13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3852)

84. mál, niðurgreiðsla á mjólk

Flm. (Lúðvík Jósefson):

Herra forseti. Ég get verið fáorður um þessa till., hún skýrir sig sjálf, ég vildi freista þess að koma henni til n., en ég veit, að lítið er eftir af fundartímanum. Þessi till. gerir ráð fyrir því, að komið verði á þeirri skipan, að það verði hlutfallslega jöfn niðurgreiðsla á mjólk alls staðar á landinu, þar sem mjólk er seld í almennum mjólkurbúðum. Eins og kunnugt er, greiðir ríkissjóður niður verð á mjólk á nokkrum stöðum á landinu, en niðurgreiðslan er bundin við þá staði eina, þar sem starfandi er mjólkurbú eða mjólkursamlag. Þessi niðurgreiðsla hefur aldrei verið meiri en nú, 42 aurar á hvern mjólkurlítra t. d. hér í Reykjavík, en svo eru aðrir staðir, þar sem mjólkursalan fer fram eftir föstu skipulagi og starfandi eru mjólkurbúðir, en þar er engin niðurgreiðsla, og á þeim stöðum fer svo, þegar frá líður, að mjólkurverðið verður hærra en á hinum stöðunum. Þar sem þessar niðurgreiðslur eru inntar af höndum úr ríkissjóði, þá virðast öll rök fyrir því, að allir staðir komi hér jafnt til greina, þar sem auðvelt er að kontrólera það, að það sé rétt magn, sem upp er gefið.

Með þessari till. er farið fram á, að þetta mikla misrétti, sem nú ríkir í sambandi við niðurgreiðslu á mjólk, verði leiðrétt og það verði reynt að minnka þetta mikla bil, sem er á verðlagi mjólkur á ýmsum stöðum. Eins og segir í grg. till., er þessi mismunur allt upp í það að vera 70 aurar á mjólkurlitra, hvað verðlagið er hærra t. d. í Vestmannaeyjum heldur en hér í Reykjavík, og á ýmsum stöðum er útsöluverðið miklu hærra en hér, vegna þess að hér er mjólkin greidd niður úr ríkissjóði, en á þeim stöðum ekki. Ég tel víst, að hv. þm. viti, hvernig í þessu liggur í öllum aðalatriðum, og sjái, að hér er um sanngirnismál að ræða.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil óska þess, að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn.