22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það atvikaðist þannig, að ég var ekki á fundi n., þegar mál þetta var endanlega afgr. frá n., en áður hafði ég verið þar á fundum, er mál þetta var rætt. Ég get lýst því yfir, að ég sætti mig við hið breytta orðalag till., sem n. hefur gert, og mun fylgja því, þótt ég telji hins vegar, að nokkuð sé dregið úr sjálfri till., eins og hún var upphaflega. Meginmálið er auðvitað það að fá fram ákveðinn vilja Alþingis um að koma á jöfnunarverði á olíum á öllum aðalstöðvum á landinu. Í þeirri breytingu, sem hér er gerð, er lagt fyrir ríkisstj. að láta fara fram athugun á verðlagi þessara vara. Ég mun fylgja þessari till. í trausti þess, að tilætlunin sé að taka upp jöfnunarverð á olíu á öllu landinu. — Ég tel ekki þörf að fara frekar út í þetta mál, en læt þetta duga.