09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3835)

167. mál, bygging þriggja sjúkrahúsa

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. fjvn., þá er gert ráð fyrir því í grg. fyrir till. á þskj. 570, að noti ríkisstj. ábyrgðarheimild þessa fyrir Akureyrarkaupstað, þá skuli lánið endurgreiðast af framlögum þeim, sem á næstu árum verða veitt til fjórðungssjúkrahússins. Þetta þýðir, að hér er verið að veita ríkisábyrgð fyrir hluta ríkissjóðs af kostnaðarverði sjúkrahússins, en ekki fyrir framlagi bæjarins. Nú er komin till. frá hv. fjvn. um að bæta við ábyrgðarheimild fyrir 2 sjúkrahús í viðbót, og hef ég ekkert við það að athuga, en vil að það sé tekið skýrt fram í þál. sjálfri, að um það gildi sama regla og um ábyrgðina fyrir Akureyri, sem sé að ábyrgðin skuli miðast við það, sem ætla má að ríkið eigi eftir að leggja fram á fjárlögum til sjúkrahúsanna, og endurgreiðist af því, sem til þeirra verður veitt á næstu árum. Þetta er til að gera það alveg ljóst, að hv. Alþingi er ekki að fara inn á nýja braut um ábyrgðir, en það væri ný braut, ef þetta væri ábyrgð fyrir bæjarfélögin til að standa undir sínum hluta af kostnaðinum. Ég vil lýsa ánægju minni yfir undirtektum n., og hún hefur einnig haft þetta í huga, og eru þá sjálfsagt allir ánægðir.