05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (3665)

30. mál, iðnaðarmálastjóri

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Um langan aldur hafa starfað hér á landi tvær stofnanir í þjónustu landbúnaðarins og sjávarútvegsins, Búnaðarfélag Íslands, byggt upp af bændastéttinni og búnaðarfélögum sveitanna, og Fiskifélag Íslands, byggt upp af fiskimönnum og fiskútgerðarmönnum og félagssamtökum þeirra. Þessar stofnanir hafa, hvor á sínu sviði, veitt þessum atvinnuvegum, landbúnaðinum og sjávarútveginum. margs konar þjónustu, með skýrslusöfnun um atvinnuvegina, leiðbeiningarstarfsemi í þeirra þágu o. þ. h.

Á síðari árum hefur risið hér upp mikill og fjölþættur iðnaður í landinn. Og ég tel mjög eðlilegt, að komið verði á fót hliðstæðri stofnun fyrir iðnaðinn, sem er orðinn mikill atvinnuvegur, sem annist leiðbeiningarstarfsemi og upplýsingastarfsemi fyrir þennan atvinnuveg á líkan hátt og hin samtökin, sem ég nefndi, hafa gert fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. Og mér finnst eðlilegt, að ríkið leggi fram fé einnig til styrktar þeirri starfsemi, á sama hátt og hinir atvinnuvegirnir hafa notið fjárstuðnings til sinna heildarsamtaka. Hins vegar tel ég, að það sé ekki ástæða til að gera að lögum það frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að ég tel það heppilegra og eðlilegra, að félagssamtök iðnaðarins í landinu byggi upp þessa stofnun fyrir sig á sama hátt og hinar hafa verið upp byggðar, stofnanirnar fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að iðnaðarmenn og iðnrekendur geta mjög auðveldlega byggt upp slíka stofnun, án þess að afskipti löggjafans komi þar til. Það er að vísu á það bent og með réttu, að félagssamtök iðnaðarins séu allmjög sundurgreind, þar sem faglærðir iðnaðarmenn hafa samtök, sem eru Landssamband iðnaðarmanna, og iðnrekendur hafa annan félagsskap með sér, og að það vanti á, að allir iðnaðarmenn séu í þessum félagssamtökum. En þrátt fyrir þá skiptingu tel ég enga ástæðu til að óttast, að þessi samtök geti ekki komið sér saman um að setja á fót stofnun sameiginlega, sem þjóni hagsmunum aðila í báðum þessum félagssamtökum, að því er ýmiss konar almenna upplýsinga- og leiðbeiningastarfsemi varðar. — Þess vegna legg ég til, að þetta frv. verði ekki gert að lögum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að halda um þetta langa ræðu. Ég vil þó benda á það, að í þessu frv., eins og það liggur fyrir, og einnig í þeim brtt., sem meiri hl. n. flytur til breyt. á frv., eru ýmis ákvæði, sem ég tel mjög gagnslítil, þegar til framkvæmdanna kæmi. Í 3. gr. frv., sem hv. meiri hl. n. leggur ekki til, að gerð verði nein breyt. á, eru tekin upp í stuttu máli, skilst mér, nokkur aðalatriðin um verkefni iðnaðarmálastjórans, og m. a. segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hann undirbýr tillögur og áætlanir um ný iðjuver, er ríkissjóður lætur reisa eða styrkir aðra til að koma upp, svo og um endurbætur eða stækkanir iðjuvera, sem starfrækt eru af ríkissjóði eða hann styrkir með lánum, framlögum eða á annan hátt. Skal hann og hafa yfirumsjón með öllum slíkum framkvæmdum fyrir hönd ríkissjóðs.“ Ég held, að þótt slíkt væri í lög leitt, þá mundi verða lítið úr því í framkvæmd, að þessi iðnaðarmálastjóri undirbyggi stofnun nýrra iðjuvera fyrir ríkið. Hugsum okkur, ef þetta embætti hefði verið til á undanförnum árum, þegar verið var að byggja upp stór fyrirtæki á sviði iðnaðar, t. d. síldarverksmiðjur ríkisins eða rafmagnsveitur ríkisins. Ég held, að óhætt sé að slá því alveg föstu, að þó að iðnaðarmálastjóri hefði verið til hér á þeim árum, þá hefði ekki verið til hans leitað um undirbúning slíkra fyrirtækja, það er þannig með iðnaðinn, að hann er langtum fjölþættari en aðrar atvinnugreinar, og í hverri einstakri grein hans þarf alveg sérstaklega menntaða menn á viðkomandi sviði iðnaðarins. Og þess vegna hafa verið fengnir menn til þess að byggja upp síldarverksmiðjur ríkisins og í öðru lagi menn til þess að byggja upp raforkuveiturnar — svo að nefnt sé eitthvað — sem hafa haft alveg sérstaka þekkingu á þeim málum hverju fyrir sig. Það hefur verið nauðsynlegt að fá kunnáttumenn til þess að reisa þessi fyrirtæki frá grunni og síðan að hafa yfirstjórn á rekstri þessara fyrirtækja. Sama má segja um önnur slík iðnfyrirtæki, þó smærri séu. Og t. d. nú liggur fyrir að stofnsetja áburðarverksmiðju og væntanlega áður en langt líður sementsverksmiðju, sem ríkið tekur þátt í hvoru tveggja. Engar líkur benda til, að iðnaðarmálastjóra, þótt til væri, væri falið að undirbúa slíkar framkvæmdir á vegum ríkisins. Þar hlytu að koma til menn, sem hefðu í þeim greinum, sem þar um ræðir, sérþekkingu. Auk þess vil ég benda á annað í þessu sambandi. Ef með þessu er verið að benda til þess, að eðlilegt og heppilegt sé, að ríkið geri mikið að því að koma upp nýjum iðjuverum framvegis, þá vil ég láta þá skoðun koma fram, að ég tel það ekki heppilegustu leiðina til þess að auka hér iðnað í landinu, að ríkið komi upp nýjum iðjuverum. Ég tel heppilegra að iðnaðarframleiðslan, eins og önnur framleiðslustörf í landinu, sé í höndum einstaklinga og félaga, t. d. samvinnufélaga, heldur en í höndum þess opinbera. Ég get vel skilið, að hv. þm. Hafnf., sem tók að sér framsögu fyrir meiri hl. hv. iðnn. í þessu máli, sé því fremur fylgjandi, að stofnað sé til iðnrekstrar á vegum ríkisins, því að það er í samræmi við stefnu hans flokks. En ég hygg, að það sé ekki í samræmi við stefnu þá, sem hv. form. n. aðhyllist, hv. 7. þm. Reykv. (GTh). Og hefði ég gjarnan haft löngun til að ræða þá hlið málsins við hann, ef hann hefði verið hér staddur. Og var hann ákvarðaður að vera frsm. meiri hl. n. í þessu máli hér nú, og satt að segja bjóst ég við því af þeim ástæðum, að hann mundi verða hér nú. Og ég vil benda hæstv. forseta á, að það er miður viðkunnanlegt að tala hér um talsvert þýðingarmikið mál, snertandi stóran atvinnuveg í landinu, þegar hv. þd. er svo þunnskipuð, að hér í öðrum helmingi salarins er nú enginn þm. í sæti og enginn hæstv. ráðh. er hér sjáanlegur heldur. — Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti vilji gjarnan þoka þessu máli áleiðis, þrátt fyrir þetta, og ég mun þá halda áfram minni ræðu. — Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja hér önnur atriði frv. Ég hef bent á ákvæði í því, sem ég tel, að mundu verða mjög haldlítil, þegar til framkvæmda kæmi. Og fleira er í frv., sem orkar mjög tvímælis að mínum dómi. En niðurstaðan af þessum athugunum mínum á málinu er því sú, að ég tel, að hv. þd. eigi að láta koma fram vilja sinn um það, að félagssamtök iðnaðarins fái fjárstuðning ríkisins til þess að koma á fót upplýsinga- og leiðbeiningastarfsemi fyrir þennan atvinnuveg, í líkingu við það, sem Búnaðarfélagið og Fiskifélagið annast fyrir hina atvinnuvegina. En ég tel enga þörf á að skipa þessu með lögum frekar en löggjöf hefur verið sett um Fiskifélagið eða Búnaðarfélagið. Það hefur, eins og kunnugt er, ekki verið gert. En af því að svo nýlega er búið að útbýta hér þingskjölum um málið — ég tek eftir, að hv. meiri hl. iðnn. hefur prentað upp sem fskj. álit hinnar stjórnskipuðu n., sem samdi frv., sem meiri hl. n. tekur nú til flutnings, og er það gott, að menn fái að kynnast því. En það álit var líka prentað með nál. Ed.nefndarinnar, sem fjallaði um málið þar. En ég bendi á að í áliti þeirrar stjórnskipuðu n. segir, að tilgangurinn sé, að á fót verði sett stofnun hliðstæð þeim, sem nú eru fyrir hendi hjá hinum atvinnuvegum þjóðarinnar, og það kemur fram hjá þeim, að þeir telja eðlilegt, að það sé gert hjá félagssamtökum iðnaðarins, þó að þeir dragi í efa, að hægt sé nú í augnablikinu að koma þessu skipulagi á. En ég dreg í efa, að þessi samtök geti ekki komið á, hvenær sem er, slíkum samtökum, ef þau fá fjárstuðning frá ríkinu.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða um þetta meira. En af því að svo nýlega er búið að útbýta þingskjölum, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp mína till. til rökst. dagskrár. Hún er svona:

„Neðri deild Alþingis telur eðlilegt, að ríkið leggi fram fé til styrktar upplýsinga- og leiðbeiningastarfsemi í þágu iðnaðarins, og mælir með því, að ríkisstjórnin setji fjárframlög í þessu skyni í frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, ef slíkri starfsemi verður haldíð uppi af félagssamtökum iðnaðarins. En með skírskotun til þess, að Alþingi hefur ekki sett lög um störf búnaðarmálastjóra og fiskimálastjóra, sem veita forstöðu þeim stofnunum, er annast upp1ýsinga- og leiðbeiningastarfsemi fyrir landbúnað og sjávarútveg, telur deildin ekki ástæðu til að selja lög um störf iðnaðarmálastjóra, sem félagssamtök iðnaðarins væntanlega ráða í sína þjónustu, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Eins og þarna er að vikið, hafa aldrei verið sett nein lög um búnaðarmálastjóra og fiskimálastjóra, og ég sé heldur enga þörf fyrir, að Alþ. setji lög um iðnaðarmálastjóra.