10.11.1950
Neðri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls, af því að þetta mál fer til n., sem ég á sæti í, og mun mín afstaða þá koma fram. Ég mun, eins og flestir hér í hv. d., vera sammála um nauðsyn þeirra ráðstafana, sem hér á að gera. Hins vegar gaf hæstv. landbrh. ástæðu til þess að hugleiða, eins og hann skoraði á okkur þm. að gera, þau orð, sem hann sagði hér áðan, og þess vegna vil ég bæta nokkrum hugleiðingum við þau. Ég verð að segja, að mér finnst einkennileg notkun á orðum og hugtökum, eins og það kom fram hjá honum áðan. Hann talaði um, að við hefðum eytt fé í togara, vélbáta og hraðfrystihús. Ég mundi heldur nota það orð að spara fé, þegar maður setur fé í togara, vélbáta eða hraðfrystihús, vegna þess að það fé, sem sett er í þau fyrirtæki, heldur áfram að gefa af sér fé. Hins vegar mundi ég kalla það eyðslu, þegar búið er af öðrum ríkisstj. að spara fé landsmanna með því að setja það í þessi tæki, togara, vélbáta og hraðfrystihús, að hindra landsmenn í því að fá að nota þessi tæki. Og af því að hæstv. ráðh. var að lýsa eftir því, að það vantaði m.a. nokkra tugi milljóna í landbúnaðinn, þá vil ég aðeins minna hæstv. ríkisstj. á, hvernig aðferð hennar hefur verið í ár. Ríkisstj. fékk upp í hendurnar, ekki aðeins mikið af hraðfrystihúsum, vélbátum og togurum, heldur líka möguleika til þess að selja þeirra framleiðslu og fá góð markaðssambönd. Hvernig er ástandið í ár, að því er snertir hraðfrystihúsin? Ríkisstj. er búin að skera niður úr 30 þús. tonnum það, sem útgerðarmenn fá að framleiða af hraðfrystum fiski, niður í 15 þús. tonn, þrátt fyrir það þó að útvegsmenn geti framleitt og selt 30 þús. tonn af hraðfrystum fiski, ef þeir fengju að gera það. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að 15 þús. tonn af fiski bannar ríkisstj. þessum aðilum að framleiða, sem kostar 4–5 þús. kr. tonnið, það þýðir 60–75 millj. kr., sem hún knýr landsmenn til að eyða, því að sú eyðsla verður ekki afturkölluð eða leiðrétt í okkar þjóðfélagi, þegar verkamaður er atvinnulaus; sá vinnudagur, sem er tapaður, hann er ekki hægt að nota til vinnu; sá tími, sem var ónotaður, gat gengið til að afla fisks, sem ekki verður dreginn; sá tími, sem hraðfrystihúsin eru látin standa kyrr, þýðir, að þeirra afkastageta er ekki notuð. Það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, og hún hefur gert meira. Hún hefur, þegar sjávarútvegurinn fer fram á að fá sjálfur að sýna, hvort hann geti ekki selt þessar afurðir og sjálfur flutt til landsins vörur, þá hefur hæstv. ríkisstj. neitað. Hæstv. ráðh. talaði um, að sjávarútveginum hefði verið veitt aðstoð. Hver er ein aðalaðstoðin, sem sjávarútvegurinn hefur farið fram á? Hann hefur farið fram á að fá að vera laus við aðstoð ríkisins og fá sjálfur gjaldeyrinn og fá sjálfur að ráðstafa honum og gera innkaup til landsins. Þetta er frelsið, sem hann hefur farið fram á, og þetta er honum neitað um. Þetta er honum neitað um, þó að hann gangi inn á að útvega vörur með lægsta verði, af því að ríkisstj. vill taka gjaldeyri sjávarútvegsins til þess að úthluta honum til þeirra aðila hér í Reykjavík, sem standa á bak við ríkisstj., og þar með heildsalanna, sem hæstv. landbrh. ræddi sérstaklega um víð síðustu kosningar. Sjávarútveginum er haldið í þessum klóm til þess að halda uppi verzlunarauðvaldinu í Reykjavík; og það, að sjávarútveginum er veitt aðstoð öðru hvoru, er gert vegna þess, að ríkisstj. kýs frekar að gera það en að láta verzlunarauðvaldið í Reykjavík sleppa af honum klónum. Það er þetta, sem ég held að hæstv. ríkisstj. mætti hugleiða, ef hún fengist til þess að ræða þessi mál við þingið.

Hæstv. landbrh. spurði, hvort okkur vantaði togara. Já, okkur vantar togara, og við erum búnir að bíða fulllengi eftir þeim togurum, sem hæstv. ríkisstj. keypti of seint, af því að hún brá ekki við í tíma, og við höfum nóg við þá að gera, þegar við fáum þá, svo framarlega sem sjávarútvegurinn fær að selja frjálst út úr landinu og skaffa aftur afurðir til landsmanna og létt væri af honum oki verzlunarauðvaldsins í Reykjavík. Og af því að mér virtist hæstv. landbrh. telja eftir það fé, sem farið hefur til framleiðslutækja sjávarútvegsins, þá mætti ég máske biðja hann að hugleiða, hver hafi skapað þennan auð, sem Íslendingar áttu í stríðslokin. Ætli það hafi ekki verið sjávarútvegurinn og verkamenn, ekki sízt hér í Reykjavík og grennd, sem áttu höfuðþáttinn í því? Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að íslenzkur landbúnaður væri kapítalfrekur og þyrfti að fá miklu meira fé. Ég vil í því sambandi segja við hæstv. ráðh.: Lofið þið sjávarútveginum að skaffa þetta fé í landbúnaðinn, og lofið þið sjávarútveginum að ganga af fullum krafti, og þegar sjávarútvegurinn gengur af fullum krafti og er ekki hindraður af þeirri pólitík, sem rekin er á Íslandi, þá mun hann líka tryggja fé til landbúnaðarins. En verði sjávarútvegurinn drepinn, eins og nú er verið að gera, þá verður ekki mikið til handa landbúnaðinum til þess að yrkja okkar land og umbæta það.

Það er kvartað um, að það vanti vélar, járn, sement og annað til landbúnaðarins. Með þeim 75 millj., sem ríkisstj. hefur bannað hraðfrystihúsunum að framleiða fyrir í ár, hefði verið hægt að kosta meginið af því, sem landbúnaðurinn þarf í þessum efnum til þessara sérstöku framkvæmda, eftir því sem hæstv. landbrh. var að reikna út áðan. Það verður ekki skapað fé, sem landbúnaðurinn þarf og þjóðinni er nauðsynlegt, með því að banna fólkinu að framleiða og nota þau tæki, sem fólkið við sjávarsíðuna hefur. Það er fyrst hægt að skapa þetta fé, þegar sjávarútvegurinn fær að vinna af fullum krafti.

Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að það er ekki aðeins landbúnaðurinn, sem þarf að fá þetta fé, það þarf fé til að skapa fleiri atvinnugreinar, það þarf fé til þess að hagný ta aflið í okkar fossum og hverum það þarf kapítal til þess að skapa stóriðju á Íslandi og til þess, í samvinnu við hana, að gerbreyta okkar landbúnaði og stórauka hann; en lyftistöngin, sem þarf til þess að gera það, það er sjávarútvegurinn, að hann geti gengið af fullum krafti og hagnýtt sín tæki alla tíma ársins og alla þá markaði, sem við áður höfðum aðgang að.

Hæstv. landbrh. minntist á, að það væri skortur á lánsfé til landbúnaðarins. Hverjum er það að kenna? Það er engum öðrum að kenna en ríkisstj., sem hefði ósköp vel getað fengið stuðning Alþ., ef hún hefði viljað, til að skaffa landbúnaðinum fé. Seðlavelta okkar Íslendinga er 180 millj. kr. nú, og skuldlausar eignir Landsbankans 100 millj. kr. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að það eru ekki einu sinni notaðir til fulls þeir varasjóðir, svo að ég ekki tali um sparifé Landsbankans, til þess að lána út, það er verið að skapa lánsfjárkreppu í okkar landi til þess að skapa vandræði hjá svo og svo miklum hluta millistétta og bænda til þess að gera þeim, sem eiga peninga, auðveldara að lána þá út með okurrentum. Þetta er vísvitandi ránspólitík, sem rekin er af hendi æðstu fjármálastofnunar landsins með þeirri lánsfjárkreppu, sem nú er verið að taka upp. Ríkisstj. væri innan handar að gera á þessu breytingu, og slíkt verður ekki gert, nema Alþ. taki í taumana. Það hefði heldur ekki verið veitt fjármagn í sjávarútveginn, eins og gert var á árunum, hefði Alþ. ekki tekið í taumana með stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það er einvörðungu vegna þess, að þeir, sem telja sig hafa forustuna fyrir bændum, hafa ekki þorað að segja peningavaldinu á Íslandi fyrir verkum af fullri einurð, að íslenzkan landbúnað skortir kapítal. Það eru þess vegna ekki að neinu leyti neinar náttúrlegar orsakir, sem valda því, að það skuli vera stöðvuð lán til landbúnaðarins. Það er ráðstöfun, sem sumpart ríkisstj. sjálf hefur gert með gengislækkun, sem allir vissu að mundi stöðva þróun landbúnaðarins, og þessir menn hafa hins vegar ekki þorað að taka þátt í því, sem þarf. Þetta vildi ég aðeins segja við hæstv. landbrh., til þess að hann geti hugleitt það, eins og hann var að gefa okkur tilefni til hugleiðinga, og gætum við þá athugað það betur við 2. umr. þessa máls, þegar ég vona að hann hafi komizt að nokkurri niðurstöðu í þessum hugleiðingum.