10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er vafalaust, að aðgerða hefur verið þörf vegna óþurrkanna á s.l. sumri, enda hefur hæstv. ríkisstj. brugðið skjótt og myndarlega við. Færi raunar betur, ef hæstv. ríkisstj. sýndi vandamálum annarra stétta hinn sama áhuga. Nokkuð verður þó að teljast óvenjulegt, að úthlutun eins og þessi fari fram með þeim hætti, sem hér er á hafður. Með því er ég ekki að lýsa neinu vantrausti á réttsýni hreppsnefndanna, en hvorki af frv. né ræðu hæstv. ráðh. verður vitað, hvaða reglur gilda við þessa úthlutun. Í frv. stendur, að aðstoðin skuli veitt sem lán eða óafturkræft framlag eða styrkur. Hæstv. ráðh. hefur ekki upplýst, hve mikið fé verði veitt sem lán og hve mikið sem óafturkræfur styrkur. — Ég ætlaði að gera fyrirspurn til hæstv. ráðh., og ég get beðið, ef hann hefur skroppið burt. — — — Já, ég sagði, að það sæist ekki af frv. og hefði ekki komið fram í ræðu hæstv. ráðh., hve mikið fé væri veitt sem lán og hve mikið sem óafturkræfur styrkur. Ekki sést heldur, hvort hæstv. ráðh. hefur komið því til leiðar eða ekki, að sams konar úthlutunarreglur gildi hjá öllum hreppsnefndum; þannig verður ekki vitað, hvort efnaðri bændur, sem ekki þurfa á styrk að halda, eiga að fá gjafir eða ekki. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvernig þessu hvoru tveggja er farið, og þetta á að upplýsa við þessa umræðu. Það má vera, að hv. landbn. fái þessar upplýsingar, en hv. deild á að fá þær engu síður.

Ég sagði áðan, að óvenjuleg aðferð væri höfð við þessa úthlutun, að fela hana hreppsnefndum, og ef hún ætti að vera til eftirbreytni framvegis, þá ætti úthlutun á aðstoð til sjávarútvegsins að verða falin sveitarstjórnum á þeim stöðum, þar sem skipin eiga heima, ef gæta ætti samræmis. Sú aðferð hefur ekki tíðkazt til þessa.

Þá gat ég þess áðan, að það færi betur, ef aðrar stéttir fengju eitthvað svipaða áheyrn hjá hæstv. ríkisstj. eins og sú, sem hér á einkum hlut að. En það er nú öðru nær. Þannig óskaði L.Í.Ú. eftir því fyrir þremur vikum, að ríkisstj. skipaði nefnd til þess að rannsaka í samráði við L.Í.Ú., hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til þess að koma vélbátunum á flot. Þessari málaleitun var hæstv. ríkisstj. ekki enn þá farin að svara í gær einu orði. Þá er í annan stað vitað, að fjöldi manns við sjóinn á við bág kjör að búa af völdum atvinnuleysis, einkum á Vestur- og Norðurlandi. Þannig voru skráðir rúmlega 100 manns við atvinnuleysisskráningu á Ísafirði, og var þó vitað, að margir létu ekki skrá sig, sem bjuggu þó við atvinnuleysi. Meðaltekjur þessa fólks reyndust vera 875 kr. á mánuði í þá 10 mánuði ársins, sem skráningin náði yfir. Á líkum tíma fór skráning fram á Siglufirði, og voru þar skráðir 135 menn, og þó aðeins nokkur hluti þeirra — eins og á Ísafirði —, sem hefðu átt að koma til skráningar. Mánaðartekjur þeirra náðu heldur ekki 1000 kr. þá tíu mánuði, sem skráningin náði yfir. Við Alþýðuflokksmenn fluttum fyrir nokkru frv. þess efnis, að ríkisstj. setti 5 manna nefnd til að athuga og gera tillögur um aukna vinnu í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þessi till. var send ríkisstj. til umsagnar, og þar liggur hún enn og er búin að liggja í 3 vikur. Hæstv. forsrh. hefur ekki haft tíma til að afgreiða tillöguna enn þá. Þegar tillagan var hér til umræðu, lét hæstv. forsrh. svo um mælt, að sér hefðu ekki borizt neinar kvartanir um atvinnuleysi. Nú hefur engin atvinnuleysisskráning farið fram, en þó er vitað, að fjöldi manna er atvinnulaus eða þá með svo rýrar tekjur, að þeir geta rétt dregið fram lífið. Þegar það er vitað, hve ríkisstj. getur brugðizt fljótt við, er bændur eiga í hlut, þá mætti ætla, að hún gerði eitthvað í málum verkamanna. En það er öðru nær. Ríkisstj. svarar hvorki málaleitan Landssambands íslenzkra útvegsmanna né tillögunni um að rannsaka atvinnuástand sjómanna, en lætur till. um það liggja hjá sér svo vikum skiptir. Ég læt þessa getið hér, því að ef ekkert bólar á svari til Landssambands ísl. útvegsmanna innan skamms um rekstur bátaflotans, þá munum við Alþýðuflokksmenn koma með brtt. varðandi þetta frv. til styrktar landbúnaðinum.