07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vildi aðeins mótmæla þeirri fullyrðingu hv. 4. þm. Reykv., að ég sem form. fjvn. og hæstv. ríkisstj. ættum sök á því, ef um sök væri að ræða, eins og hann orðaði það, að lögð var þung byrði á atvinnuvegina með samþykkt Alþingis á launauppbót til embættismanna á síðasta ári og vísa ég í þessu sambandi til umr., sem fram fóru í fyrra, bæði um þáltill. um það efni og fjárl. Málið var fyrst flutt af tveimur þm. Alþfl. og tveimur þm. Sjálfstfl. og samþ. þá, en hvernig var afstaða þm.? Í fjvn. voru 6 af 9, þar á meðal ég, á móti, og í sameinuðu þingi var meiri hl. stjórnarstuðningsmanna á móti, en till. samþ. með stuðningi óábyrgrar stjórnarandstöðu. Till. var svo aftur flutt í desember af einum þm. Sjálfstfl. og tveimur þm. Alþfl., þar á meðal hv. 4. þm. Reykv., sem nú vill ekki kannast við sitt eigið afkvæmi. Þá gerðist sama sagan: 6 af 9 í fjvn., þar á meðal ég, voru á móti, og barðist ég hart gegn framgangi málsins. Í sameinuðu þingi var meiri hl. stjórnarstuðningsmanna áfram á móti, en tili. var samþ. með hjálp hinnar óábyrgu stjórnarandstöðu. Svo leyfir hv. 4. þm. Reykv. sér að drótta því að mér og hæstv. ríkisstj., að við eigum alla sökina, ef um sök sé að ræða! En það er staðreynd, að það er hv. 4. þm. Reykv. ásamt öllum hans flokki, sem á sökina á því, að þessi byrði var lögð á atvinnuvegina, og hefur þannig stuðlað að því, að bátarnir eru í höfn og iðjuverin óhreyfð.

Út af fyrirspurnum hv. flm. um það, hvaða lið ég vildi ljá málinu, ef till. yrði nú tekin aftur, þá þykir mér rétt, ef hann hefur ekki manndóm í sér til að standa við það að taka hana aftur, að geta þess, að ég er reiðubúinn til að stuðla að því, að rannsókn fari fram í málinu, en það er vitanlega rétt hjá hv. frsm., að sú rannsókn yrði aldrei einskorðuð við Vestfirði, heldur yrði hún að ná yfir land allt. Enn fremur er ég fús til að athuga, hvaða aðstoð hraðfrystihúsin geta fengið samkv. 22. gr. fjárlaga, XII. lið, en þá verður líka að vera til starfsgrundvöllur fyrir þessi hraðfrystihús, en hann verður aðeins skapaður með heilbrigðum launakjörum, og ég er ekki með því að veita fé til þess að hækka laun, án þess að það komi fólkinu á viðkomandi stöðum til góða.