01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Það er nú lokið við að semja reglugerð varðandi síldveiðideild aflatryggingasjóðs, og hefur ráðuneytið staðfest hana. Ég geri ráð fyrir, að það megi treysta því, að hafizt verði handa við að vinna að reglugerð fyrir þorskveiðideildina. Engu að síður legg ég til, að þessi till. verði samþ., og gæti hún orðið til að hraða framkvæmd þessa máls. Það kom í ljós í sambandi við samningu reglugerðar síldveiðideildarinnar, að miklum vandkvæðum er bundið að semja slíka reglugerð, svo að allir geti vel við unað.

Um hitt atriðið, sem hv. þm. Ísaf. minntist á, að sjóðinn skorti fé til að standa undir þeim skuldbindingum, sem síðasta síldarvertíð lagði á hann, vil ég segja það, að mál það er raunar óskylt þeirri till., sem hér liggur fyrir, og um það má líka að sjálfsögðu deila. Annars vegar er það, hvort hraða beri reglugerð fyrir þorskveiðideildina, en hins vegar, hvort fjvn. treystist til að láta síldveiðisjóðinn standa við sínar skuldbindingar. Fyrir mitt leyti er ég ekki mótfallinn því, að þetta mál fari til nefndar, því að það getur aldrei skaðað. En ég vil láta hv. flm. kveða á um það, hvort þeir vilja, að till. þeirra sé sett í samband við annað og raunar óskylt mál. Ég tel ekki ástæðu til að gefa nú skýrslu um fjárhag síldveiðideildarinnar, en get þess að gefnu tilefni, að reglugerðin, sem nú gildir, miðar við meðalveiði, og ég vil vekja athygli á því, að þetta er langt fyrir neðan það lágmark, sem veldur því, að í gengisl. er ríkisstj. heimilað að fella niður það gjald, sem gengisl. ætluðu að lagt yrði á útflutningsafurðir þær, sem unnar eru úr síld. Staðreyndirnar eru þessar, að annars vegar hafa þeir, sem um þetta fjalla, orðið að miða meðalveiði við 5 seinustu aflaleysisár, og hins vegar, að þrátt fyrir þetta lága meðalmagn er fjarri því, að síldveiðideildin standi undir sínum skuldbindingum í l. Ég vil því sízt mæla gegn því, að reynt sé á einhvern hátt að efla aflatryggingasjóð á þessu þingi, ef menn sjá leið til þess, en afgreiðsla þessara tveggja mála er í rauninni ekki nauðsynleg, og má segja, að þau séu óskyld, og þess vegna mun ég fylgja þeirri till. um nefndarskipun eða afgreiðslu nú, sem hv. flm. óska eftir.