10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3866)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þessi till. fer fram á, að útsöluverð á olíu sé það sama á öllum þeim stöðum á landinu, þar sem olíuflutningaskip, sem annast flutninga milli hafna, geta losað olíu í birgðageyma olíufélaganna.

Það er nú að vísu svo, að jöfnuðurinn er takmarkaður við það, hvar hægt er að komast að birgðageymum olíufélaganna, og þykir þar að líkindum hóflega af stað farið, miðað við, ef krafizt væri jafnaðar við þá, sem verða að flytja olíuna á tunnum, og skil ég það mætavel, að flutningsmenn treystast ekki til að krefjast jafnaðar á olíuverði á þeim grundvelli. En jafnvel þar, sem hægt er að leggja að olíugeymum eða bryggjum, þannig að dæla megi olíunni beint úr skipinu í olíugeymana, getur þó komið til greina ákaflega mikill aðstöðumunur, a. m. k. siglingatímamunur, og jafnvel annað, sem gerir það að verkum, að olía er ódýrari á sumum stöðum en öðrum. Óhjákvæmilega hlýtur þetta að hafa í för með sér enn þá meira og skarpara eftirlit á „kalkuleringu“ olíuverðsins en hér hefur átt sér stað, þar sem ekki færi aðeins fram verðlagseftirlit, heldur einnig jafnaðareftirlit vegna olíuflutninganna. Ég veit ekki, hvort reiknaður hefur verið út sá kostnaðarmunur, sem er á að flytja olíuna til Norðausturlandsins og t. d. til Keflavíkur úr olíugeymum hér í Reykjavík.

Það skiptir ákaflega miklu máli, að allt sé gert til þess, að olían sé við sem hóflegustu verði, og geri ég ráð fyrir, að flutningsmenn stefni að því með þessari till. Olían er svo nauðsynleg, t. d. til bátaútvegsins, sem vegur ákaflega þungt, og hún er einnig orðin svo mikill „faktor“ í upphitun og eldsneytisþörf landsmanna, að segja má, að hún sé sá hlutur til daglegra þarfa, sem alltaf verður að nota og nauðsyn er að fáist við sem hóflegustu verði, einnig hjá þeim, sem eru fjarri löndunarstöðvum hinna stóru olíuskipa. Ég verð að segja, að fljótt á litið hef ég fulla samúð með því, að þeir, sem atvinnu sína reka lengra frá, verði látnir verða aðnjótandi nokkurs konar allsherjarverðs. Auðvitað verður það á kostnað hinna, og kemur þá til greina, hve miklu þyrfti til að fórna.

En í sambandi við þetta mál hef ég það fyrir satt, að annað tveggja hafi komið fram í hv. Sþ. eða í hv. Nd. upplýsingar frá hv. þm. Ísaf. um olíuverð, sem hann sem opinber starfsmaður hafi getað „konstaterað“, og hafi það bent í þá átt, að e. t. v. væri ekki vel gætt hófs að öllu leyti í álagningu á olíu. Ég vil ekki fullyrða þessi ummæli, því að ég heyrði þau ekki sjálfur, en sé það svo, eins og mér hefur verið sagt, að einn aðilinn getur boðið olíuna 144 kr. lægra en annar, þá hlýtur það að vera ríflegt, sem sá hinn sami hefur lagt á olíuna. Mér finnst þess vegna ástæða til að spyrja þann hæstv. ráðh., sem hefur með höndum yfirstjórn verzlunarmálanna og álagningarinnar, hve mikið sé hið löglega verzlunarálag á aðflutta olíu, og hvort hann hafi séð nokkra ástæðu til þess að láta endurskoða þetta, þegar það hefur verið upplýst af opinberum starfsmanni, að hægt hafi verið að fá fram ákaflega mikinn afslátt frá hinu löglega álagningarverði. Ég bið fyrir fram afsökunar, ef ég fer með rangt mál, en það, sem gerir það sérstaklega að verkum, að ég minnist á þetta nú, — og ég tel fulla þörf á, að það sé tekið til athugunar, — er, að nú stendur yfir fundur hjá L. Í. Ú., og þar er rætt um þá geysilegu hækkun, sem orðið hefur á öllum hlutum, sem útgerðin þarfnast, þar á meðal er olíuverðið nýhækkað og sjálfsagt á löglegum grundvelli. Vegna alls þessa er ástæða til, þegar krafa kemur fram um, að jöfnunarverð á olíu sé haft um landið, að spyrja hæstv. viðskmrh. um, hvort hann hafi gengið úr skugga um, að sú álagning, sem nú á sér stað á olíu, sé ekki of há, og líka, ef það er til í dæminu, að hægt sé að geta þennan geysilega afslátt á þessari vöru, af hvaða ástæðu það geti stafað.

Svo að ég víki aftur að aðalefni þessarar till., vil ég benda á, að það er náttúrlega gengið inn á þá braut að gera olíuna ódýrari hjá einhverjum aðilum í landinu með því að gera hana dýrari hjá öðrum, það verður ekki hjá því komizt. Ef ég misskil þann tilgang till., veit ég, að einhver flutningsmanna getur upplýst mig um það. En þó að svo væri, vil ég engan veginn segja, að þetta sé ósanngjörn till. þó að ég sé fulltrúi þeirra manna, sem búa við ódýrari aðstæðurnar í þessu efni. Ég segi aðeins, að það þarf að fara fram athugun á, hversu miklu þetta mundi muna, og það snertir því ekki nema „indirekte“ þá fyrirspurn, sem ég gerði til hæstv. ráðh. um olíuverðið í grundvallaratriðum, því að það er það, sem mestu máli skiptir fyrir þá, sem olíuna nota, bæði til lands og sjávar, að fá jafnt verð, hvort þeir búa fjarri eða nærri aðalolíustöðvunum.