01.11.1950
Sameinað þing: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

43. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Það er nú upplýst af hæstv. atvmrh., að þessi reglugerð sé nú þegar í smíðum, þannig að þó að málið væri athugað í n., þá mundi það ekki tefja málið. Það er þess vegna lítt skiljanlegt, hvers vegna hv. flm. vilja ekki fallast á, að þetta mál fái þinglega meðferð, ef það er rétt, sem hæstv. atvmrh. upplýsti og engin ástæða er til að efast um, að reglugerðin sé nú þegar í smíðum og smíði hennar verði haldið áfram, hvað sem þessari till. liður. Manni liggur við að ætla, að afstaða hv. flm. sé mörkuð af því, að þeir vilji ekki láta athuga aflatryggingasjóðinn. Ég vil ekki segja, að það sé svo, af því að ég þekki báða hv. flm. að góðu einu, en kapp þeirra um, að málið fái ekki þinglega meðferð, er mér óskiljanlegt eftir þær upplýsingar, sem hæstv. atvmrh. hefur gefið. Hæstv. atvmrh. komst svo að orði, að það væri mikill vandi að semja um þetta reglugerð, en það hefur líka komið í ljós, út af reglugerðinni, sem verið er að semja um aflatryggingasjóð síldveiðideildar, að það hefur verið nokkur vandi að semja um hana reglugerð. Þegar farið var að semja reglugerðina, þá hygg ég að það hafi komið í ljós, að hlutverkið, sem sjóðnum var ætlað, var miklu meira en Alþ. hafði gert honum mögulegt að rækja, og eins hefur þetta komið greinilega fram í ræðu hæstv. atvmrh. Það er vert, að menn taki eftir því, að hæstv. atvmrh. lýsti því yfir, að bætur þær, sem greiddar skulu úr sjóðnum, séu miðaðar við 5 undanfarin aflaleysisár; og jafnvel þótt ekki væri farið lengra, þá hef ég heyrt, að það mundu verða 5–6 millj. kr. Hæstv. atvmrh. upplýsti, að til þess að sjóðurinn geti staðið í skilum með þær bætur, sem hann ætti að inna af hendi, þá þyrfti að miða við 5 undanfarin aflaleysisár. Ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þetta mál til hlítar, en ég verð að segja, að ef ekki er miðað við aflaleysisárin, heldur við venjulegan afla mótorbáta í sæmilegu aflaári, þá mundi sjóðurinn þurfa að inna af hendi ekki 7–8 millj., heldur allt upp í 18 millj. Það má vera, að þessi sögusögn sé ekki rétt, og vil ég þá vænta þess, að hæstv. atvmrh. upplýsi það.

Ef reglugerð sú, sem sett verður um greiðslur úr fiskveiðideild, kemur til með að leggja sjóðnum hlutfallslega álíka byrðar á herðar eins og síldveiðireglugerðin, þá er sýnt, að reglugerðin mundi annaðhvort verða þýðingarlítil eða Alþ. yrði að taka sig til og leggja sjóðnum til fé, svo að hann geti staðið í skilum með þær greiðslur, sem ríkisstj. telur að séu lágmarksgreiðslur, sem inna þyrfti af hendi. Ég held því fast við þá till., að málið fari til n. til athugunar.