30.11.1950
Efri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

117. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er dæmi þess, hvaða hégóma menn koma með í frumvarpsformi til að eyða tíma þingsins. Ég teldi ekki óþinglegt, að hæstv. forseti vísaði þessari vitleysu frá. Hvernig ímynda menn sér, að Alþingi geti kveðið á um það, hvaða einstaklingar eigi að fá jeppa? Hvaða þm. hefur gögn og skilríki til að skipta þeim réttlátlega niður? Við vitum, að hér er stórt bákn, sem kostar milljónir og annast mál eins og þessi, og þeim gengur erfiðlega, sem sitja í þessu dag og nótt, þaulkunnugir þörfum manna, að skipta þessu niður og liggja undir ámæli — að mestu ranglega — fyrir að þeim hafi mistekizt sitt starf. Og svo ætlar einn þm. sér þá dul, að þingið skipti 14 jeppum. Ég tel, að þinginu sé beinlínis misboðið með því að eyða tíma þess í slíka fjarstæðu.