10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú raunar fátt, sem ég þarf að svara. Hv. þm. Ísaf. tók undir það, að það væri full þörf á að hlaupa þarna undir bagga, enda hefur hvergi komið fram mótbára gegn því, að þarna væri ástandið mjög alvarlegt. Og það er rétt, að menn geri sér þess grein, að þessi styrkur er engu síður til verkamanna og sjómanna. Skýrslurnar bera það með sér, að það eru eins sjómenn og verkamenn þorpanna, sem þurfa aðstoð. Eftir að þetta er viðurkennt, þá kemur til athugunar, hvort hjálpin sé réttlátlega veitt. Fyrsta atriðið í því sambandi er, hvort hlutaðeigandi ráðherra hefur tilhneigingu til að láta hjálpina fara þannig fram, að pólitík komi þar við. Það hefur þó ekki komið fram, að nokkur tilraun hafi verið gerð í þá átt, og af hálfu ríkisstj. hefur verið gengið svo frá, að slíkt er útilokað, því að það hefur verið farið eftir hlutlausum skýrslum. Hv. þm. Ísaf. spurði, hvernig skipt væri á milli framlags, sem ekki þyrfti að endurgreiðast, og lánsfjár. Ég hef getið þess áður, að 2/3 fjárins er lán og 1/3 beinn styrkur. Þegar við rannsökuðum leið til þess að skipta þessum peningum sem réttlátlegast, komumst við að þeirri niðurstöðu, að naumast væri hægt að tryggja réttláta skiptingu betur en að senda 2 menn á þau svæði, sem voru hjálpar þurfi, menn, sem við höfum ástæðu til að álíta gagnkunnuga þessum málum. Síðan er úthlutað til hreppanna, og það er álitamál, hvort hægt er að gera það öllu réttlátar. Þá kemur til greina úthlutunin í hreppunum, og þá úthlutunarleið virtist hv. þm. Ísaf. ekki vera ánægður með. Hann sagði, að það væru engar reglur til um það, hvernig ætti að úthluta í hreppunum, að hve miklu leyti ætti að taka tillit til efna einstakra manna í hreppnum o.s.frv. Í því sambandi er rétt að geta þess, að þegar úthlutað er til hreppanna, er tekið tillit til þess, ef svo og svo margir bænda hreppsins eru efnaðir, þannig að þá minnkar framlagið til hreppsins, og eru því hreppsnefndirnar óbeint skuldbundnar til að skipta eftir efnum. En eins og ég sagði áðan, getur þetta ekki orðið neitt fordæmi um úthlutun. En ég efast um, að þeir, sem búa í sveit, geti bent á betri úthlutunarleið. Ég minnist þess hér, að þegar óþurrkarnir gengu á Vestfjörðum, þá var heyið komið í tvöfalt verð, en bændur seldu það þó til óþurrkasvæðisins með því gangverði, sem hafði verið á því undanfarin ár. Ég hefði gaman af að heyra það frá fulltrúa sveitanna, að hann efaðist um, að þessi úthlutunarleið fæli í sér mestu tryggingu, sem unnt er að fá. Ég er kunnugur í sveitunum, og þetta er mín skoðun í þessum efnum.

Viðkomandi því, sem kom fram hjá hv. þm. Ísaf. um það, að ríkisstj. hefði ekki brugðið eins fljótt við, er aðrir hefðu þurft á hjálp að halda, þá vil ég segja það, að þegar um þetta atriði er rætt, þá eru það aðrir ráðherrar, sem eiga að svara því í sambandi við sjávarútveginn, og ég ætla ekki að fara inn á umræður um það mál í verulegum atriðum, því að það snertir ekki þetta frv., sem hér er um rætt, en það er auðvitað stórmál út af fyrir sig. Ég lít þannig á sjávarútveginn og landbúnaðinn, að gera beri þessum atvinnugreinum jafnhátt undir höfði, og er orðinn leiður á þessum eilífa metingi þar á milli og geng ekki óneyddur inn á umræður um það. Kom þetta dálítið fram við umr. í hv. Ed., og er þessi metingur skaðlegur fyrir þjóðina. En ég vil segja í sambandi við þessa aðstoð til bændanna, sem er veitt vegna verra tíðarfars en þekkzt hefur í hálfa öld, að það hefur ekki farið fram hjá mönnum, að sjávarútveginum hefur verið veitt aðstoð undanfarin ár og til hans verið lagt fé til aðstoðar úr ríkissjóði, sem skiptir tugum millj. kr. Og ég get ekki séð annað en brugðizt hafi verið sæmilega fljótt við, þegar hjálpa hefur þurft sjávarútveginum undanfarin ár. Og ég þykist vita, að hlutaðeigandi ráðherrar muni taka þessi mál til athugunar og úrlausnar, en ég sé ekki ástæðu til að ræða það hér, því að það snertir ekki minn verkahring, og það atriði, að sjómenn þurfi á hjálp að halda, er alveg óskylt afgreiðslu þessa frv.