10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt, sem ég vil minnast á, áður en þetta mál fer til n. Það kom hér fram í ræðum tveggja hv. þm., sem um málið ræddu, að það mundi ekki vera hægt að framkvæma það sanngirnisatriði, sem felst í þessari þáltill., jöfnun á útsöluverði á öllu úti um landið, öðruvísi en með því að hækka olíuverðið hér í Reykjavík og nágrenni hennar og á slíkum stöðum, þar sem verið er lægst. Ég býst að vísu við, að þetta verði eitt af þeim sjónarmiðum, sem koma til umr. í sambandi við jöfnunarverðið. En ég held, að það sjónarmið, sem við fyrst og fremst verðum að hafa í huga, þegar um er að ræða lækkun á olíuverðinu úti um land, hljóti að verða, hvort ekki sé hægt að knýja fram lækkun á olíuverðinu úti um land niður í það, sem það er nú í Reykjavík, á kostnað olíuhringanna. Ég held, að þetta sé fyrsta spursmálið í þessu, sem beri að athuga, og að það sé ekki rétt af okkur að slá neinu föstu um aðferðina til lækkunar á olíu úti um land, áður en gengið hefur verið úr skugga um, hvort þetta sé ekki hægt. Það er ekki slegið hér neinu föstu, hvorki í till.grg. hennar, um þetta. Og mér finnst, að eðlilegast væri það sjónarmið, að fyrst og fremst reynum við náttúrlega að rétta hlut þeirra í þessu efni, sem útgerð stunda úti um land, og það á kostnað olíuhringanna. Eftir þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, m. a. frá hv. þm. Ísaf., gæti ég vei trúað, að það væri hægt að komast svo langt í því efni, að hægt væri að lækka útsöluverðið á olíu úti um land í það, sem það er hér, á kostnað olíuhringanna einna. Hv. þm. Ísaf. lýsti, hvernig hægt hefði verið fyrir ríkið að fá svo og svo mikinn afslátt á olíuverði hjá olíufélagi, með því að láta hringana keppa um sölu á benzíni og olíum, sem ríkið sjálft þarf, og þessi hv. þm. upplýsti, að með afslættinum munaði mjög miklu á verðinu. Og það liggur í augum uppi, að ef hægt er að láta þetta muna svona miklu, eins og hv. þm. gat um, á þessum hluta þessarar vöru, sem ríkið sjálft notar, hversu miklu það gæti munað viðkomandi því öllu í heild, sem flutt er til landsins af þessum vörum, með því að ríkið eða olíueinkasala annaðist sölu á þessum vörum, sem fluttar eru inn fyrir 40 til 50 millj. kr. á ári, og léti olíuhringana keppa um það hverja við aðra, hverjir þeirra vildu bjóða þessar vörur ódýrast. Við vitum, að það kerfi, sem við höfum nú, að láta byggja þrefalda tanka hér á mörgum af jafnvel smærri stöðum úti um allt land — og sums staðar jafnvel olíutank við hvern sveitabæ —, það hlýtur að auka dreifingarkostnaðinn og hækka verðið á olíum og benzíni gífurlega fyrir notendur. En það þarf þvert á móti að skapa samkeppni milli olíuhringanna, til þess að knýja þá til þess að bjóða þessar vörur fram sem ódýrastar. Ég held að ríkisstj. ef hún vill nota það vald, sem hún hefur samkv. l., sem hún hefur um innflutning og verzlun, geti komið þessu til leiðar. Og. ríkisstj. hefur lagaheimild til þess að láta þá flytja inn þessar vörur, sem geta boðið þær ódýrastar. Svo það er hægt fyrir ríkisstj. að láta þá aðila fá þetta, sem flytja inn ódýrast. Við vitum allir, að álagning á olíuna er vitaskuld ekki 5% og ekki 10%, heldur miklu meiri. Og sá gróði, sem olíuhringarnir hafa á flutningi á olíu til Íslands, er svo mikill, að það er vafalaust hægt að gera meira en fram á er farið í þessari till. í því að lækka verðið á olíum, að lækka það úti um land í það, sem það er hér í Reykjavík. — Ég vildi taka þetta fram nú, áður en málið fer til n., til þess að sú n., sem fær málið til athugunar, hafi þetta sjónarmið til athugunar líka.