10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að það hafa ekki verið settar neinar heildarreglur um úthlutunina, sem gilda fyrir alla hreppana, þannig að ekki er víst, að nokkurt samræmi sé í úthlutun einstakra hreppa. Þetta er einstök aðferð, enda sagði hæstv. ráðh., að þetta ætti ekki að vera neitt fordæmi, m.ö.o., að allt aðrar reglur skulu gilda í þessum efnum hjá sjómönnum en bændum. Það er þessi munur á Jóni og séra Jóni, sem ráðherrann vill láta lögleiða með þessu frv. Hæstv. ráðh. sagði, að sér leiddist metingurinn á milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins, og tek ég undir það með honum. En þá ætti hann ekki að ýta undir hann með því að láta allt aðrar reglur gilda um úthlutun til bænda en annarra stétta þjóðfélagsins. Ráðherrann minntist á sjávarútveginn og gaf í skyn, að aðstoð til hans væri á leiðinni. Gott er að vita það, því að ekki mun af veita. En þegar sú aðstoð er borin saman við þá aðstoð, sem hér um ræðir og bændur eiga að fá, þá mun ætlunin að gera opinbera innköllun hjá útgerðarmönnum. Hér er ekki um þvílíka aðstoð að ræða. Hér bregður hæstv. ríkisstj. skjótt við og sendir dagfari og náttfari út um sveitir, meðan hún lætur líða svo 3 vikur að svara ekki ósk um, að bætt verði úr atvinnuástandi manna við sjávarsíðuna. Ég minnist í þessu sambandi þeirrar aðferðar, sem hæstv. Alþ. lét sér lynda í málum sjómanna, er þeir höfðu orðið að þola aflabrest sjötta sumarið í röð. Þeir eiga nú inni á annað hundrað þúsund króna, sem þeim er bannað að innheimta. Meðan bændur fá aðstoð, meinar ríkisstj. sjómönnum að innheimta sitt litla kaup eftir sumarið. Hæstv. landbrh. komst svo að orði, að það, sem syrfi mest að bændunum, væri skortur á fóðri handa skepnunum. Ég skil það ósköp vel. En mundi ekki líka sverfa að þeim mönnum, sem koma heim í atvinnuleysið og skortir mat og klæði handa sínu fólki? (BÁ: Því verður ekki slátrað.) Nei, það er ekki siður að slátra fólki, en skilur ekki hv. þm. Mýr. það, að menn þurfa mat á meðan þeir lifa? (BÁ: Jú, ég þekki það mætavel.) Þá ætti hv. þm. ekki að vera með neina kerskni, þegar verið er að ræða um alvarlegt mál. Ég hygg, að atvinnuleysisskýrslur á Ísafirði og Siglufirði sanni, að þar þurfi skjótrar aðstoðar við. Það eina, sem ríkisstj. hefst þó að í því máli, er að afnema söfnun atvinnuleysisskýrslna. Þetta eru svörin, sem kaupstaðarbúar fá frá hæstv. ríkisstj., og ég get ekki vegna minna kjósenda annað en tekið þetta mál upp hér.