31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3831)

167. mál, bygging þriggja sjúkrahúsa

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Eins og grg. fyrir þessari þáltill. ber með sér, ber ríkissjóði að greiða 3/5 áætlaðs kostnaðar við þessa byggingu, eða 5.4 millj. króna, en hefur til þessa aðeins greitt rúmar 2 millj., og á ríkissjóður því eftir að greiða rúmar 3 millj. kr. Telja má víst, að framkvæmdir stöðvist, ef ekki fæst lán til byggingarinnar á þessu sumri, því Akureyrarbær hefur í mörg horn að líta, og er útilokað, að hann geti af eigin rammleik aflað þess fjár, sem þarf til þess að ljúka byggingunni. Hvað fólk á mikið undir því, að byggingin komist fljótt upp, þá álít ég það sízt ofmælt, sem hæstv. forsrh. tók hér fram áðan. Á síðastliðnu ári greiddi sjúkrasamlag Akureyrar fyrir 1876 legudaga á sjúkrahúsum hér í bænum af 7616 legudögum, sem það greiddi alls. Einnig má segja, að það séu ekki síður hagsmunir sveitanna í kringum Akureyri, að sjúkrahúsið komist fljótt upp. — Ég vil vænta þess, að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu.