07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef talað tvisvar í þessu máli og á aðeins rétt á aths. Og þó er ýmislegt, sem vert væri að gera að umtalsefni, eftir að hæstv. landbrh. hefur hleypt hér svo myndarlega úr hlaði og skellt á skeið í umr. um málið. Hann sagði margt, sem ástæða væri til að svara.

Hv. þm. Barð. vildi aðallega sýna fram á hér í ræðu sinni áðan, að ástæðan til hins bágborna atvinnuástands á Vestfjörðum væri ekki fyrst og fremst aflabrestur nú eða á undanförnum árum, skildist mér, heldur væri það af öðru en af náttúrunnar völdum, sem afli hefði ekki borizt þar á land. Það væri m.a. þjóðfélagsþegnunum að kenna og svo bjargráðasjóði og mér skildist líka ríkissjóði, sem bætt hefði mönnum tjón, sem þeir hefðu orðið fyrir af slíkum völdum. En ég held, að aflaleysið sé alveg jafntilfinnanlegt, hvort sem það stafar af náttúruvöldum eða af þeim ástæðum, sem hv. þm. Barð. heldur fram, og hér er það að minnsta kosti staðreynd, að hraðfrystihúsin eru órekin, að vélbátaflotinn liggur í höfn vegná þess, að fjárhagur þessara fyrirtækja er: rúst. Hraðfrystihúsin hafa ekki fengið nægilegt hráefni, einmitt vegna aflaleysis vélbátanna, og má í því sambandi vísa til aflaskýrslna Fiskifélags Íslands yfir Vestfirðingafjórðung, sem sýna, að undanfarin 3 ár hefur afli þar verið langt fyrir neðan meðallag. Bæjar- og sveitarfélög á Vestfjörðum reyndu í fyrra að tryggja sjómönnum lágmarkskaup og greiddu til þess háar upphæðir og hærri en þau þoldu, til þess að reyna að halda atvinnutækjunum, en þegar nú er knúið á þær dyr, þá treysta þessir aðilar sér ekki til að veita sams konar hjálp í ár. Og hvert á þá að leita? „Fólkið á að segja sig til sveitar,“ segir hv. þm. S–Þ. „Það á að lækka kaupið og lengja vinnutímann,“ segir hv. þm. Barð. Þetta eru svörin, sem fást hér á hinu háa Alþingi. Hv. þm. Barð. segir að vísu, að hann vilji veita málinu stuðning, ef till. okkar verði tekin aftur nú og málið flutt í öðru formi. Ég veit nú ekki, hvort hann hefur á bak við sig fyrirheit frá hæstv. ríkisstj. um góðar undirtektir við málið, ef það væri öðruvísi flutt, en ef svo væri, þá væri ég fús til að taka till. aftur nú og afsanna þar með þá staðhæfingu hv. þm. Barð., að málið sé eingöngu flutt í auglýsingarskyni, og hæstv. landbrh. leyfði sér einnig að fullyrða, að málið væri eingöngu flutt til að sýnast. En sannleikurinn er sá, að fyrir mér vakir það eitt að fá atvinnulíf Vestfjarða í gang til þess að bægja þar voða frá dyrum almennings.

Hæstv. landbrh. talaði um það, að á undanförnum árum hefði ekki verið misgert við sjávarútveginn og hefði meira komið í hans hlut en landbúnaðarins, og má lengi deila um þetta, en ég hef hér fyrir mér fjárlagafrv. fyrir árið 1951, og þar eru á 16. gr. ætlaðar 25,7 millj. kr. til landbúnaðar, og er það mjög svipuð upphæð og áður. Hins vegar er framlagið til sjávarútvegsins lækkað. Það er rétt hjá hæstv. landbrh., að við eigum ekki of lítið af vélbátum og ekki of lítið af togurum eða hraðfrystihúsum, en við eigum of lítið af öllum þessum tækjum í fullum rekstri, og ég hélt sannarlega, að þótt þessara tækja hafi verið aflað, þá sé ekki kominn tími til að halla sér út af og sofna með vélbátana í höfn, hraðfrystihúsin hráefnislaus, fólkið atvinnulaust og þjóðfélagið gjaldeyrissnautt.

Hæstv. landbrh. sagði, að það væri búið að moka svo miklu af tækjum í sjávarútveginn, að nú væri hann að gubba 10 nýjum togurum.

Það er bágborið heilsufar í atvinnulífinu, en af hverju stafar þetta? Það stafar af því, að sjávarútveginum var af hæstv. ríkisstj. fært það læknislyf, sem gengislækkunin var, en hún veldur því, að togararnir nýju kosta 8 millj. kr. stykkið. Enginn treystir sér til að kaupa þá, og það er þess vegna, sem sjávarútvegurinn er að gubba 10 nýjum togurum. Það er vegna gengislækkunar hæstv. ríkisstj.

Hæstv. landbrh. sagði, að það skyldi ekki standa á sér að láta athuga, hvort hallærisástand væri í atvinnulífi Vestfjarða, og þá af hverju. Þetta er það, sem till. okkar fjallar um, og skoða ég þetta sem yfirlýsingu um, að þetta verði gert, og mun því fús til að taka till. aftur í trausti þess, að málið verði aftur tekið upp í því formi, að það geti fengið skjóta og fullnægjandi afgreiðslu.