22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (3882)

112. mál, jöfnunarverð á olíu og benzíni

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég skil ekki í hæstv. forseta að vera að taka þetta mál á dagskrá núna á kvöldfundi, enda er mjög fámennt hér í þingsalnum, eins og sjá má. Þetta er þó eitt af hinum brennandi spursmálum, sem valdið hefur miklum umræðum í blöðum og menn eru mjög ósammála um. — Ég vil þá spyrja hv. varafrsm., hvort ekki megi skilja ályktunartill. þessa þannig, að það verði beint stefnt að því að fá jöfnunarverð á olíum. Fyrst verði athugað verðlag á olíum og síðan sett sama verð um allt land, og í trausti þess greiði ég þessari till. atkv. — Sérstaklega hef ég hér í huga jöfnun á rafmagnsverði í landinu. Ef jöfnunarverð kemst á alla olíu og allt benzín í landinu, þá verður ekki hægt að standa á móti þeirri till. að verðjafna allt rafmagn í landinu. Þetta hlýtur mönnum að vera ljóst. Ég hef rætt þetta mál áður hér við frsm,, og nú á hins vegar að láta fara fram rannsókn á því, hvort ekki sé hægt að lækka olíuverðið, er það upplýstist í fjvn., að olíusalarnir geta leyft sér að selja ríkinu 125 kr. lægra hvert tonn en almenningi. Þessar upplýsingar þarf að taka föstum tökum. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm.: Hvað græðir Þyrill mikið á því að flytja olíuna út á land, og gengur þessi gróði til Skipaútgerðar ríkisins, en ekki til þess að lækka olíuverðið, eins og ætti að vera? Sannarlega ætti ríkissjóður að láta gróðann ganga til að lækka olíuverðið. — Ef þetta mál hefði verið tekið til umræðu á dagfundi, mundu hafa orðið um það miklar umræður, þar sem þetta er mikið deilumál.