10.01.1951
Sameinað þing: 30. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3876)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins bæta einu atriði við, sem mér láðist að geta hér áðan. — Ég var nýlega staddur á fundi útvegsmanna á Ísafirði, og upplýsti þá einn fundarmanna, að á fundi í L. Í. Ú. hefði verið beðið um upplýsingar um olíuálagninguna, en það hefði ekki verið hægt að fá þær, og nú segir þm. Snæf. það sama, — að hann hafi ekki fengið svar. En nú hefur hæstv. viðskmrh. upplýst, að fulltrúar frá Fiskifélagi Íslands og L. Í. Ú. eigi sæti í þeirri nefnd, sem ákveður álagningu á olíu, og fæ ég því ekki skilið, hvernig þetta geti verið hulið L. Í. Ú., sem — eins og komið hefur fram hjá hæstv. ráðh., — á fulltrúa í þeirri nefnd, sem fer með verðlagsálagningu olíu. En ef svo er, að jafnvel þingmenn geti ekki fengið þessar upplýsingar, er þá ekki reynandi, að viðskmrh. afli þessara upplýsinga í krafti síns embættis? Það á að vera hægt að fá allar upplýsingar um álagningu — og ætti reyndar að vera augljóst.