10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3875)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Borgf. vil ég skýra ummæli mín nánar, til þess að fyrirbyggja misskilning í sambandi við álagninguna á smurolíu. — Ég skrifaði verðgæzlustjóra 16. nóv. 1950 og fékk svar 18. nóv. 1950, en þar er þetta í, með leyfi hæstv. forseta: „Viðvíkjandi því, hvernig verðmyndun hámarksverðs á benzíni og hráolíu á sér stað, vil ég benda yður á að tala við fyrrv. fulltrúa verðlagsstjóra, Hermann Jónsson, sem nú hefur með verðlagsákvarðanir að gera f. h. fjárhagsráðs.“ — Þetta gerði ég, en hef ekkert svar fengið. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram til þess að sýna, að mér var ekki synjað svars beint, heldur óbeint.