31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

133. mál, hitaveita á Sauðárkróki

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir og borið er fram af báðum þm. Skagf., fer fram á heimild til þess að ábyrgjast lán til handa Sauðárkróki, að upphæð 80% af heildarkostnaði áætlaðrar hitaveitu þar. Fjvn., sem fékk þetta mál til athugunar, ræddi það allýtarlega. Hún sendi ekki till. til umsagnar til raforkumálastjóra, vegna þess að n. hafði fengið frá flm. mjög ýtarlega skýrslu um málið, sem gerð var af þeirri stofnun. Og m. a. kemur fram í þeirri skýrslu, hvernig er hugsað sér að framkvæma verkið. Það eru gerðar tvær mismunandi áætlanir um það. Önnur áætlunin gerir ráð fyrir, að kostnaður við framkvæmd verksins verði 3 millj. og 590 þús. kr. Og eftir upplýsingum hv. fyrri flm. till. mun það vera aðferðin, sem valin verður við framkvæmd verksins, sem kostar það, vegna þess að hún er talin hafa það í för með sér, að framkvæmd þessi verði heppilegri í rekstri en ef hin aðferðin væri höfð á framkvæmdunum, en sú aðferð, sem síður mun verða valin, mundi kosta 2 millj. og 315 þús. kr., að því er áætlað er um stofnkostnaðinn. — N. taldi rétt, að þegar ábyrgð væri veitt fyrir heildarkostnaðinum, þá væri miðað við hina fyrr nefndu upphæð, en jafnframt, að ekki væri miðað við, að ríkið ábyrgðist meira en 80% af þeirri áætlunarupphæð. En ekki er heldur farið fram á hærri ábyrgð samkv. till. á þskj. 310. — Ég vil taka fram, að með þessu er hv. fjvn. ekki að marka neina ákveðna stefnu í sambandi við þetta mál, því að eins og ég sagði áðan, þá hefur ekki verið ákveðið neitt hliðstætt um þessar framkvæmdir, hitaveitur almennt, líkt og um raforkuveitur, þar sem er ákveðið, að ekki skuli ríkisábyrgðin fara fram úr 85% af stofnkostnaðinum. Má því ekki skilja till. hv. fjvn. þannig, að hún sé heldur að marka neina ákveðna stefnu í málinu að þessu leyti. Hins vegar er nauðsynlegt, að þegar farið verður að koma upp fleiri hitaveitum á landinu, þá verði mynduð um þetta fastákveðin venja, að því er tekur til upphæðar ábyrgðar ríkisins, og helzt með ákveðnum lagafyrirmælum, eins og t. d. er um raforkuveitur og vatnsveitur og hafnir og önnur mannvirki, sem ríkið telur sér nauðsyn á að styrkja. Ég vil því beina því til hæstv. forsrh., sem hefur með höndum nú athugun á nýju lagafrv. í sambandi við hitaveitur, hvort ekki væri rétt að taka upp í það frv. ákvæði um, hvernig haga skyldi í framtíðinni ábyrgð ríkisins í sambandi við þessi mál.

Fjvn. þótti rétt að umorða till. þessa, og n. leggur til, að till. verði samþ. á þann hátt sem fram kemur hér á þskj. 556, þannig:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að ábyrgjast f. h. ríkissjóðs allt að 2.8 millj. kr. af heildarstofnkostnaði hituveitu Sauðárkrókskaupstaðar, þó eigi yfir 80% af kostnaðinum, enda setji bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar þær tryggingar fyrir láninu, er ríkissjóður tekur gildar.“

Það er enginn ágreiningur um það í hv. fjvn., að það sé sjálfsagður hlutur að reyna að styðja að því eftir megni, að hinir einstöku staðir á Íslandi geti notið þess að hafa hitaveitur hjá sér, þar sem hiti kemur beint frá uppsprettum, þar sem það gerir hvort tveggja, að það sparar annars vegar mikinn erlendan gjaldeyri og hins vegar verður hitunarkostnaður viðkomandi staða miklu minni með hitaveitu en með því að hita upp húsin með kolum eða olíu. — N. leggur því til, að ábyrgðin verði veitt, og leggur til, að ályktunin verði orðuð eins og ég hef nú lýst.