22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3857)

84. mál, niðurgreiðsla á mjólk

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki frsm. í þessu máli, en skal gjarnan verða við því að gera nokkra grein fyrir málinu, en um það var enginn ágreiningur í fjvn. Till. fer fram á það, að niðurgreiðsla á mjólk nái til allra staða, þar sem mjólk er seld í mjólkurbúðum. Nú er mjólk greidd niður eftir því, hve mikið magn fer í vinnslu, og miðað er við það, að bændur fái ákveðið gjald fyrir svo og svo mikinn hluta.

En nú eru allmargir staðir, sem hafa orðið að búa við hærra söluverð í mörg ár, sumpart af því, að þar eru engar mjólkurvinnslustöðvar, t. d. Vestmannaeyjar, Vesturland og nokkur hluti Austurlands. Þessir staðir taka á sig þá byrði að greiða niður mjólkurverðið, en verða jafnframt að greiða hærra verð fyrir mjólkina, og er engin sanngirni í því, en af þessari ástæðu er till. fram komin.

Nefndinni fannst sjálfsagt að senda þessa till. til umsagnar hæstvirts landbúnaðarráðherra. Fékk hún umsögn hans, og féllst ráðherrann á að mæla með, að till. yrði samþykkt lítið breytt. Ráðh. upplýsti einnig, að það mundi kosta 700–800 þús. kr., ef greiða ætti fullkomlega niður alla mjólk á því svæði, sem hér um ræðir. Nefndinni þótti því rétt að leita umsagnar hæstv. fjmrh., þar sem hér er um verulega upphæð að ræða, sem ekki er tekin upp í fjárl., og því nauðsynlegt að hafa við hann samráð um málið. Ráðh. svaraði því til, að hann væri samþykkur því, að till. væri samþ., því að því yrði ekki í móti mælt, að ástæðurnar fyrir því, að sanngjarnt væri að greiða mjólk niður líka á þeim stöðum, sem hér um ræðir, væru á rökum reistar. Báðir ráðh. sögðu, að það væri ekki þörf á því að greiða mjólk niður fullkomlega t. d. í Vestmannaeyjum og öðrum þeim stöðum, þar sem mjólkin væri áður greidd niður af ríkissjóði, því að ríkið hefði borgað niður alla þá mjólk, sem keypt væri frá mjólkursamsölunni. Einnig þótti ekki ástæða til að greiða mjólkina niður á þeim stöðum, þar sem bændur fengju meira verð fyrir mjólkina en á niðurgreiðslusvæðunum. Nefndin er því sammála um að leggja til, að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem gert er ráð fyrir á þskj. 695, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin ályktar, að meðan sá háttur er á hafður, að ríkissjóður greiðir niður útsöluverð á neyzlumjólk, þá skal það gert á þeim stöðum í landinu, þar sem mjólk er seld í mjólkurbúðum. Niðurgreiðslan á hverjum stað fer eftir mati landbúnaðarráðuneytisins, að fengnum tillögum framleiðsluráðs landbúnaðarins.“ Nefndin væntir þess, að sýnd verði full sanngirni af þeim aðilum, sem fram koma í till., — landbrh. og framleiðsluráði landbúnaðarins, — og leggur til, að till. verði samþ. með breyt. á þskj. 695.