01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3730)

191. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Þetta frv. er þannig til komið, að á undanförnum árum hefur orðið ágreiningur um það, hvernig ætti að skilja og skýra þá gr., sem hv. þm. hafa fyrir framan sig. Frv. er um, að einn málsl. bætist í gr. í l. um lax- og silungsveiði. Það stendur í l., að lengd veiðivélar skuli telja frá árbakka til yzta enda vélarinnar. En það, sem veltur á, er, að veiðivélin er lögð út frá árbakka. Ef hún er t. d. 20 metrar á lengd, má næsta vél ekki vera skemmra frá en fimmföld lengd þessarar vélar. Þá verður, í þessu tilfelli, næsta vél að vera 100 metrum fyrir ofan eða neðan þessa vél. Nú hagar þannig til í sumum ám, sem l. hafa ekki hugsað nægilega fyrir, að árbakki er ekki nægilegt takmark. Í dómi, sem kveðinn var upp í fyrra, er árbakki skýrður þannig, að eyri, sem gekk út í ána, var talin árbakki. Eftir þessu eiga menn að reikna lengd veiðivéla frá eyri, sem kann að ganga út í ána. — Í l. er sagt, að aldrei megi vera skemmra milli veiðivéla en 10 m. Með þessu móti eru lítil takmörk, ef lagt er út frá eyri. Nú er það framkvæmanlegt, að þar, sem áður voru tvær lagnir, er nú hægt að hafa fimm. Ég veit, að þó að þetta frv. sé hagsmunamál, kemst það varla í gegnum sex umr.

Það er fyrirsjáanlegt, að ef l. eru skilin svona, er laxinum stefnt í hættu með ofveiði. Áður voru hlaðnir garðar í árnar, en nú fá menn sér gömul net, sem þeir gera við, og reka niður 4–5 járnstaura og festa netin á þá.

Síðan setja þeir streng og strengja í bakkann. Þetta verk tekur ekki nema svo sem hálftíma, en tók marga daga áður. Þannig hefur tekizt að fjór- til fimmfalda veiðiafköstin víð það, sem áður var. Ég hef þetta eftir Birni Blöndal bónda í Borgarfirði, sem er nákunnugur þessum málum.

Þetta er hagsmunamál, og eru skiptar skoðanir um, hvernig eigi að skýra l. Þeir, sem búa neðst við árnar, telja það sitt hagsmunamál að fá málið skýrt þannig, en þeir, sem eiga bergvatnsár, telja það sitt hagsmunamál að fá málið skýrt eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég tel eðlilegast að vísa málinu til hv. landbn.