10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3871)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mér þykja það í fyllsta máta vera athyglisverðar upplýsingar, sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Snæf. í sambandi við þetta mál, þar sem hann lýsir því hér yfir, að hann hafi gert tilraunir til þess að fá um það upplýsingar, hvað lagt væri á hráolíu og brennsluolíu, en honum hafi verið neitað um allar upplýsingar í því sambandi. Nú geri ég ráð fyrir því, og geng út frá því sem sjálfsögðum hlut, að hv. þm. Snæf. hafi ratað réttar leiðir í þessu efni og farið til þeirra aðila hér á landi, sem ákveða álagninguna yfirleitt. Og ef það er nú svo, að hann hafi ekki getað fengið neinar upplýsingar í þessu efni, þá er það vissulega athyglisvert og ekki sízt fyrir hæstv. Alþ. Því að eins og kunnugt er, þá eru um það lög í þessu landi, að álagning á allar vörur er ákveðin af sérstökum aðilum, sem til þess eru kjörnir, — og þar eru engar undantekningar, — þannig að þetta tekur jafnt til allra vara, sem verzlað er með. Og yfirleitt er ekki neitt laumulega með þetta farið, því að það er svo með álagninguna á ýmsar vörur, bæði í heildsölu og smásölu, að það er blátt áfram auglýst í blöðum landsins og annars staðar, hver hún skuli vera. Þess vegna er þetta mjög athyglisvert, ef þetta er virkilega svona um olíuálagninguna eins og hv. þm. tók fram hér, að alþm. sé synjað um upplýsingar um það, hver þessi álagning sé, þar sem það auk þess á að standa opið fyrir hverjum borgara þessa lands sem er, en hins vegar hafi ekki verið nein fyrirstaða á því að fá fulla grein fyrir því, hver væri álagning á smurningsolíur og aðrar þær vörur, sem olíufélögin verzla með. Um þetta allt á vitanlega eitt og hið sama að gilda, um þá álagningu, sem þeir réttu aðilar ákveða, og þeir, sem með vöruna verzla, eiga að hegða sér samkv. því. Það virðist líka benda til þess, sem hér hefur verið bent á í umr. og staðfest, að með samningum fyrir hönd hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að fá allmikla niðurfærslu á olíuverði frá því, sem almennt gerist, og ef þær tölur, sem hv. þm. Vestm. gaf upp, eru réttar, þá bendir það til þess, að olíufélögunum sé ekki sniðinn þröngur stakkur um álagningu, heldur búi þau við önnur og rýmri skilyrði en aðrir aðilar í þjóðfélaginu, því að mér skilst, að álagning á vörur yfirleitt sé svo takmörkuð, að ekki sé hægt að gefa á þeim verulegan afslátt, og er þetta mál því allt mjög athyglisvert. Nú minntist hv. þm. Ísaf. á það, og á hann þakkir skyldar fyrir það að hafa staðið fyrir því að fá rýmri og betri samninga en öðrum hefur tekizt að fá hjá olíufélögunum, og taldi það ekki óeðlilegt með tilliti til þess, hve ríkið væri stór kaupandi að olíu, þó að nokkuð væri eftir gefið, og má þetta til sanns vegar færa, en því stærra sem það olíumagn er, sem eftirgjöfin tekur, þeim mun frekar bendir það til þess, að olíufélögin muni hafa rúmar hendur um álagningu, og þegar tekið er tillit til þess, að sala hjá olíufélögunum virðist áhættulaus, þar sem um staðgreiðslu er að ræða, hvort sem selt er til ríkisins eða einstaklinga, þá er ekki hægt að færa þennan mun á þá hlið, að olíufélögin taki á sig áhættu í verzlun með því að skipta við aðra en ríkið. Mér finnst þær upplýsingar mjög athyglisverðar, að í fyrsta lagi skuli ekki vera hægt að fá upplýsingar um álagninguna, og í öðru lagi, að olíufélögin geti selt einum aðila fyrir mun lægra verð en öðrum, og er fullkomin ástæða til að taka þetta til rækilegrar athugunar, og því kvaddi ég mér hljóðs, að ég vil mælast til þess við þá hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, að hún athugi málið frá þeim sjónarmiðum, sem ég hef hér bent á, því að stefna má til hagsbóta fyrir fiskimenn og aðra, sem olíu nota, með því að gera nánari athugun á álagningunni en enn virðast liggja fyrir upplýsingar um.