08.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3671)

75. mál, fjárhagsráð

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Langt er nú liðið á fundartímann, og skal ég vera fáorð, enda er allt, sem máli skiptir, tekið fram í greinargerð.

Breytingin samkv. 1. gr. er um það, að óheimilt sé að láta til iðnaðar vefnaðarvöru, sem ekki er flutt inn handa honum. Mikil brögð eru að því, að vefnaðarvara, sem ætluð er til sölu, hafi horfið og komið aftur sem fullunnin vara. Þessu hefur verið ákaft mótmælt af hálfu heimilanna, af því að vinnan hefur hækkað vöruna mjög, áður en hún hefur komizt til neytenda.

Síðari breytingin felst í 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að bætt sé inn í ákvæðin um hegninguna, að sökudólgur sæti fangelsi, og er það gert í því skyni að auðvelda rannsókn í gjaldeyrismálum. Hefur það skeð, að rannsókn máls hafi torveldazt vegna þess, að ekki var heimild til að láta sökudólginn sæta varðhaldi.

Eðlilegast er, að frv. fari í fjhn., og legg ég því til, að því verði vísað þangað.