01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég tel, að þessi till. eigi rétt á sér, og vil því mæla með því, að hún verði tekin til alvarlegrar athugunar. Annað mál er það, að þetta hlutatryggingasjóðsmál verður ekki leyst með reglugerð einni saman. Það er vitað, að hlutverk síldveiðideildar sjóðsins er að vera síldveiðiflotanum til aðstoðar, og var sú deild látin taka til starfa í sumar. En það fé, sem hún hefur yfir að ráða, hrekkur fráleitt til, svo að sjóðurinn getur ekki innt af hendi þær skuldbindingar, sem á hann eru lagðar.

Hv. flm. ætlast til þess, að tekjur sjóðsins hafi verið nokkrar, eða á milli 1–2 millj. kr., og auk þess stofnfé hans, sem í gengisbreytingarlögunum er ætlazt til að verði 5 millj. kr. Í sumar, þegar við lá, að síldveiðin stöðvaðist, greip ríkisstj. til þeirra úrræða að verja af stofnfé sjóðsins til aðstoðar síldveiðisjómönnum, svo að þeir gætu haldið veiðum áfram og fengið laun. Nú er það svo, að reglugerð síldveiðideildarinnar, sem ég veit ekki hvort búið er að staðfesta, er þannig gerð, að jafnvel þótt miðað sé við 5 síðustu aflabrestsár, þá vantar um 3 millj. kr. til þess að deildin geti staðið við skuldbindingar sínar. Ég tel því, að nauðsyn beri til þess að tekið verði til athugunar, hvort ekki sé unnt að gera aflatryggingasjóði mögulegt að greiða þær kröfur, sem sjómenn eiga til hans eftir síðasta sumar, og ég hygg, að það sé heppilegt að rannsaka þetta í sambandi við þessa till, sem hér liggur fyrir. Ég legg því til, að málinu verði frestað og því vísað til nefndar, svo að tækifæri bjóðist til að koma fram með brtt. í sambandi við síldveiðideildina.