11.01.1951
Efri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (3710)

142. mál, togaraútgerð ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það má segja, að tvær meginástæður liggi til þess, að þetta frv. er flutt. Í fyrsta lagi hafa verið mikil brögð að aflaleysi, og af því hefur leitt atvinnuleysi í heilum landshlutum. Atvinnuleysið hefur haldið innreið sína, en hingað til hefur ríkisvaldinu orðið ráðafátt að bæta úr því. Í öðru lagi stendur nú svo á, að ríkið hafði 10 nýtízku togara, þegar frv. þetta var flutt, og þá virtist torvelt að fá kaupendur að þeim. Ætlunin hefur verið sú, að bjóða einstaklingum þá til kaups, þannig að hinir nýju eigendur greiði 10% kaupverðsins, en fái 90% að láni. — Nú stendur þannig á í þjóðfélaginu, að atvinnuleysið lætur æ meir til sín taka og það þarf að leysa þann vanda og hins vegar hefur virzt erfitt fyrir ríkið að losa sig við þessi tæki, og virðist hér því bjóðast gott tækifæri til að leysa þennan vanda. Það á að nota þessa nýju togara til að jafna atvinnuna í landinu og bæta atvinnuleysið. Það er skoðun okkar flutningsmanna, að þessi vandi verði ekki leystur með fátækrastyrk. Sveitarfélögin eru nú þannig stödd fjárhagslega, að þau eru miklu fremur hjálparþurfi en að þau geti leyst atvinnuleysisvandamálið. Og þetta vandamál verður ekki leyst með neinni atvinnubótavinnu. Til þess er viðfangsefnið of stórfellt, og er því sú leið ekki fær. — Þá gæti einhver ætlað, að hér gæti einkareksturinn leyst vandann, en það mun heldur ekki tækilegt. Það mundi þykja of mikil kvöð að leggja það á einkareksturinn að láta hann leggja aflann á land þar, sem atvinnuleysið er mest. Þetta er alveg víst.

Frv. þetta fer fram á, að ríkið eigi sjálft a. m. k. 4 togara af þessum 10, sem nú er verið að smíða í Bretlandi, og enn fremur, að það geri þessa togara út á veiðar til þess að jafna atvinnuna í kaupstöðum og kauptúnum landsins, þar sem atvinnuleysið er mest. Til þess að draga úr stjórnarkostnaði togaraútgerðarinnar er lagt til í 3. gr. frv., að stjórn hennar sé falin stjórn síldarverksmiðja ríkisins og framkvæmdastjóri þeirra verði einnig framkvæmdastjóri togaraútgerðarinnar. Með þessu móti virðist verða komizt hjá kostnaði. — Í 4. gr. er lagt til, að auk þess sem höfuðmarkmið útgerðarinnar er að jafna atvinnu til þess að bæta úr atvinnuleysi, þá verði einnig hægt að haga rekstri útgerðarinnar þannig, að síldarverksmiðjur ríkisins fái aukið hráefni til vinnslu og vinnslutími verksmiðjanna nái því yfir lengri tíma á ári. Útgerðin á ekki að hafa sameiginlegan fjárhag með S. R., heldur sjálfstæðan reikning. — 6. gr. fjallar um formsatriði og þess háttar. — 7. gr. ákveður um það að marka þessum rekstri ákveðna stefnu í reglugerð. — Þetta er sem sé meginefni þessa frv.

Það var í gær, sem Alþ. og ríkisstj. barst erindi frá Alþýðusambandi Íslands um neyðarástand, er ríkti í Flatey á Breiðafirði, og er beðið um hjálp. Atvinnutekjur manna síðustu 2 mánuði ársins 1950 eru komnar niður í nokkrar krónur. Þar hefur þó verið lagt í verulegan kostnað, bæði af íbúum eyjarinnar og ríkisstj. Þar hefur verið reist hafskipabryggja, hraðfrystihús er nálega fullbúið og hefur þegar hafið vinnslu, einn bátur hefur verið keyptur í byggðarlagið. En nú er fólkið orðið bjargarlaust. Mér dettur nú í hug, að hægt mundi vera að leysa vanda Flateyinga með auðveldu móti, þ. e. a. s., ef þetta frv. væri orðið að lögum. Fyrir Snæfellsnesi eru ein beztu fiskimið togaranna, og fæ ég ekki séð, að það væri óhagkvæmt að gefa fyrirmæli um það að fara með aflann til Flateyjar, gera þar hverja hönd starfandi, hraðfrystihúsið tæki upp rekstur. Þetta sýnist vel mögulegt, úr því að togari getur á annað borð athafnað sig þar. Þannig væri hægt að leysa vanda Flateyinga þegar í stað án þess að baka togaraútgerð ríkisins nokkurn kostnað. — Það ástand, sem nú þjakar íbúa kauptúnsins í Flatey, er einnig ríkjandi á mörgum stöðum á Vestfjörðum. Þar stendur einnig svo á, að þar úti fyrir eru góð togmið, hafnarskilyrði góð, hraðfrystihús, sem eru lítt notuð, en þarf að reka. Aflaleysið á Vestfjörðum er að verulegu leyti orsök þess, að vélbátaflotinn er ekki í gangi og hraðfrystihúsin því ekki rekin. Á s. h haustvertíð hefur verið erfitt fyrir vélbátaflotann að ná á mið, þar sem helzt er fiskivon, því að of langt er að sækja þangað, sem fiskurinn virðist vera nú. Bátarnir hafa því borið lítinn afla á land. En með togaraútgerð væri hægt að sjá fyrir því, að fólkið í mörgum byggðarlögum hefði næga atvinnu. Ég fæ ekki betur séð en hér hefði verið skjótt leyst úr miklum vanda, ef ríkið gerði út togara, og þetta þyrfti ekki að valda ríkinu óeðlilegum rekstrarútgjöldum. Ég býst við, að ef stjórn útgerðarinnar yrði í höndum S. R., þá mundi bækistöð útgerðarinnar verða sennilega á Siglufirði, en þó er bezt að gæta þess, að á Vestfjörðum og annars staðar á Norðurlandi eru einnig síldarverksmiðjur, svo og á Austurlandi, og mætti þá einnig setja aflann í hraðfrystihús eða í saltfiskverkun. Fiskimið eru einnig góð úti fyrir þessum stöðum, og gæti þá stjórn fyrirtækisins beint togurunum að þeim stöðum, sem mest þyrftu eflingar atvinnuveganna.

Við flm. þessa frv. höfum ekki lagt til, að allir nýju togararnir verði þjóðnýttir. Við vonum, að með þessu móti getum við fengið menn úr öllum flokkum til fylgis við þetta frv. til að leysa þann vanda, sem nú steðjar að mörgum byggðarlögum. Og hins vegar gerum við okkur ljóst, að litlar líkur eru til, að ríkisstj. sú, sem nú situr, mundi fást til að þjóðnýta allan togaraflotann. Ef farin yrði þessi leið, sem ég hef nú bent á, yrði hægt að leysa þetta þjóðfélagsvandamál á auðveldan hátt.

Ég held ég láti þessi orð nægja sem framsögu, en legg áherzlu á, að ég tel þetta frv. athyglisvert og trúi ekki, að þetta frv. verði ekki vel yfirvegað — jafnt af andstæðingum sem fylgismönnum þjóðnýtingar. Ég vænti þess, að eftir þessa umr. verði frv. vísað til 2. umr. og sjútvn.