, meiri hl. leggur til, að frv. sé samþ. þannig, að mjög sé dregið úr þeim kostnaði, sem ætlaður var upphaflega, svo að kostnaðurinn er ekki orðinn ágreiningsatriði eins og nú er. Það verður ekki úr því sem komið er hægt að færa fram rök fyrir því, að það sé ríkissjóði ofviða, að iðnaðarmálastjóri sé settur yfir iðnaðinn í landinu til þess að bæta úr mörgu í sambandi við iðnaðarmálin, enda koma meiri tekjur á móti inn í ríkissjóð heldur en sem svarar kostnaðinum, eins og ég mun koma síðar að. Þrátt fyrir þessar till. og samstarfsvilja frá meiri hl. n. var ómögulegt að ná samkomulagi um þetta við minni hl. Hann krafðist þess að málinu sé enn þá vísað frá til frekari undirbúnings, eins og kemur fram í hans nál. Nú er ekki frsm. minni hl. hér viðstaddur, en hv. 8. þm. Reykv., sem á sæti í n. og er undir nál., gæti svarað fyrir það hér, og óska ég eftir því, að hann upplýsi Ed. um það, hvað það er í þessu máli, sem enn á að upplýsa, og hvað á enn betur að undirbúa. Hafa þeir aðilar, sem hafa farið höndum um þetta mál undanfarið, vanrækt skyldu sína í sambandi við þessa löggjöf? Hafa þeir vanrækt að leita þeirra upplýsinga frá iðnaðarstéttinni, frá fjárhagsráði eða frá öðrum aðilum, sem þetta mál snertir? Kemur það fram í þeirra gögnum, sem fyrir liggja, hver er ástæðan fyrir því, að verið er að vísa málinu frá? Sú ástæða hefur aldrei komið fram í n. öll þessi ár, það hefur alltaf verið viðurkennt, að þetta mál eigi fullkominn rétt á sér, og það er áreiðanlegt, að það verður ekki staðið árum saman á móti því, að iðnaðarstéttin fái þann sama rétt og aðrar stéttir hafa fengið. Þess vegna vil ég spyrja: Hvað er það, sem enn hefur ekki verið upplýst? Ef því er hins vegar haldið enn fram, að ríkissjóður hafl ekki ráð á því fé, sem þarf til þess að halda uppi þessari stofnun, sem hér er ætlazt til að setja á stofn, þá skal ég ræða það atriði nánar, ég hef rætt það í n. og ekki fengið nein mótmæli.

Eins og frv. lá fyrir á þskj. 34, þá var ætlazt til þess, að skipaður væri sérstakur iðnaðarmálastjóri og með honum einnig 3 manna framleiðsluráð. Ég skal viðurkenna, að framleiðsluráð kostar nokkurt fé, þó fer það nokkuð eftir því, hvernig því er fyrir komið. En samkv. till. okkar nú er gert ráð fyrir að fella það niður einmitt með tilliti til þess, að reynt sé að gera þetta eins ódýrt fyrir ríkissjóðinn og hægt er. Ég get fellt mig við á þessu stigi, að sú breyt. sé gerð á frv. Það er nægilegt verkefni fyrir iðnaðarmálastjóra þó hann hafi ekki við hlið sér 3 manna framleiðsluráð, og þegar sýnt er, hve mikinn hagnað landið og iðnaðurinn hefur af því, að iðnaðarmálastjóri verði skipaður, þá má að sjálfsögðu setja við hans hlið framleiðsluráð, ef þörf þykir. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að ég held, að raforkuráð kosti, skipað 5 mönnum, 15000 kr., svoleiðis að það er ekki stórkostlegur sparnaður að þessu; hins vegar er að því nokkur sparnaður, og varð að samkomulagi, að það yrði fellt niður. Samkv. 4. gr. frv. er ætlazt til þess, að iðnaðarmálastjóri annist framkvæmdir og dagleg störf samkv. þessum l., og það er ætlazt til þess, að hann undirbúi till. og áætlanir um ný iðjuver, er ríkissjóður lætur reisa eða styrkir aðra til að koma upp, svo og um endurbætur eða stækkanir iðjuvera, sem starfrækt eru af ríkissjóði eða hann styrkir með lánum, framlögum eða á annan hátt. Það er einnig ætlazt til, að hann hafi yfirumsjón með öllum slíkum framkvæmdum fyrir hönd ríkissjóðs, og það er ætlazt til þess, að hann veiti sams konar aðstoð bæjar- og sveitarfélögum og einstaklingum, ef þess er óskað, gegn hæfilegu gjaldi. Þó iðnaðarmálastjóri ætti ekkert að gera annað en þetta, sem hér er talað um, þá er það að sjálfsögðu meira en nægilegt starf fyrir einn mann. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að á s. l. ári skipaði ríkisstj. ákveðinn mann úr atvinnudeild háskólans til þess að hafa með höndum allan undirbúning að sementsverksmiðju, sem á að reisa hér við Faxaflóa. Hún hefur þess utan haft ákveðna menn á launum til þess að undirbúa þessi mál, og ég fullyrði, að ef hér hefði verið iðnaðarmálastjóri með þeirri þekkingu, sem ætlazt er til að hann hafi samkv. þessu ákvæði í frv., þá hefði honum verið falin framkvæmd þessa verks og það hefði orðið ríkissjóði miklu ódýrara. Ég vil enn fremur benda á, að á sama tíma hefur verið á fullum launum maður hjá ríkissjóði til þess að undirbúa áburðarverksmiðju ríkisins. En hvort tveggja þetta hefði fallið undir iðnaðarmálastjóra, og ef hann hefði ekki sjálfur komizt yfir að gera allt þetta verk, þá var það bein sönnun þess, að það var ekki nægilegt, að iðnaðarmálastjóri væri einn, heldur átti að láta honum í té tæknilega aðstoð, ekki vegna vankunnáttu í starfi, heldur vegna þess að hann kæmist ekki yfir öll þau verkefni, sem hann þyrfti að gera. Í þriðja lagi vil ég benda á, að nú hefur ríkissjóður ráðið til sín mann, ekki frá ríkisstofnun, heldur frá einkafyrirtæki, til þess að undirbúa þaraverksmiðju á Reykhólum, og þetta hefði vafalaust verið afhent iðnaðarmálastjóra, ef hann hefði verið til í landinu. Svoleiðis að verkefnin eru fjöldamörg og miklu meiri en iðnaðarmálastjóri kæmist yfir, þannig að þau rök, að þetta borgi sig ekki fyrir ríkissjóð, eru hrein falsrök, það kostar ríkissjóð meira í peningum að hafa ekki iðnaðarmálastjóra heldur en að hafa hann. Ég vildi einnig benda á, að ef iðnaðarmálastjóri hefði verið á sínum tíma, þegar samið var um byggingu síldarverksmiðjanna bæði á Skagaströnd og Siglufirði, þá hefðu orðið minni deilur um þau mál en varð, og þá hefði orðið minni kostnaður fyrir ríkissjóð heldur en varð. Því verður þess vegna ekki haldið fram með rökum, að það sé ofviða ríkissjóði að setja upp það embætti, sem hér um ræðir.

Ég vil einnig í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að við Fiskifélag Íslands eru áætlaðar 50000 kr. til þess að halda fiskiþing í Reykjavík og við Búnaðarfélag Íslands 150000 kr. til þess að halda búnaðarþing í Reykjavík á hverju ári. Getur sú þjóð, sem leyfir sér að veita landbúnaðinum, ekki einasta búnaðarmálastjóra, heldur einnig fulltrúa, til þess að sitja hér á þingi á hverju ári, sem kostar 150000 kr., — getur sú þjóð leyft sér að vanrækja það ár eftir ár að láta iðnaðinn fá sams konar aðstöðu, og hvaða fé er kastað á glæ með slíkri ríkisstofnun? En það skal minni hl. iðnn. vita, að hann ber að einhverju leyti ábyrgð á því. Hann kastar af sér að einhverju leyti ábyrgðinni á þá alþm., sem ár eftir ár fella svona mál, en það er ekki ábyrgðarlaust af hans hálfu að gera þetta ár eftir ár, því ef n. væri sammála um málið, þá væri það komið í gegn.

Samkv. 5. gr. er ætlazt til, að iðnaðarmálastjóri geri árlegar tillögur um heildartill.ögun á sviði iðnaðarmála með það fyrir augum, að eðlileg og holl hlutföll haldist á milli atvinnuvega þjóðarinnar um skiptingu í vinnuafli, rekstrarfé, fjárfestingu og opinberri aðstoð. M. a. vegna þessa ákvæðis þótti rétt að hafa fulla samvinnu við fjárhagsráð um undirbúning frv., og hefur maður frá þeirri stofnun þannig starfað að honum, og ráðið mælir með því, að frv. verði samþ.

Þá á iðnaðarmálastjóri að hafa eftirlit með því, að framleiðslunni sé beint að þeim greinum, sem þjóðhagslega eru þýðingarmestar, og enn fremur á hann að sjá um, að hendinni sé ekki sleppt af þeim vörum, sem framleiddar eru í landinn, fyrr en þær eru svo unnar, að þær geti skilað sem mestum gjaldeyri. Og þótt iðnaðarmálastjóri hefði ekkert annað verkefni en þetta, þá mundi starf hans borga sig margfaldlega. Ég verð því að telja það ófyrirgefanlega skammsýni af mönnum, sem sú ábyrgð er falin að fjalla um slík mál í n., að gera till. um að vísa þessu frá áður en þeir hafa kynnt sér það að fullu, hvað um er að ræða.

Þá hefur þetta mál verið sérstaklega rætt við rannsóknaráð ríkisins, og það hefur lagt megináherzlu á að fá mann til að gegna slíku embætti. Það vinnur að hinum vísindalega undirbúningi þessara mála og leggur eðlilega mikið upp úr því, að framkvæmdaaðili sé þar einnig starfandi.

Þá verður það eitt verkefni iðnaðarmálastjóra að fylgjast með því, hvaða nýjungar koma helztar fram í iðnaði með ýmsum öðrum þjóðum. Ég verð nú að leyfa mér að spyrja, hvort nokkrum geti blandazt hugur um mikilvægi þess, að slíkrar vitneskju sé aflað. Eða máske slík þekking sé einskis virði? Ætli það væri einskis virði fyrir ýmis fyrirtæki t. d. að geta leitað til þessa embættismanns varðandi ýmsar endurbætur á hinum og þessum vélum? Ég vil benda á í því sambandi, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur þannig orðið að ráða til sín sérstakan mann, af því enginn slíkur opinber aðili var til að leita, og hún telur sér stórkostlegan hag í að launa hann upp á eigin spýtur til leiðbeininga við ákveðið verk. Og hvernig má það þá vera, ef eitt fyrirtæki sér sér hag í að greiða slíkum manni góð laun og vill ekki leggja starf hans niður, þegar séður er árangur þess — hvernig má þá vera, að starf slíks manns yrði tjón fyrir ríkið? Nei! Menn, sem vilja láta vísa þessu máli frá á þeim forsendum, að starf þessa embættismanns borgi sig ekki, þeir sitja sannarlega í biksvarta myrkri vanþekkingarinnar á þessu sviði.

Þá er það enn eitt verkefni iðnaðarmálastjóra að leiðbeina iðnrekendum um meðferð ýmiss konar hráefna, blöndun þeirra o. s. frv., en það mundi stuðla mjög að bættri nýtingu þeirra og verður að teljast aðkallandi nauðsyn.

Hér ber allt að sama brunni. Hver sá maður, sem vill setja sig eitthvað ofurlítið inn í málefni iðnaðarins og þá miklu framtíð, sem er í þessum atvinnuvegi, hann getur ekki orðið meinsmaður þessa máls. Hvað einn höfuðatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn, snertir, þá stendur hann að vísu á alltraustum grunni, en afkoma hans er eigi síður mjög háð sól og regni, og er þar skemmst að minnast hrakfalla á s. l. ári. Um sjávarútveginn vita allir, að hann er svo áhættusamur, að þjóðin getur ekki undir neinum kringumstæðum byggt afkomu sína á honum einum. Það er því ekki vanþörf á að byggja upp atvinnuveg, sem er óháður slíkum skakkaföllum og á auk þess þátt í að auka útflutningsverðmæti á framleiðslu annarra atvinnuvega með fullkomnari vinnslu. En það er þá enn eitt verkefni iðnaðarmálastjóra að gera tillögur um ný iðjuver og endurbætur á eldri iðjuverum og hann hefði t. d. eftirlit með framkvæmdum við þau iðjuver, sem nú eru í undirbúningi. Hvað þetta snertir, þá held ég nú, að enginn maður treysti sér til að halda því fram, að húsameistari ríkisins hafi ekki sparað ríkissjóði stórkostlegt fé á undanförnum árum. En hér stendur nákvæmlega eins á. Og má segja, að andstæðingar þessa máls horfi í eyrinn, en hendi krónunni. — Enn fremur á þá iðnaðarmálastjóri að gera till. um sölu iðjuvera, ef slíkt kemur til greina, og athuga ársreikninga þeirra og gera tillögur til úrbóta, ef tap er á rekstrinum. Ég held nú, að ef slík stofnun hefði verið hér fyrr, og t. d. þegar Fiskiðjuver ríkisins var reist hér, þá hefðu þau glappaskot, sem þar urðu, aldrei átt sér stað, og það mál ekki orðið Alþingi til jafnraunalegrar skammar og það varð.

Þær brtt., sem meiri hl. n. gerir við frv., eru á þskj. 306, og hin fyrsta við 2. gr., um að 2. málsgr., sem fjallar um stofnun framleiðsluráðs, falli niður, og enn fremur er þar um að ræða nokkra breytingu á þeim launaflokki, sem viðkomandi maður, sem á að vera verkfræðingur að menntun, er settur í. — Önnur brtt. er sú, að 3. gr. falli niður, og leiðir það af hinum breytingunum. — Þriðja till. er við 5. gr., fjallar um verkefni iðnaðarmálastjóra, og er gerð til að draga úr þeim kostnaði við starfið, sem hefur verið þyrnir í augum minni hl. n. — Fjórða brtt. er við 6. gr. og hin fimmta við 7. gr., og leiðir þær breytingar af því, að gert er ráð fyrir, að framleiðsluráð verði ekki sett á stofn. — Þá er enn lagt til, að 8. gr. falli niður ásamt fyrirsögn og kaflaskiptum, og leiðir það af áðurgreindum breyt., og sama er að segja um 9. gr. Sama er og að segja um 8. brtt., að hún er afleiðing af öðrum till.

Þessar till. eru eingöngu gerðar til að draga úr kostnaði við stofnunina, og við hörmum, að frv. skuli ekki geta farið í gegn óbreytt, en það má þá síðar auka við stofnunina, er Alþingi sér nauðsyn þess, og er betra, að málið fáist fram með þessum breytingum, heldur en að það verði dregið á langinn. Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. þd. gjaldi því samþykki og það nái einnig samþykki Nd. á þessu þingi.

Þá þykir mér að lokum rétt að benda hv. þdm. á það, að prentað er sem fskj. með nál. meiri hl. bréf frá n., sem þáv. iðnmrh. skipaði á s. l. ári til athugunar á frv. þá; en í n. voru þeir Kristjón Kristjónsson, Guðmundur H. Guðmundsson, Páli S. Pálsson, Þorbjörn Sigurgeirsson og Baldvin Jónsson. Ég skal ekki eyða tíma deildarinnar til þess að ræða þetta erindi, þar sem hv. alþm. eiga kost á að kynna sér það í nál. Ég vil aðeins endurtaka, að ég vænti þess, að frv. verði samþ., og enn fremur, að frá hv. minni hl. n. komi einhver önnur rök en þau, sem getur að líta í nál. hans. Það er mannlegt að koma með eitthvað til að deila um og miklu betra heldur en játað sé, að mál muni vera svo og svo þarflegt, en koma þó fram með till. um að svæfa það. En till. um að vísa málinu til ríkisstj. þýðir að svæfa það og annað ekki.