07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði í ræðu minni hér í gær talað dólgslega til hans og borið hann sökum. Mér heyrðist hv. þm. S-Þ. viðhafa þau ummæli í gær í öðru sambandi, að misskilningur væri versti skilningur. Ég vildi minna hv. þm. Barð. á þessi ummæli. Ég neita því að hafa á nokkurn hátt viðhaft dólgsleg eða óviðurkvæmileg orð í ræðu minni í gær eða borið hv. þm. sökum. Það kann að vera, að ég hafi brýnt röddina á köflum, en það ætla ég að fari ekki í bága við það, sem eðlilegt og sjálfsagt er talið í þessari hv. d., og ég treysti hæstv. forseta til að hafa áminnt mig, hafi ég brúkað dólgsleg orð. Hafi ég hins vegar með raddbreytingum meitt eitthvað aðrar taugar en heyrnartaugar hv. þm. í gær, þá bið ég hann afsökunar; það var ekki minn tilgangur. En þau ummæli, sem hv. þm. viðhafði, gáfu tilefni til þess að álykta, að hann teldi í rauninni vandræði fólksins á Vestfjörðum sjálfskaparvíti fólksins þar, sem með kröfum um of hátt kaup hefði skapað sjálfu sér atvinnuleysi. Það voru þessi ummæli hv. þm., sem voru tilefni til þeirra ummæla, sem ég viðhafði í ræðu minni í gær, og í því sambandi spurði ég. Þessi ummæli eru þar að auki tilefnis]aus vegna þess, að það er upplýst í d., að kaup er lægra á Vestfjörðum en t.d. hér við Faxaf]óa, þannig að benda á þá leið að lækka kaupgjaldið sem leið út úr ógöngunum, er óviðeigandi. Hitt er svo öllum kunnugt, að þessi hv. þm. telur, ekki einasta í þessu máli, heldur yfirleitt, eins og kom fram í ræðu hans síðast, að kauphækkunaraldan, sem hann nefnir, sé í rauninni að stefna öllu í óefni, eins og t.d. kaup opinberra starfsmanna, sem hann gerði að umræðuefni. En ég vil minna hv. þm. á, að sú kauphækkun, sem nú er gerð, sem er 15–17%, — að till. um það efni var borin fram af ríkisstj., sem þessi hv. þm. er forsvarsmaður fyrir, og sett inn í það lagafrv., sem hann fer hörðustum orðum um hér, því að bindingin var ákveðin í fjárl. ársins 1950. Eigi ég sök á þessu máli, sem ég vil ekki játa, þá er ríkisstj. meira sek, og ég hygg, að hann sjálfur hafi ekki greitt atkv. á móti þessu; hvort hann hefur greitt atkv. með þessari gr. fjárl., veit ég ekki, en með l. í heild greiddi hann atkv. Sannleikurinn er sá í þessu efni, að allir sanngjarnir menn sáu og viðurkenndu, að með þeirri breyt. á kostnaði við að lifa, sem orðin var, og á launakjörum annarra stétta, var óhjákvæmilegt að ganga þannig til móts við þennan starfsmannahóp í landinu. Það er fjarri því, að mér detti í hug, að það sé hægt að leysa vanda launastéttanna með því að hækka kaupið og samtímis gera þá kauphækkun að engu; mér er það ljóst og ö]lum þorra verkamanna, en mér er jafnljóst, að það er önnur fjarstæða, að það sé hægt að leysa vandann með því stöðugt að lækka kaupið. Þó kaupið sé sett niður, þá er afkoman ekki tryggð með því, eins og dæmið, sem ég tók í gær um rekstrarafkomu Faxaflóabáta á næstu vertíð, sannaði.

Að því er snertir tilmæli hv. þm. um það, að þessu máli verði betur tekið aftur, og tilboð hans um að miðla þá málum, vil ég segja þetta: Ég vildi í fyrsta lagi fá að heyra frá hv. þm., hvar hann hugsar sér að málið sé tekið upp, svo að haldi megi koma. Í öðru lagi vildi ég heyra frá hæstv. ríkisstj., hvernig hún snýst við því, að málið sé tekið upp sem sérstakt mál. Ég hefði talið, að það mætti vænta þess, eftir því sem kom fram hjá hv. þm. Barð. og hv. frsm. n., að það kæmi fram í fjhn. till. um þetta efni, og þar sem það er höfuðröksemdin, að þetta sé óskylt mál, þá væri hugsanlegt í því sambandi, að hv. fjhn. athugaði málið og atriði þess og benti á aðrar leiðir. Ef þess er kostur, þá er ég fús til þess fyrir mitt leyti að ræða við meðflutningsmann minn um þetta efni, því að mér er engin þægð í, að till. sé drepin, ef það verður til þess að torvelda lausn málsins á annan hátt.

Ég vildi svo víkja örfáum orðum að hv. þm. S-Þ. Mér fannst á honum í gær að ég hefði komið við hans taugar líka, því að hann sagði, að það væri vondur misskilningur, sem ég legði í hans orð. Það var ekki ætlun mín, og bið ég hann því sams konar afsökunar. En ég er hræddur um, að misskilningurinn hafi ekki verið á mína hlið, og það, sem hv. þm. sagði hér í gær, staðfesti það að minni hyggju, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, sem var það, að ég harmaði, að ríkisstj. hefði ekki verið jafnglöggskyggn á þarfir vélbátaflotans, þegar um væri að ræða þarfir þess fólks á Vestfjörðum, sem stundar sjávarútveg, eins og hún var á nauðsyn aðgerða til stuðnings bændum á óþurrkasvæðinu norðan- og austanlands, og ég vil bæta því við, að ég harma það mjög, að ríkisstj. eru svo mislagðar hendur í þessum efnum. Ég get ekki séð, að þessi ummæli séu á nokkurn hátt á misskilningi byggð, og ég fékk staðfestingu á því í orðum hv. þm. S–Þ., því að hann byrjaði ræðu sína á því að gefa þá yfirlýsingu, að hann teldi það fyrstu skyldu hverrar ríkisstj. að styðja landbúnaðinn, og leiddi að því rök, sem vel má ræða. Ég álít, að þessi ummæli staðfesti það, sem ég áður sagði, að hvað sem öðru líður, hvernig sem ástandið er annars staðar, hvað sem að kallar á öðrum sviðum, þá sé það fyrsta skylda ríkisstj. að styðja landbúnaðinn. Þetta er ákaflega þröngt sjónarmið og meiri einsýni en ég hefði vænzt hjá þessum hv. þm. og en ég ætla nokkurri ríkisstj., nema hún sanni það með gerðum sínum, eins og þessi ríkisstj. hefur gert. Hv. þm. færði þau rök fyrir máli sínu, að reynslan hefði sýnt, að okkar sjávarútvegur sé ótryggur, en landbúnaðurinn tryggur. Þetta eru allt rök, sem ég hef heyrt og gætu vel verið efni í umr. Ég mun samt spara mér að fara langt í þessum efnum, en vil spyrja hv. þm. um eitt: Í hverju er trygging landbúnaðarins fólgin? Hvers vegna er landbúnaðurinn svo tryggur nú þrátt fyrir pestir, óþurrka o.fl., af hverju stafar það? Það stafar af því, að hann hefur örugga markaði fyrir sínar afurðir innanlands, sem þar að auki eru tryggðir á þann hátt, að framleiðendur ráða að mestu verðinu á sinni framleiðsluvöru. Áhætta sjávarútvegsins liggur að vísu nokkuð í því, að aflinn er ótryggur, en áhættan liggur að langmestu leyti í því, að hann á annað að leita um sölu á sinni vöru en þangað, sem hægt er að tryggja verð og afsetningu með sérstökum aðgerðum; hann verður að selja sína vöru á erlendum markaði fyrir það verð, sem þar gildir á hverjum tíma. Þétta er sá meginmunur, sem á þessu tvennu er. Af þessu mætti kannske draga þá ályktun, sem hv. þm. gerði, að það þyrfti að draga úr sjávarútveginum, en styðja landbúnaðinn. En þrátt fyrir það er þetta að minni hyggju hæpin ályktun, því að öryggi landbúnaðarins er því aðeins tryggt, að sá markaður, sem hann hefur notið á undanförnum árum, bregðist ekki, og kaupgetan innanlands á afurðum landbúnaðarins er undir því komin, hver afkoma þess fólks er, sem lifir af sjávarútvegi eða öðrum slíkum atvinnugreinum að langmestu leyti. Ef litið er nægilega langt fjarri sér, þá er trygging landbúnaðarins mest í því fólgin, að hlutur þeirra, sem aðrar atvinnugreinar stunda, og þá fyrst og fremst sjávarútveginn, sé sem beztur og þeirra hagur sem bezt tryggður. Það hygg ég að þessum hv. þm. sé ljóst, ef hann leiðir hugann að því. Ég verð því að segja, að sú kenning er að minni hyggju fjarri sanni, að fyrsta skylda hverrar ríkisstj. sé að styðja landbúnaðinn. Fyrsta skylda hverrar ríkisstj. er að vera jafnglöggskyggn á hag og þörf allra hluta þjóðarinnar, ef svo mætti segja, og gera þar engan mun á. Ég harma þær viðtökur, sem þessi till. hefur fengið, og meðferð þessa máls af hálfu ríkisstj.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. Mér þætti vænt um að heyra frá hv. þm. Barð. og hæstv. ríkisstj., á hvern hátt hún telur að málið mætti upp takast, áður en við ákveðum, hvort við tökum till. aftur. Ef það er til góðs fyrir málið, þá er það sjálfsagt.