23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (3717)

154. mál, öryrkjahæli

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni yfir því, að þetta frv. er komið fram með þeim undirbúningi, sem frá er skýrt í grg. Það er fullkomlega tímabært, að þetta mál sé tekið fyrir og fái viðeigandi afgreiðslu. Og ég álít, að sú skoðun, að sveitarfélögin komi sér upp slíku hæli, sé alveg rétt. Hitt er örðugra að ákveða, til hverra slíkar ráðstafanir eigi að taka, enda er ekki kveðið á um það í frv., sbr. orðalag 1. gr.: „Heimilt skal Sambandi íslenzkra sveitarfélaga f. h. sveitarfélaga landsins að reisa og reka öryrkjahæli fyrir þá líkamlegu og andlegu öryrkja, sem þeim ber að annast framfærslu á og eigi verður með öðrum hætti séð fyrir viðunanlegum dvalarstað.“ Ég skil þessa grein svo, að þarna sé átt við þá öryrkja, sem ekki komast af með þær greiðslur, sem þeir fá frá almannatryggingunum, og þá, sem ekki er líklegt að fái bót meina sinna.

Í fyrsta lagi mun þetta hæli ætlað fyrir vandræðamenn, og mun sá hópur vera töluvert stór. Af því leiðir, að þetta hæli hlýtur að verða rekið með nokkuð sérstökum hætti. Það mun varla rekið á svipaðan hátt og vinnuhælið í Reykjalundi, þar sem hér er um að ræða andlega sjúkt fólk. Ég hygg því, að það muni sýna sig, að það verði erfitt að hagnýta starfsgetu þessara manna. Það kemur bezt í ljós, ef litið er á þá athugun, sem gerð var á þessu fólki. Það sýnir sig, að meðal kvenna eru 34 geðsjúkar og 22 fávitar og 26 geðsjúkir karlar og 22 fávitar, þ. e. a. s. 104 einstaklingar af 154 eða 2/3 hlutar af öllum þeim sjúku. Þar við má svo bæta stórlega skapgölluðu fólki, sem er 19, og þá eru ekki eftir nema um 30 manns. Þetta geðsjúka fólk ætti að vera fólk, sem ekki er tiltækilegt að fengi bætur á geðveikrahæli. Það má því búast við því, að sjúkdómur þess verði varanlegur, þó að ekki stafi af því bein hætta.

Hin greinin eru ofdrykkjumenn, sem eru 6, ellisjúkt fólk og flogaveikt og lamað fólk. (KK: Þetta er náttúrlega engin fræðileg flokkun). — Ég hafði nú haldið, að þetta hæli ætti fyrst og fremst að vera fyrir fólk, sem ekki væri trúandi til að fara með fé sitt og ekki nægði það fé, sem það fær í bótagreiðslum almannatrygginganna.

Með tilliti til þessa tel ég, að varla geti orðið um mikla vinnugetu að ræða. Það yrðu þá helzt fábjánahópar. En þetta dregur ekki úr nauðsyn þess, að athugað verði, að þetta komist á, þó að ekki sé líklegt, að það nái fram að ganga á þessu þingi, en það ætti þá að geta orðið á næstunni.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi spyrja hv. flm. þessa frv. um, en það er, á hverju fjárframlag sveitarfélaga byggist og við hvað er miðað. Mér skilst, að það skipti nokkru máli, hvað þar vakir fyrir mönnum. — Ég vil svo að endingu lýsa ánægju minni yfir framkomu þessa frv. og vona, að það verði afgreitt svo fljótt sem hægt er.