27.11.1950
Neðri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umr. í hv. Ed., kom fram till. frá tveim þm. um það, að jafnframt því, að veitt yrði sú aðstoð, sem lagt er til í núverandi mynd frv., verði hæstv. ríkisstj. heimilað að undangenginni rannsókn að verja allt að hálfri milljón króna til aðstoðar við vélbátaútgerðina á Vestfjörðum á yfirstandandi ári til þess að afstýra neyðarástandi í þessum landshluta vegna langvarandi aflabrests. Þessi till. fékk þær undirtektir, að látið var í ljós, m.a. af frsm. fjhn., sem hafði málið til afgreiðslu í d., að eðlilegast væri, að vatill. eða till. um það, sem farið væri fram á, yrði afgr. í sambandi við þáltill., sem lögð hefur verið fram í Sþ. af okkur Alþfl.-mönnum, um að láta rannsaka atvinnuástandið í bæjum og kaupstöðum. Till. þessi var lögð fram í byrjun þings, en hefur ekki fengið afgreiðslu í Sþ. Enn fremur var þess getið af frsm. n., að eðlilegast væri, að kröfur um þetta kæmu frá viðkomandi sveitar- og bæjarfélögum. Nú er liðið mjög á haust, og atvinnuástandið bæði á Vestur- og Norðurlandi fer sífellt versnandi. Af þeim undirtektum, sem málið fékk í hv. Ed., mátti álíta, að af hálfu stjórnarliðsins mundi verða tekið vel undir þáltill. þá, sem ég gat um áðan, og að sú athugun, sem þar er farið fram á, yrði gerð. Nú hefur komið í ljós, að það er ekki ætlunin að sinna þessari till. að einu eða neinu leyti. Í áliti frá meiri hl. allshn. er skýrt frá því, að ríkisstj. hafi þetta mál til athugunar, en sú athugun hefur ekki enn farið fram og enn síður nokkur merki þess, að þaðan sé nokkurrar úrlausnar að vænta.

Þar sem svo er í pottinn búið, að hæstv. ríkisstj. hefur algerlega látið undir höfuð leggjast að sinna að einu eða neinu leyti þeim kvörtunum um mjög almennt atvinnuleysi í þessum landshlutum, sé ég ekki nein önnur ráð en að koma fram með nokkrar till. til úrbóta við þessa umr. málsins. Eftir að þetta mál kom til umr., hafa borizt hingað skýrslur um atvinnuleysisskráningar, m.a. frá Siglufirði, Ísafirði og Bíldudal, sem sýna, að geigvænlegt atvinnuleysi er á þessum stöðum, og enn fremur að þeir verkamenn, sem hafa látið skrá sig, sem þó er aðeins lítill hluti af þeim, sem eru atvinnulausir, hafa haft mjög rýra atvinnu í sumar, og þeim fer stöðugt fjölgandi, sem leita aðstoðar hjá sveitinni, þótt þeim sé það mjög óljúft.

Ég hef því freistað þess ásamt hv. 8. landsk. þm. (ErlÞ) að koma hér fram með brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, ef vera mætti, að þær fengju þær undirtektir, sem ummæli ýmissa stjórnarliða í Ed. gáfu ástæðu til að ætla, og að þær verði því samþ.

Þær brtt., sem fluttar voru við frv. í Ed., voru bornar fram af hv. 6. landsk. (HV) og hv. 4. þm. Reykv. (HG) og beindust aðallega að því að heimila ríkisstj. að verja fé til aðstoðar vélbátaútgerðinni á Vestfjörðum og til atvinnuaukningar þar, en við munum flytja brtt. í nokkuð annarri mynd hér í d., og vil ég leyfa mér að lesa þær upp, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Við 1. gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Jafnframt verði ríkisstjórninni, að undangenginni skjótri rannsókn, heimilað að verja allt að 11/2 milljón króna til atvinnuaukningar og til aðstoðar við vélbátaútgerðina á Vesturlandi og Norðurlandi og til að afstýra neyðarástandi í þessum landshlutum vegna langvarandi aflabrests og atvinnuleysis.

2. Við fyrirsögn frv. bætist: og til atvinnuaukningar verkamanna og sjómanna á Vestur- og Norðurlandi.“

Þar sem dagskrá þessa fundar var ekki útbýtt til þm. fyrr en í dag, höfum við ekki haft tækifæri til að láta þessar brtt. koma fram áður eða láta þær fara í prentun, en ég mun að lokinni ræðu minni leggja þær inn til hæstv. forseta.

Ég hef heyrt því haldið fram, að þessar umkvartanir um atvinnuleysi á Norður- og Vesturlandi væru eins konar tilbúin starfsemi Alþflmanna, og m.a. var það sagt hér í byrjun þings, þegar þessar atvinnutill. voru lagðar fram, að Alþfl. væri í eins konar kapphlaupi um að auglýsa vandræði, sem ekki væri neinn fótur fyrir. Atvinnuleysisskráningarnar sýna, að þessi ummæli eru ekki á rökum reist, og þær áskoranir, sem Alþ. hafa borizt um að samþ. þær till., sem bornar hafa verið fram í þessu skyni, benda einnig í sömu átt. Bæjarstjórnin á Siglufirði, sem hefur einn af flokksbræðrum hæstv. forsrh. fyrir bæjarstjóra og er að litlu leyti skipuð Alþflmönnum, hefur sent áskorun um að láta rannsaka atvinnuástandið. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, en meiri hluta hennar skipa andstæðingar Alþfl., hefur samþ. sams konar áskorun og auk þess sérstaka áskorun um það, að Alþ. samþ. að leggja fram sérstakt fjármagn til atvinnuaukningar á Vestfjörðum. Alþýðusamband Íslands — og stjórn þess er skipuð fulltrúum þriggja lýðræðisflokkanna — hefur sent mjög eindregna áskorun til Alþ. um sama efni. Og ég skil ekki, hvaða sannanir ríkisstj. telur sig þurfa um, að atvinnuleysi sé í landinu, ef ekki nægja þær upplýsingar, sem þegar eru komnar og ég hef að nokkru getið, ásamt þeirri vitneskju, sem hver einasti hv. þm., sem vill sjá það, sem gerist í landinu, hlýtur að sjá, sem er vaxandi aflabrestur á Norður- og Vesturlandi, með því atvinnuleysi, sem slíkt ástand hlýtur að leiða yfir fólkið, sem á lífsafkomu sína undir því, að afli fáist úr sjó. Ég gat þess áðan, að það hefði verið hægt að hafa nokkra von um, að till. í þessu efni fengju nokkra áheyrn hjá hæstv. ríkisstj., í sambandi við ummæli, sem menn úr stjórnarflokkunum hefðu látið falla. Og í sambandi við þetta mál m.a. sagði hæstv. landbrh. á þessa leið: Það er verið að tala hér um hallæri á Vestfjörðum, sem er sjálfsagt ekki að ástæðulausu. Það er mál, sem snertir okkur alla, og sérstaklega þá, sem eru fulltrúar fyrir þessi svæði. — Hæstv. landbrh. vildi láta athuga þetta mál, en vildi aðeins ekki láta fara neina athugun fram á því í sambandi við þetta frv. Hv. form. fjvn., þm. Barð., lýsti yfir, að hann væri reiðubúinn til að stuðla að því, að rannsókn færi fram á málinu. — Eins og ég sagði áðan, þá líður nú svo hver vikan af annarri, að ekkert er gert í því að hálfu hæstv. ríkisstj. að rannsaka málið. Mér er að vísu kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hefur svarað tilmælum Landssambands ísl. útvegsmanna um að skipa nefnd frá ríkisstj. og Alþ. til þess að athuga vandræði vélbátaútvegsins, þ.e. skipa til þess svo nefnda fiskábyrgðarnefnd, sem í sitja þrír ágætir sjálfstæðismenn. Þessi svo nefnda fiskábyrgðarnefnd mun hafa byrjað samtöl við L.Í.Ú. í vikunni sem leið, en þeim samtölum er mjög skammt á veg komið. Þau miða að því að leysa heildarvandræði vélbátaflotans. En bæði er, að seint er um þetta hafizt handa, og eins er það, að lítil von er um, að árangur náist skjótt. En sá munur er á atvinnuháttum á Vesturlandi og Norðurlandi, að haustvertíð stendur þar gjarnan yfir til áramóta. Á Norðurlandi munu mjög fáir bátar stunda sjó, og á Vesturlandi hafa örfáir bátar reynt að stunda sjóinn nú á haustvertíðinni, en margir þeirra orðið að hætta við það aftur vegna aflabrests. Þó að þess vegna einhvern tíma, seint og um síðir, verði fundin einhver leið til þess að koma bátaflotanum af stað hér við Faxaflóa, þá tapast nær algerlega haustvertíðin og þeir atvinnumöguleikar, sem sú vertíð annars hefur gefið á Norður- og Vesturlandi, við aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í þessum málum. Ég lýsi hryggð minni yfir því, að þessum alvarlegu málum skuli hafa verið tekið af slíku tómlæti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Fólkið í verstöðvunum vill gjarnan fá að vinna, en hefur ekkert að vinna. Það er ekki hægt að brigzla fólkinu um það, að það vilji ekki bjarga sér, fyrir leti og ómennsku eða eitthvað slíkt. Það er fyrir aðstæður, sem fólkinu er algerlega um megn að ráða við og ekki sjálfrátt, sem það þjáist af því atvinnuleysi, sem nú herjar þorpin á Vestur- og Norðurlandi.

Ég hef látið í ljós við fyrri umr. þessa máls, að mér þætti þetta tómlæti hæstv. ríkisstj. í þessu máli því óskiljanlegra og því óafsakanlegra sem vel og drengilega var af ríkisstj. brugðizt við vegna vandræða bænda á Norður- og Austurlandi. Ég benti þá á það, að það mundi verða nokkuð erfitt fyrir verkamenn og sjómenn, sem koma allslausir úr atvinnuleysi heima fyrir og skortir fé bæði til þess að kaupa klæði og mat handa sínum fjölskyldum, að fá þessi svör. Ég veit ekki, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar fyrir sér í þessu efni. En ég vara við því alvarlega og enn einu sinni, að hæstv. ríkisstj. haldi áfram að sýna slíkt tómlæti í þessum málum sem hún hefur sýnt. Og ég skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál upp til alvarlegrar athugunar og afgreiðslu í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir. Bak við þessa áskorun mína stendur fjöldi sjómanna og verkamanna á Norðurlandi og Vesturlandi, sem eiga varla málungi matar.