24.11.1950
Efri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3676)

110. mál, orkuver og orkuveita

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 201 ásamt hv. 6. landsk. (HV) leyft mér að bera fram frv. til l. um nýtt orkuver og nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins. Þetta frv. er um heimild til ríkisstj. til að virkja Dynjandisá í Arnarfirði til raforkuvinnslu í allt að 7000 hestafla orkuveri og leggja þaðan orkuveitu um Vestfirði samkvæmt áætlunum frá 2. marz 1946. — Um aðrar gr. frv. þarf ég ekki að ræða, þar sem þær eru afleiðing af löggjöf um raforkuver og orkuveitur ríkisins, og vísa ég frekar til fskj., sem hér fylgir þessu frv. Ég vil leyfa mér að benda á, að virkjun Dynjandisár í Arnarfirði hefur verið til umræðu í tugi ára, en hún var ein fyrsta á, sem hugsað var um að virkja, og var þá ætlunin að veita erlendum aðilum heimild til virkjunarinnar, þar sem kostnaður hlyti alltaf að verða mikill. Nú stöðvuðust þær framkvæmdir vegna stríðsins, en á þeim tíma var þráðurinn tekinn upp að nýju af héruðunum á Vestfjörðum og rannsókn gerð af verkfræðingi, sem þessi héruð réðu til athugunar á þessum málum, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að það mundi kosta um 12 millj. kr. að virkja Dynjandisá og gera veitu þaðan um Vestfirði. Héruðin höfðu lagt til hliðar allmikið fé til að standa undir þeim kostnaði, sem slíkt mannvirki mundi hafa haft í för með sér, og þau hugsuðu sér að gera þetta að félagsmáli og stofna félag raforkuveitna Vestfjarða. Þar sem nú hér á Alþ. var mörkuð sú stefna, að ríkissjóður skyldi bera kostnað mannvirkja sem þessara, sbr. Sogs- og Laxárvirkjanirnar, þá sýnist eðlilegt, að málinu verði veitt í þann farveg, að ríkissjóður kosti einnig virkjun þeirrar ár, sem hér um ræðir. Það hefur því verið látið falla niður, að héruðin sjálf tækju verkið að sér, en þau hafa undirbúið það mjög mikið, með því að þau hafa komið á hjá sér innanbæjarkerfum. Slík kerfi eru nú komin upp á næstum öllum þeim stöðum, sem bundust fyrr nefndum samtökum, og þessir staðir hafa lagt á sig þá byrði að kaupa dýrar dieselstöðvar til að tryggja sér rafmagn, og gætu þá þessar stöðvar orðið varastöðvar, ef truflanir yrðu á aðalstöðinni. Þessar framkvæmdir hafa verið í beinu framhaldi af því, sem fyrirhugað var, og eru á engan hátt í andstöðu við það, að hægt sé að samþykkja þetta frv. hér.

Ég vil benda á, að nýlega var samþ., að ríkisstj. annaðist virkjun við Laxá og Sogið, og hefur verið bundið fé til þessara framkvæmda, á sama tíma sem ekkert hefur verið gert fyrir Vestfirði í þessum efnum. Slíkt verður ekki þolað til lengdar, að lögð sé þung byrði á alla landsmenn fyrir þessi tvö héruð, og það er vitað, að Vestfirðir hafa ekki síður þörf fyrir rafmagn en aðrir landshlutar. Þess er því að vænta, að hafizt verði handa um framkvæmdir þessa máls, eftir því sem unnt er, og þetta frv. samþykkt, og eins og 3. gr. kveður á um, að framkvæmdir verði ekki hafnar, fyrr en fyrir liggur nákvæm kostnaðaráætlun um virkjunina og fé tryggt. Og þó að þetta frv. verði samþykkt nú, þá þýðir það ekki það, að lagt verði í framkvæmdir strax á næsta ári, heldur hafizt handa um undirbúning verksins. Í þessu sambandi má geta þess, að það þótti sjálfsagt að athuga nánar kostnaðarhlið þessa máls, og var málið í því augnamiði afhent vegamálastjórninni. Var sú rannsókn gerð á árunum 1945–46 og skýrslan gefin í marz, og samkvæmt henni sést, að allur kostnaður við framkvæmdirnar með innanbæjarkerfunum mundi nema um 30 millj. kr. Nú kann vel að vera, að kostnaður þessi hafi aukizt síðan, en það kann og að vera, að sumum þeirra liða, sem þá voru teknir með, svo sem innanbæjarkerfunum, megi nú sleppa, og það gæti jafnvel farið svo, að framkvæmdirnar yrðu ódýrari nú, einkum vegna hraðvirkari vinnuvéla og aukinnar tækni.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða einstök atriði hér nánar, enda fylgir frv. nákvæm áætlun og grg. fyrr nefndra rannsókna, en ég vil þó ræða lítillega um bráðabirgðaákvæði það, sem fylgir frv., en þar er farið fram á, að „þar til framkvæmdum samkvæmt 1. gr. er lokið, skal þeim dieselraforkuverum, sem þegar hefur verið komið upp á Vestfjörðum, veitt aðstoð úr raforkusjóði samkv. 2. tölul. 35. gr. raforkulaga, nr. 12 2. apríl 1946, svo að þau þurfi eigi að selja raforku hærra verði en raforkuver ríkisins. Lán þessi endurgreiðist sjóðnum eftir sömu reglum og lán þau, er hann kann að veita til annarra aðila samkv. 2. tölulið 35. gr. raforkulaganna“, en þar kveður svo á, að þegar komið er upp nýjum raforkustöðvum, þá skuli þær fá rekstrar- og bráðabirgðalán úr raforkusjóði, þar til þau geti borið sig fjárhagslega, þ. e. a. s., að á meðan mannvirkin eru að rísa upp og er þau hefja rekstur sinn, þá fá þau lán til að vega upp á móti gjöldunum, en um leið og arður verður af rekstri þeirra, færist það fé sem endurgreiðsla til sjóðsins. Nú í ár er sýnilegt, að mörg þeirra raforkuvera, sem notið hafa þessa láns, eru nú komin á þann fjárhagslega grundvöll, að þau þurfa ekki lengur á láninu að halda. Það er ætlazt til þess hér, að verðið á raforkunni verði ákveðið af rafmagnsveitum ríkisins á sama hátt og annars staðar á landinu, og ef stöðvarnar geta ekki borið sig, þá verði þeim veittur styrkur eins og öðrum raforkustöðvum, þar til þær eru komnar á fjárhagslegan grundvöll. Þetta er réttlætiskrafa, sem ekki er hægt að standa á móti, því að það getur á engan hátt gengið að taka stóra landshluta út úr og láta þá ekki njóta sömu hlunninda í þessum efnum sem aðra staði. Þess er því að vænta, að hv. þm. sýni þessu máli skilning og það verði afgreitt nú þegar á þessu þingi. — É,g sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar nú og óska þess að lokum, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.