13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3752)

83. mál, talstöðvaþjónusta landssímans

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt þessa till. ásamt hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. Hún er til komin vegna þess, að landssíminn hefur fyrir nokkru breytt nokkuð til um starfshætti að því er snertir talstöðvaþjónustuna, þ. e. a. s. hann vill nú taka gjald fyrir það, sem áður hefur verið gert endurgjaldslaust fyrir fiskibátaflotann. Till. þessi fer fram á það, að ríkisstj. hlutist til um það við landssímann, að vélbátum, sem hafa talstöðvar, verði framvegis eins og hingað til látin í té án endurgjalds vitneskja um veðurfar, sjólag, landtökuskilyrði og annað, er máli skiptir fyrir öryggi þeirra. Það þarf engin rök að því að leiða, hversu mikið aukið öryggi hefur fylgt og fylgir þeirri þjónustu, sem símastjórn landsins hefur komið á með talstöðvum við báta og sambandi þeirra við land. Það er fyrir löngu reynt og fullsannað, að það er mikið hagræði, sem þessu fylgir, og mikið öryggi og stórkostlegt er í henni fólgið. Það er alllangt síðan Vestmannaeyingar komu á fót hjá sér sólarhringsþjónustu í þessum efnum og sömdu þá svo við landssímann, að sá maður, sem hafður væri þar við vörzlu, fengi að hálfu greidd laun frá félagsskap í Vestmannaeyjum, björgunarfélaginu, en ekki nema að hálfu frá símanum, og vegna þess að mikil tregða var á að fá þetta fram, þá var undir það gengizt að hækka gjöldin af öllum talsímum um 25 af hundraði. Þetta var gert til þess að bæta landssímanum það að þurfa að taka á sig þann kostnað, sem af því leiddi að standa undir hálfri talstöðvaþjónustunni hvað þetta pláss snertir. Vestmannaeyjar voru með þeim fyrstu plássum, sem fengu þetta fyrirkomulag innleitt, og mörg hafa síðan á eftir farið, og ljúka allir upp einum munni um það, hversu gagnlegt þetta er fyrir bátana, Í grg. fyrir till. er á það bent, að hinu nýja fyrirkomulagi landssímans sé þannig varið, að það torveldi samband bátanna við land og af því geti leitt örðugleika og jafnvel slysahættu. En í hverju er þá það nýja fyrirkomulag fólgið, munu ýmsir vilja spyrja. Eftir beztu heimildum, sem ég get fengið, þá er það svo, að ef búið er að kalla upp bát, þar sem talsímaþjónusta er við báta, og stöðin beðin um veðurfræðilegar upplýsingar eða síðustu veðurfréttir frá veðurstofunni, þá kostar þetta hér eftir sérstakt gjald, kr. 6.50, ef spurt er um veður, og ef spurt er um sjólag, þá á það að reiknast með fullu samtali við stöðina, 13 kr. Það vill þannig til, að fyrir veiðistöðina skiptir það ekki einasta máli að fá veðurútlitið fyrir bátana, heldur er nauðsynlegt, einkum þar sem innsiglingarörðugleikar eru, að fá að vita um sjólagið á hverjum tíma, og það er eftir þessu metið helmingi dýrara af landssímanum að fá upplýsingar um sjólag heldur en um veðrið. Ég veit ekki, við hvað þetta er miðað hjá landssímanum, að taka upp þennan nýja hátt, en ég vil leyfa mér að fullyrða, að þó að landssíminn krækti saman nokkrum þúsundum króna með slíkum hætti, þá er það ekki tilvinnandi, því að ráðstöfunin út af fyrir sig er þannig, að hún heldur aftur af bátunum að leita sambands við land, þannig að slíkt samband dofnar og slíkt getur haft miklu alvarlegri þýðingu heldur en það, þó að landssíminn fái ekki þessar 6.50 kr. eða 13 kr., sem hér um ræðir. Það hefur verið reynt að leiða skrifstofu landssímans þetta fyrir sjónir, en hingað til hefur það ekki borið árangur. Þess vegna höfum við flm. leyft okkur að bera þetta undir hæstv. Alþ. og leita þess fulltingis til að fá ríkisstj. til þess að skerast í þetta mjög nauðsynlega atriði, því það er ekki eins dæmi, að í þessu atriði geti metingur um tilkostnað og metingur um það, hver á að borga, haft hinar verstu afleiðingar, og í þessu tilfelli, sem hér liggur fyrir, álít ég, að svo mikið geti verið í húfi, að það mál megi ekki kyrrt liggja.

Ég gæti, ef um það væri að ræða, dregið inn í þessar umr. mjög alvarleg dæmi um það, hvernig frá miðstöð landssímans hefur verið gripið fram í og gripið inn í neyðarþjónustu, sem átti sér stað úti á landi, sem sýnir, að skilningurinn getur verið breytilegur á miðstöð landssímans, en á þessu stigi vil ég ekki gera það án tilefnis. Hins vegar vil ég fara fram á fulltingi hv. alþm. um það að taka undir þessa rödd, sem hér heyrist frá okkur þremur þm., sem allir höfum kynni af þörfum bátana í þessum efnum, og leiti tilstyrks hjá þeim hæstv. ráðh., sem símamálin heyra undir, til þess að kippa þessu í lag þegar í stað.