27.11.1950
Neðri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. er nú ekki hér viðstaddur. En ég teldi nú rétt, að ef miklar umr. eiga að fara hér fram um þetta frv. nú við 2. umr. málsins, þá væri stillt svo til, að hæstv. landbrh. gæti verið hér viðstaddur umr. — En ég vil þó segja hér nokkur orð, og þá m.a. af því, að hv. þm. Ísaf. hefur dregið hér inn í umr. um þetta frv. þáltill. sem liggur fyrir í Sþ. og sjálfsagt kemur til umr. nú eftir einn dag, í sambandi við þá brtt., sem hv. þm. flytur hér. — En ég vildi óska þess við hæstv. forseta að öðru leyti, að umr. verði nú frestað, svo að hæstv. landbrh. gæti verið við umr.

Það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. segir, að sú till. til þál., sem hann vitnaði í, er búin að liggja lengi fyrir þinginu, eða frá því snemma á þinginu. Ég vil minna á það, að þegar þessi þáltill. kom fyrst fyrir, þá stóð togaraverkfallið enn þá yfir. M.a. voru bundnir togarar þá á stöðum eins og Ísafirði, þar sem svona var ástatt um atvinnu eins og lýst hefur verið. Og ég skal segja það mjög ákveðið, að meðan slík vinnutæki voru bundin við hafnargarðinn, eins og þá var, sá ég ekki ástæðu til að hefjast sérstaklega handa um athugun á því, sem hv. þm. minntist á. Ég lít svo á, að meðan stórvirkustu og beztu atvinnutækin, sem þjóðin hefur yfir að ráða og sparifé þjóðarinnar hefur fyrst og fremst verið varið til að kaupa, liggja bundin og ónotuð af þeim ástæðum, sem hér er um að ræða, þá sé ekki hægt að búast við, að hafizt sé sérstaklega handa um athugun á atvinnuleysi. Ég tek þetta hér fram af því, að lausn togaraverkfallsins hefur áreiðanlega haft mikið að segja í sambandi við þetta mál. Ég hef nokkuð látið athuga þessa hluti og fengið þær upplýsingar, að mjög mikið hafi breytzt atvinnuástandið á Ísafirði og í næstu þorpum, svo sem Bolungavík og Súðavík, vegna þess að þar hefur nú verið unnið að flökun í hraðfrystihúsunum, sem þarna eru. Þetta hef ég eftir ábyrgum aðilum á þessum stöðum. Ég hygg því, að það sé dálítið hæpið fyrir hv. þm. Ísaf. að halda því fram, að atvinnuástandið fari alltaf síversnandi. Mér dettur ekki í hug, að erfiðleika hafi ekki verið þarna um að ræða. En þetta hygg ég að sé rétt, sem ég tók fram um það, að úr hafi rætzt. Oddvitinn í Flateyrarhreppi hefur tjáð, að mikil breyting hafi orðið nú á atvinnulífinu þarna vestra vegna þess, að skip hafa lagt upp í hraðfrystihúsin í þorpum þarna, sem talin hafa verið, áður en togaraverkfallið leystist, mjög illa sett atvinnulega séð, og skal ég ekki mótmæla, að svo hafi verið. En mikil breyting til bóta hefur orðið á atvinnu á Vestfjörðum einmitt eftir að þáltill. var borin fram í vetur. Þetta hefur haft nokkur áhrif á afstöðu mína sem félmrh. í þessu máli og afstöðu ríkisstj. í heild.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ísaf. nefndi, að hæstv. atvmrh. hefur falið fiskábyrgðarnefnd að athuga og gera till. um smábátaútveginn. Og það er greinilegt, að það mál fléttast inn í atvinnuástandið á þessum stöðum. Og ríkisstj. var sammála um það, að sameiginleg athugun færi fram á því máli í heild og hinu, sem sú till. tók til, sem hv. þm. Ísaf. nefndi áðan. Þetta vil ég líka leyfa mér að taka fram á þessu stigi málsins. Ég vil því vísa á bug þeim svigurmælum, sem hv. þm. Ísaf. hafði um óafsakanlegt tómlæti ríkisstj., og fleiri slíkum ummælum í þessu sambandi. Þessi mál er verið að athuga. Og a.m.k. viðkomandi ýmsum stöðum er það óhrekjanlegt, að atvinnuástandið hefur batnað á síðustu vikum, en ekki versnað, á þessum svæðum, sem hv. þm. Ísaf. gerði sérstaklega að umtalsefni, þó að ég viti vel, að það muni vera alvarlegt á ýmsum stöðum og svo alvarlegt, að það þurfi einhverjar sérstakar ráðstafanir að gera af þeim ástæðum. En ég held, að það bæti ekkert úr að uppmála ástandið svartara en það raunverulega er. — Hv. þm. Ísaf. vitnaði hér í atvinnuleysisskráningu frá nokkrum stöðum, en vildi vera láta, að sú atvinnuleysisskráning sýndi ekki atvinnuleysið eins og það væri heldur væri það í raun og veru miklu meira. Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. hefur fyrir sér í þessu efni. Mér þykir mjög einkennilegt, ef ekki koma fram víð atvinnuleysisskráningar þeir vinnufærir menn yfirleitt allir, sem eru atvinnulausir í raun og veru, þegar slík skráning fer fram.

Ég bjóst nú ekki við, þegar ég leit á dagskrána, að á þessum fundi mundi verða farið að ræða um þetta mál, en hafði hins vegar gert ráð fyrir, að þegar þáltill. sú, sem hv. þm. Ísaf. minntist á og sennilega verður til umr. á miðvikudaginn kemur, verður til meðferðar, þá mundi ég gefa upplýsingar um atvinnuástandið á þeim stöðum, þar sem það hefur verið talið allra verst nú og hv. þm. Ísaf. minntist sérstaklega á hér áðan, og get ég að svo stöddu ekki frekar komið inn á það en með þeim fáu orðum, sem ég sagði um það áðan.

Ég skal ekki hér verulega fara að ræða um, hvort heppilegra sé að tengja við frv., sem nú liggur hér fyrir, þá brtt., sem hv. þm. leggur til, og tel sjálfsagt, að hæstv. landbrh., sem að þessu, sem frv. þetta er um, stóð f.h. ríkisstj. á sínum tíma, hafi um það að segja. En ég tel alveg óeðlilegt, að þetta tvennt sé tengt saman í einu þingmáli. Mér finnst miklu eðlilegra, að hv. þm. Ísaf. og þeir, sem hafa svipað sjónarmið og hann í þessu efni, leggi fram sérstakt frv. með kröfum um það, sem þeir telja nauðsynlegt í þessu efni, en það sé ekki verið að tengja það mál, sem hv. þm. Ísaf. gerði að umtalsefni, við annað og í raun og veru óskylt mál, eins og hér er lagt til, að gert verði. — Ég mun á þessu stigi málsins láta þessi fáu orð nægja, en endurtek, að þessi mál eru í athugun hjá ríkisstj. Og vitanlega verður hægt að segja eitthvað um þessi efni áður en langt líður hér frá.