05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3664)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., frsm. meiri hl. iðnn., er ekki mættur hér, sem er vegna veikinda, og skal ég því leyfa mér að fara um þetta mál nokkrum orðum. Iðnn., sem fengið hefur þetta mál til meðferðar, gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Við höfum fjórir nefndarmenn, hv. 7. þm. Reykv., hv. 6. þm. Reykv., hv. þm. Mýr. og ég, gefið út nál. á þskj. 790, — hv. þm. Mýr. þó með fyrirvara, sem hann að sjálfsögðu gerir grein fyrir síðar, — og við þessir fjórir höfum mælt með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fluttar eru á sama þskj. En minni hl. n., hv. þm. V- Húnv., hefur lagt til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.

Þetta frv. um iðnaðarmálastjóra, sem hét upphaflega „frv. til l. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð“, hefur verið flutt á nokkrum þingum, en ekki komizt út úr hv. Ed. hingað til þessarar d. fyrr en nú. Það fer í aðalatriðum fram á, að stofnað verði embætti fyrir iðnaðarstarfsemina í landinu, hliðstætt búnaðarmálastjóra- og fiskimálastjóraembættunum, þó þannig, að ríkisstj. skipi þennan mann, a. m. k. til að byrja með. Honum er ætlað það starf að eiga frumkvæði að ýmiss konar aðstoð iðnaðinum til handa, bæði um hagnýtingu hráefna, um heildartillögun á sviði iðnaðarmála og um, að framleiðslunni þar sé beint að þeim greinum, sem hagfelldast er fyrir þjóðina og samrýmist bezt þörfum hennar á hverjum tíma, og það, að afurðir þær, sem þjóðin aflar, séu ekki látnar af hendi fyrr en þær hafa verið fullunnar, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, svo að þær skili sem mestum gjaldeyri, en séu ekki fluttar út óunnar. Sömuleiðis er ætlazt til þess, að iðnaðarmálastjóri, með aðstoð framleiðsluráðs, annist ýmiss konar skýrslusöfnun: skrásetningu iðnfyrirtækja, hversu margir menn vinni við fyrirtækin, hve miklar vinnulaunagreiðslur hafi verið, skýrslusöfnun um hráefni, innflutningstolla og ýmislegt fleira, sem nauðsynlegt er að vita skil á í sambandi við iðnaðarstörfin í landinu, en að langmestu leyti hefur vantað skýrslur um á undanförnum árum. Og segja má, að það sé mikill munur á því, hvernig að þessum efnum hefur verið staðið iðnaðinum til handa annars vegar og hins vegar gagnvart landbúnaðinum og sjávarútveginum, þar sem menn fylgjast með svo að segja frá degi til dags, hvernig gengur með þessa tvo atvinnuvegi.

Í hv. Ed. var gerð allmikil breyt. á frv., frá því sem það var flutt, sem fór í þá átt, að svo kallað framleiðsluráð iðnaðarins, sem í upphaflega frv. lagt var til, að yrði þannig skipað, að Landssamband iðnaðarmanna tilnefndi einn mann í ráðið og rannsóknaráð ríkisins annan, en sá þriðji yrði skipaður án tilnefningar, þetta var lagt niður í meðförum hv. Ed. á frv. En eftir upphaflega frv. átti framleiðsluráð að vera iðnaðarmálastjóra til aðstoðar um þau verkefni, sem undir hann skyldu falla og ég hef áður lýst.

Allshn. þessarar hv. d. hefur kallað á sinn fund til viðræðu um málið bæði hv. flm. frv. og form. Félags íslenzkra iðnrekenda og form. Landssambands iðnaðarmanna og rætt við þá um málið. Þeir töldu, — og sérstaklega formenn þessara samtaka, — að frv., eins og það kemur frá hv. Ed., sé eiginlega ekki að miklu gagni, því að það sé búið að nema svo mikið úr því, að það sé ekki nema tiltölulega lítils virði lengur, samanborið við það, sem frv. var, er það var lagt fram. Þeir óskuðu þess eindregið, að þetta yrði lagfært og í það yrðu tekin aftur ákvæðin um framleiðsluráð, og vitnuðu þar um til nál., er n., sem má kalla milliþn., sem skipuð var um þetta mál, hafði látið frá sér fara, þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu, að það væri æskilegra og reyndar alveg nauðsynlegt, til þess að frv. kæmi sem lög að fullum notum, að ákvæðin um framleiðsluráð yrðu tekin aftur upp í frv. og jafnvel fyllri en þau, sem flutt voru fram í frv. í upphafi af hv. flm. — Meiri hl. iðnn. hefur því lagt til, að þessi ákvæði yrðu tekin upp í frv. að nýju, og eru brtt., sem ég þarf ekki að rekja, á þskj. 790 við það miðaðar. Þar er gert ráð fyrir, að frv. verði fært í alveg nýjan búning frá því, sem það er í, þegar það kemur til þessarar hv. d., og þar tekið tillit til þeirra till., sem milliþn., sem ég gat um áður, hafði gert.

Ég þarf svo raunar ekki frekari orðum um þetta mál að fara. Eins og ég gat um í upphafi, hefur hv. þm. V-Húnv. skilað um málið sérstöku nál. á þskj. 802 og lagt til, að það verði afgr. með rökst. dagskrá. Hans aðalsjónarmið er það, sem kemur fram í nál. hans, að það eigi að taka upp sama hátt um till.ögun þessara mála og skipun þeirra eins og nú er í Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands, þannig að þessi samtök sjálf skipi manninn, sem sé iðnaðarmálastjórann, og hafi hann undir sinni stjórn. En það er ýmislegt, sem bendir til þess, að þetta er ekki svo auðvelt, a. m. k. fyrst í stað. En hins vegar er í frv., eins og við leggjum til, að það verði samþ. nú, bráðabirgðaákvæði, þar sem inn á þetta er farið og rúmar alveg þann möguleika, sem hv. þm. V-Húnv. gerir að aðalatriði í sinni grg. fyrir sinni rökst. dagskrá. — Ég tel þess vegna, að málið eigi að fá og geti fengið þá afgreiðslu, sem við leggjum til, að það fái, og þá sé tekið tillit til höfuðsjónarmiðs hv. þm. V-Húnv. — Með nál. okkar er prentað sem fskj. nál. áminnztrar milliþn., sem skipuð var þessum mönnum: Kristjóni Kristjónssyni, sem var form. n., og ásamt honum voru skipaðir í n. Guðmundur H. Guðmundsson samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, Páll S. Pálsson samkv. tilnefningu Félags íslenzkra iðnrekenda, Baldvin Jónsson lögfræðingur samkv. tilnefningu fjárhagsráðs og Ásgeir Þorsteinsson samkv. tilnefningu rannsóknaráðs ríkisins, en í forföllum hans starfaði í n. Þorbjörn Sigurgeirsson. — Þessir menn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, sem við í meiri hl. iðnn. höfum lagt til grundvallar till. okkar um afgreiðslu málsins.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að hafa um málið fleiri orð, en legg til, að þessar breyt., sem við flytjum till. um, verði samþ.